Til bakaPrenta
Bæjarstjórn - 1966

Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg,
03.12.2025 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Valdimar Víðisson bæjarstjóri,
Kristinn Andersen forseti,
Skarphéðinn Orri Björnsson aðalmaður,
Kristín María Thoroddsen aðalmaður,
Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
Stefán Már Gunnlaugsson aðalmaður,
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir aðalmaður,
Kolbrún Magnúsdóttir aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Ívar Bragason, Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2503049 - Brynja leigufélag ses., umsókn um stofnframlög 2025 og 2026
4.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 27.nóvember sl.
Brynja og stofnframlög 2025 - 2026

Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu um stofnframlög og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Fulltrúar Samfylkingar koma á framfæri eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að veitt verði stofnframlög vegna íbúða hjá Brynju leigufélag fyrir öryrkja í Hafnarfirði og að það nýtist til þess að stytta langa biðlista eftir félagslegum íbúðum hjá Hafnarfirði. Einnig hvetja jafnaðarmenn til enn frekara samstarfs við Brynju leigufélag og aðra ámóta aðila.
Valdimar Víðisson tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur til andsvars. Valdimar svarar andsvari. Árni Rúnar kemur að andsvari öðru sinni.

Samþykkt samhljóða.

Valdimar kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fagna því að samþykkt hafa verið stofnframlög til kaupa á 16 íbúðum fyrir öryrkja. Hér er um að ræða mikla fjölgun á íbúðum í félagslega íbúðarkerfinu. Við leggjum einnig áherslu á að íbúðum verði fjölgað enn frekar og hefur því verið komið á framfæri við Brynju leigufélag að bærinn er tilbúinn að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis að tryggðar verði fleiri íbúðir á næstu þremur árum.

Árni Rúnar kemur að svohljóðandi bókun:

Árni Rúnar kemur að svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að veitt verði stofnframlög vegna íbúða hjá Brynju leigufélag fyrir öryrkja í Hafnarfirði og að það nýtist til þess að stytta langa biðlista eftir félagslegum íbúðum hjá Hafnarfjarðarbæ. Einnig hvetur jafnaðarfólk til enn frekara samstarfs við Brynju leigufélag og aðra aðila sem vinna að málum af þessum toga.

Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

Viðreisn fagnar þessu samkomulagi við Brynju leigufélag og vonar að þetta sé einungis byrjunin á þessari vegferð.



Greinargerð með umsókn Brynju leigufélags um stofnframlög - Nóvember 2025.pdf
Umsókn um stofnframlög 2026_Hafnarfjörður.pdf
2. 2511579 - Beiðni um lóðaskipti, Jötnahella 11 fyrir Straumhellu 34
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 27.nóvember sl.
Tekin fyrir beiðni um skipti á lóðum.

Bæjarráð samþykkir erindið. Vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Orri Björnsson tekur til máls.

Samþykkt samhljóða.
20251126_195634.pdf
3. 2103116 - Hraun vestur, aðalskipulag breyting
3.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 27.nóvember sl.
Bæjarráð Hafnarfjarðar, í umboði bæjarstjórnar, samþykkti á fundi sínum þann 10.7.2025 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í samræmi við 1.mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna breytinga á aðalskipulagi Hraun vesturs. Tillagan var í kynningu tímabilið 7.8.-29.9.2025. Lögð fram samantekt athugasemda og svör. Lögð fram uppfærð tillaga.

Skipulags- og byggingarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja uppfærða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar.
Orri Björnsson tekur til máls. Guðmundur Árni Stefánsson kemur til andsvars. Orri svarar andsvari. Guðmundur Árni kemur til andsvars öðru sinni. Stefán Már Gunlaugsson kemur að andsvari. Orri svarar andsvari.

Stefán Már tekur til máls.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls. Orri kemur að andsvari. Jón Ingi svarar andsvari.

Samþykkt samhljóða.
20251127-HRAUN-V-ADALSKIP-ENDURSKO_A_.pdf
Slóð á skipulagsgátt.pdf
ASK_2013_2025-Hraun Vestur A2 (1).pdf
Hraun Vestur - Samantekt athugasemda.pdf
4. 23031026 - Skipulagsmál - nýbyggingarsvæði
Útvíkkun vaxtarmarka og aukið framboð fjölbreytts húsnæðis

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa. Starfshópurinn njóti stuðnings sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni starfshópsins er að meta tækifæri til íbúðauppbyggingar á nýjum byggingarsvæðum sem verða til með útvíkkun vaxtamarkanna m.t.t. fjölbreytts framboðs íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Einkum verður horft til þess að hraða uppbyggingu íbúða og skapa hagkvæmari valkosti fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Starfshópurinn skoði samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og félög um stúdentaíbúðir, byggingarfélög eldri borgara sem og við félög á borð við Bjarg, Búseta og Búmenn. Hópurinn skoði einnig samstarf við ríkið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis m.a. möguleika á stofnun innviðafélags sem fjármagnar og hefur umsjón með uppbyggingu ákveðins fjölda íbúða og þar með talið uppbyggingu innviða eins og gatnagerð, leik- og grunnskóla o.fl. Þegar kemur að íbúðum fyrir eldra fólk skal hópurinn líta til niðurstöðu starfshóps um íbúðir fyrir eldra borgara sem hefur nú skilað niðurstöðum og kynnt þær í bæjarráði og fjölskylduráði. Einnig skal starfshópurinn skoða sérstaklega hvernig hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélagsins á næstu árum svo hægt verði að vinna á löngum biðlistum eftir slíku húsnæði. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 1. maí og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. október n.k.

Greinargerð:
Á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 30. október var tillaga Samfylkingarinnar samþykkt sem fól í sér að hefja vinnu við útvíkkun vaxtarmarkanna og að slík tillaga verði lögð fram í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins eigi síðar en í janúar 2026. Ljóst er að vinna við útvíkkun vaxtamarkanna getur tekið meira en tvö ár. Nauðsynlegt er að samhliða þeirri vinnu verði allar leiðir skoðaðar til þess að auka framboð fjölbreytts íbúðarhúsnæðis. Það er til staðar mikil uppsöfnuð íbúðaþörf í landinu og gera áætlanir ráð fyrir að það þurfi að byggja allt að 5000 íbúðir á ári og þar af yfir 500 í Hafnarfirði. Ekki hefur dregið úr eftirspurn eftir íbúðum þrátt fyrir spár þess efnis. Á sama tíma og þörf fyrir nýjar íbúðir eykst, þá er 70% fækkun nýframkvæmda á byggingarmarkaði milli ára. Nýlega lagði ríkisstjórnin fram húsnæðispakka þar sem áherslan er á einfaldara og skýrara regluverk sem stuðlar að hraðari uppbyggingu þar sem einnig er gert ráð fyrir fleiri almennum íbúðum, fleiri íbúðum fyrir námsmenn og öryrkja og fleiri íbúðum fyrir alla. Þá hefur verið kynnt samstarf ríkis og borgar um uppbyggingu í Úlfarsárdal með stofnun innviðafélags. Innviðauppbygging í nýjum hverfum hefur reynst sveitarfélögum erfið hindrun þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á nýjum svæðum, en nú kemur ríkið að því. Starfshópurinn meti leiðir til að stuðla að skjótri og öruggri uppbyggingu sem taki m.a. mið af húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Orri Björnsson kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls. Orri kemur til andsvars. Stefán Már svarar andsvari. Orri kemur að andsvari öðru sinni. Stefán Már svarar andsvari.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls.

Guðmundur Árni tekur til máls öðru sinni. Jón Ingi kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari. Orri kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari. Valdimar Víðisson kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Forseti ber upp til atkvæða fyrirliggjandi tillögu. Er hún felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafna tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar greiða atkvæði með tillögunni.

Guðmundur Árni Stefánsson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar furða sig á því að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks treysti sér ekki til að samþykkja þessa tillögu okkar. Hún snýr að því að farið verði í þá mikilvægu vinnu að meta tækifæri til íbúðauppbyggingar á nýjum byggingarsvæðum og auka framboð fjölbreytts húsnæðis í bænum eins og gert er ráð fyrir í vinnslutillögu að aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Enn og ný staðfestir meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks áhugaleysi sitt þegar kemur að þessum málum. Hann skilar enn og ný auðu hvað varðar samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög, uppbyggingu íbúða fyrir eldra fólk, námsmenn og þá sem eiga í vandræðum með að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn. Enn á ný stýrir stefna Sjálfstæðisflokksins málum í húsnæðisuppbyggingu í Hafnarfirði, þar sem markaðnum er ætlað að leysa öll mál, en félagshyggjuáherslur Framsóknarflokksins eru hverfandi.

Orri kemur að svohljóðandi bókun:

Framboð íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði er mjög mikið og fjölbreytt. Á næsta ári má reikna með að hafin verði bygging á yfir 700 nýjum íbúðum, um eða yfir 80% í fjölbýli. Á þessu ári munu klárast um sex hundruð íbúðir, flestar í fjölbýli.

Ólíkt til dæmis Reykjavík er umtalsvert framboð af sérbýlislóðum í Hafnarfirði og þannig mun það áfram vera. Á sama tíma munu yfir 2.000 íbúðir í fjölbýli klárast á kjörtímabilinu. Yfir 6.000 íbúðir eru óbyggðar í Hafnarfirði samkvæmt þeim skipulagsáætlunum sem hafa klárast eða eru að klárast í bænum.

Það er rífandi gangur í uppbyggingu í Hafnarfirði og engin þörf á starfshóp um hana.




5. 2005180 - Samgöngusáttmáli
Samgöngusáttmáli - Borgarlína - formlegar viðræður við Betri samgöngur

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn samþykkir að hafnar verði formlegar viðræður við Betri samgöngur til þess að ræða hönnun og útfærslu framkvæmda vegna Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði hvað varðar innleiðingu borgarlínu. Í þeim viðræðum verði hugað sérstaklega að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í tengslum við gerð borgarlínu frá Engidal um Reykjavíkurveg að Firði. Einnig skal í viðræðunum undirbúa uppfærslu samgöngusáttmálans enda liggur fyrir að ekki er gert ráð fyrir borgarlínu í sérrými frá Firði að Suðurhöfn og að slík breyting krefst formlegrar uppfærslu samgöngusáttmálans. Það er brýnt að eyða óvissu um þetta atriði enda mun þar rísa Tækniskóli með meira en 3 þúsund nemendum sem og ný íbúðabyggð fyrir þúsundir íbúa. Eins verði í viðræðum við Betri samgöngur unnið að því að knýja á um flýtingu einstakra framkvæmda í bænum en Hafnarfjörður er því miður aftarlega á merinni þegar kemur að framkvæmdatíma borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu.

Greinargerð:
Þann 2. apríl sl. kom fram á vef Borgarlínunnar að stórt borgarlínuskref hefði verið tekið í Hafnarfirði. Það fólst í því að hönnun frumdraga á um 2 km löngum vegakafla í Hafnarfirði, sem tilheyrir fjórðu lotu borgarlínunnar, væri hafin. Um er að ræða vegakafla sem nær frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Reykjavíkurveg að verslunarkjarnanum Firði. Af þessu tilefni lagði Samfylkingin fram fyrirspurn um málið í bæjarstjórn í ágúst sl. Svör við henni voru lögð fram á fundi bæjarráðs þann 30. okt. sl. Þau sýna að undirbúningur verkefnisins er á algjöru frumstigi, enda er ekki gert ráð fyrir lokum framkvæmda fyrr en 2034, eða eftir heil átta ár. Einnig leiða svörin í ljós að það er alls ekki skýrt hvernig öryggisráðstöfunum vegna gangandi og hjólandi vegfarenda skuli háttað á þessum vegakafla. Ekki er heldur gert ráð fyrir framlengingu borgarlínu í sérrými að Suðurhöfn en það er gríðarlega mikilvægt að óvissu um það verði eytt strax enda mun þar rísa nýr Tækniskóli með meira en 3 þúsund nemendum sem og ný íbúðabyggð fyrir þúsundir íbúa. Samfylkingin lagði svo fram tillögu á fundi bæjarstjórnar þann 5. nóv. sl. að bæjarstjórn áréttaði afstöðu sína varðandi borgarlínuna og að forsvarsmenn Betri samgangna yrðu boðaðir á fund bæjarráðs. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks treysti sér ekki til að samþykkja tillöguna heldur vísaði henni til bæjarráðs. Fulltrúar Betri samgangna mættu svo á fund bæjarráðs 13.nóvember sl. að beiðni Samfylkingarinnar og staðfesti sá fundur allt það sem Samfylkingin hefur rætt um í tengslum við þetta mál. Engin formleg beiðni kom frá meirihluta bæjarstjórnar við endurskoðun og uppfærslu samgöngusáttmála á árinu 2024 varðandi þessi brýnu hagsmunamál Hafnfirðinga. Í ljósi þess endurflutti Samfylkingin tillöguna á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks treystu sér ekki til að samþykkja tillöguna heldur vísuðu henni enn og aftur til bæjarráðs.
Brýnt er að bæjarstjórn hefji formlegar viðræður við Betri samgöngur til þess að ræða hönnun og útfærslu framkvæmda vegna samgöngusáttmála í Hafnarfirði, sem í sjálfu sér er tiltölulega ódýr og einföld framkvæmd miðað við áform í öðrum sveitarfélögum. Það er brýnt í ljósi þess að fram hefur komið að ekki er gert ráð fyrir því í kostnaðaráætlun vegna Samgöngusáttmála að Borgarlína í sérrými nái að Suðurhöfn. Einnig liggur fyrir að sú viðbót næst ekki fram samkvæmt sjónarmiðum forsvarsaðila Betri samgangna nema með formlegri uppfærslu Samgöngusáttamála höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt þarf samtal við Betri samgöngur um útfærslu umferðaröryggis fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem þvera Reykjavíkurveg frá Flatahrauni að Engidal. Enn fremur þarf að ræða um útfærslu á stuttum kafla leiðarinnar.
Ljóst er að nú þegar þarf að hefja formlegar viðræður við Betri samgöngur og knýja á um ofangreindar áherslur Hafnarfjarðar og fleiri mikilvæg atriði í þeim efnum. Eins væri lag að knýja á um flýtingu framkvæmda, en Hafnarfjörður er afar aftarlega á merinni þegar kemur að framkvæmdatíma Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. En nú er framkvæmdin á hönnunarstigi og þá verður bæjarstjórn að tala skýrt. Það hefur vantað á umliðnum árum eins og staðan ber með sér. Þess skal getið að önnur tillaga af svipuðu tagi er lögð fram af Samfylkingunni um vegamálin og samgöngusáttmálann, þar sem áhersla er á nauðsynlegar vegabætur á Reykjanesbraut frá Lækjargötu og fram hjá Kaplakrika og einnig nauðsynlegar endurbætur á Flóttamannavegi/Ofanbyggðarvegi.
Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls. Valdimar Víðisson kemur til andsvars og leggur til að fyrirliggjandi tillögu verði vísað frá. Árni Rúnar svarar andsvari. Valdimar kemur að andsvari öðru sinni. Árni Rúnar svarar andsvari.

Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Valdimar kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls. Árni Rúnar kemur að andsvari. Jón Ingi svarar andsvari. Árni Rúnar kemur að andsvari öðru sinni. Jón Ingi svarar andsvari öðru sinni. Orri Björnsson kemur að andsvari. Jón Ingi svarar andsvari.

Forseti ber næst upp framkomna tillögu um að vísa málinu frá og er það samþykkt þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar greiða atkvæði með frávísun málsins. Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar greiða atkvæði gegn frávísun málsins.

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks koma að eftirfarandi bókun:

Skipulagsvaldið er í höndum Hafnarfjarðarbæjar eins og skýrt hefur legið fyrir frá upphafi málsins. Tillagan sem hér er lögð fram er í fullu samræmi við þá vinnu sem er í gangi vegna gerð Borgarlínu og legu hennar hér í Hafnarfirði. Tillagan er í vinnslu í bæjarráði og leggur meirihluti bæjarstjórnar því áherslu á að svo sé áfram og að hratt og vel sé unnið að málum þar. Þar sem málið er í fullri vinnslu er tillögunni vísað frá.

Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd Samfylkingarinnar:

Enn og aftur hafnar meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tækifærum til þess að taka forystu í samgöngumálum Hafnarfjarðar. Fulltrúar Betri samgangna hafa bent á það að ekki verði hægt að gera ráð fyrir Borgarlínu í sérrými frá miðbæ að Suðurhöfn án formlegrar uppfærslu samgöngusáttmálans. Hafnarfjörður verður líka að sýna frumkvæði þegar kemur að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í útfærslu Borgarlínu frá Engidal að Flatahrauni þar sem gangandi og hjólandi þvera Reykjavíkurveginn. Þessi afstaða meirihlutans í dag er því miður í fullu samræmi við það verk- og úrræðaleysi sem einkennt hefur öll hans vinnubrögð og samskipti við Betri samgöngur í tengslum við samgöngusáttamálann og uppfærslu hans.





6. 2005180 - Samgöngusáttmáli
Samgöngusáttmáli - Reykjanesbraut - Flóttamannavegur

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að ráðist verði í formlegar viðræður við Betri samgöngur og Vegagerðina um flýtiframkvæmdir vegna Reykjanesbrautar frá Lækjargötu að Kaplakrika vegna viðvarandi umferðarteppu á þessu svæði. Ljóst er að til sértækra aðgerða þarf að grípa í ljósi þess að varanlegri endurbótum á þessum kafla verður ekki lokið fyrr en að 10 árum liðnum samkvæmt ákvæðum Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá verði einnig í þessu samhengi skoðaðar styrkingar og vegabætur á Flóttamannavegi, sem myndu nýtast á framkvæmdatíma við gerð stokks/jarðgangna á Reykjanesbrautinni skv. áætlun samgöngusáttmálans. Ljóst er að Vegagerðin hefur gert frumhönnun að endurbættum Flóttamannavegi og eru bundnar vonir við að sú framkvæmd fái brautargengi í væntanlegri samgönguáætlun. Gert er ráð fyrir 260 milljónum króna framlagi Hafnarfjarðarbæjar á komandi fjárhagsári til sáttmálans. Samkvæmt sáttmálanum eru 200 milljónir fráteknar til undirbúnings/framkvæmda á árinu 2026, sama upphæð og á yfirstandandi ári. Ennfremur 200 milljónum vegna ársins 2027 og svo 1 milljarði króna vegna ársins 2028 og 2,6 milljörðum vegna ársins 2029. Í því ljósi er raunhæft og nauðsynlegt að grípa hið fyrsta til vegabóta á svæðinu og bregðast strax við viðvarandi umferðarvanda, enda þótt aðalframkvæmdin muni ekki eiga sér stað fyrr en á árunum 2030 - 2033 eða um 15 milljarðar samkvæmt ákvæðum sáttmálans.

Greinargerð:
Tillagan skýrir sig sjálf, enda ítarleg og tekur á þeim mikla umferðarvanda sem við er að eiga á þessum kafla Reykjanesbrautar; frá hringtorgi við Lækjargötu að Kaplakrika. Fyrir liggur að langþráðar vegabætur á þessum kafla Reykjanesbrautar eru afar brýnar, en hafa verið færðar aftur í tíma í nýlega endurnýjuðum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Því er ljóst að grípa þarf til flýtiaðgerða/bráðabirgðaaðgerða á meðan varanlegri lausn er undirbúin og síðan framkvæmd. Hafnarfjarðarbær greiðir strax á næsta ári um 260 milljónir króna (248 milljónir á árinu 2025) til verkefnisins skv. ákvæðum sáttmálans og síðan áfram næstu árin. Það er bæði sanngjarnt og skynsamlegt að nýta fjármuni strax á næsta ári til að byggja í haginn og enn fremur til að létta strax á umferðarþunga á þessum kafla. Ljóst er að á aðal framkvæmdatíma við samgöngubæturnar er einasta hjáleið um Flóttamannaveginn. Styrking hans gæti til lengri tíma verið upphaf að gerð ofanbyggðarvegar, frá Hafnarfirði og í gegnum efri byggðir Garðabæjar, Kópavogs og Reykjavíkur, sem vantar alfarið í annars ítarlegan verkefnalista samgöngusáttmálans. Þessi ítrekaða tillaga Samfylkingarinnar var felld á síðasta ári af meirihlutanum og sama má segja um aðrar tillögur Samfylkingarinnar í þessum málum. Hins vegar er ljóst að dropinn holar steininn og viðhorfsbreytingar hafa átt sér stað af hálfu meirihlutans, því nýlegar blaðagreinar bæjarstjóra og oddvita Framsóknarflokksins , Valdimars Víðissonar og Kristínar Thoroddsen bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eru efnislega samhljóða ítrekuðum áherslum Samfylkingarinnar í málinu og þeirri tillögu sem hér er er lögð fram til afgreiðslu. Í því ljósi má vænta þess að um hana verði nú almenn samstaða. Þá skal þess getið að Samfylkingin mun einnig leggja fram tillögu við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, þar sem frá er tekið fjármagn, 60 milljónir króna til að ráðast í umferðarbætur á nærliggjandi vegum bæjarins, sem liggja nærri og að Reykjanesbraut og Flóttamannavegi og einnig varðandi framlengingu borgarlínu frá miðbæ að Suðurhöfninni. Þannig sýnir bærinn vilja sinn í verki til að ýta þessum mikilvægu verkefnum áfram í tíma.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Einnig Valdimar Víðisson og leggur hann til að fyrrirliggjandi tillögu verði frestað og tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar í janúar. Guðmundur Árni kemur að andsvari. Valdimar svarar andsvari og breytir tillögunni sinn í að fresta málinu til næsta fundar bæjarstjórnar. Guðmundur Árni kemur að andsvari öðru sinni. Valdimar svarar andsvari öðru sinni.

Kristín Thoroddsen tekur til máls. Guðmundur Árni kemur að andsvari.

Árni Rúnar tekur til máls.

Forseti ber næst upp framkomna tillögu um að fresta málinu til næsta fundar bæjarstjórnar og er það samþykkt með sjö atkvæðum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar. Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Guðmundur Árni Stefánsson kom að eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við fresturnartillögu bæjarstjóra enda teljum við að samþykkt þessarar tillögu komi ekki veg fyrir að samtalið verði tekið við Betri samgöngur og Vegagerðina þegar valkostagreining liggur fyrir. Það er ljóst að umræðan um tillöguna er á þann veg að bæjarstjórn er efnislega sammála tillögu Samfylkingarinnar og væntum við því stuðnings við hana þegar hún verður lögð fram að nýju á næsta fundi bæjarstjórnar.
7. 2409735 - Málefni barna - og ungmenna í Hafnarfirði
Börn og ungmenni - fyrirkomulag frístundamála ? heildarstefnumótun

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn samþykkir að setja á fót starfshóp fimm kjörinna fulltrúa sem hafi það hlutverk að móta heildarstefnu bæjarfélagsins í frístundamálum. Vinna starfshópsins taki til starfsemi ungmennahúsa, félagsmiðstöðva, félagsstarfs og tómstundamála. Einnig verði litið til stoðþjónustu á vegum bæjarfélagsins, atvinnumála ungmenna og nýsköpunar meðal barna og ungmenna. Skoðað verði hvort ástæða sé til að setja á laggirnar sérstaka miðstöð frístundamála sem hafi yfirumsjón með málaflokknum til þess að styrkja utanumhald hans hjá bænum. Starfshópurinn skal leggja mat á það hver leiðarljósin og markmið starfseminnar eigi að vera til framtíðar. Einnig skal hópurinn skoða sérstaklega hvernig hægt að sé auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í hvers kyns frístundastarfi.
Fræðsluráð setji starfshópnum erindisbréf og skipi hann. Með starfshópnum starfi sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs og íþrótta- og tómstundafulltrúi. Hópurinn skal í vinnu sinni leita fanga hjá fagfólki og fræðimönnum í málaflokknum sem og að kalla eftir sjónarmiðum frjálsra félagasamtaka í bænum þar sem börn og ungmenni stunda frístundir. Niðurstöður hópsins skulu liggja fyrir í lok mars nk.

Greinargerð:
Frístundamál barna og ungmenna skipta grundvallarmáli í nútímasamfélagi og mörg börn og ungmenni eiga athvarf í skipulögðu frístundastarfi. Hafnarfjörður hefur lengið skipað sér í fremstu röð þegar kemur að frístundamálum barna og ungmenna og nægir í þeim efnum að nefna frístundastyrkinn sem komið var á árið 2002. Honum er einmitt ætlað að styrkja við þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þannig að öll börn og ungmenni geti stundað frístundir óháð efnahag. En það skiptir líka máli að öll börn og ungmenni geti fundið eitthvað sitt hæfi í þeirri frístundaflóru sem í boði er í bænum. Í þeim efnum skiptir starfsemi ungmennahúsa og félagsmiðstöðva grundvallarmáli og mikilvægt er að efla þá starfsemi eins og kostur er til þess að taka sérstaklega utan um þann hóp sem ekki finnur sig í öðru skipulögðu frístundastarfi. Í þessu samhengi er einnig brýnt að skoða starfsemi frjálsra félagasamtaka í bænum þar sem börn og ungmenni stunda frístundir eins og hjá íþróttafélögum, skátum, björgunarsveit, kirkjunni o.s.frv. og leita eftir sjónarmiðum þeirra í vinnu starfshópsins.
Meðal þess sem starfshópnum er ætlað að skoða er hvort stofnun sérstakrar miðstöðvar frístundamála sé líkleg til að geta unnið að samræmingu þessarar þjónustu við börn og ungmenni sem er í dag á víð og dreif um stjórnkerfið. Einnig er mikilvægt að starfshópurinn skoði hvort slík miðstöð geti stuðlað að betri heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og gert stefnu og framkvæmd hennar markvissari. Meginmarkmiðið með vinnu starfshópsins er að móta heildarstefnu í málaflokknum sem stuðlar að heildstæðri, skilvirkri og sveigjanlegri þjónustu fyrir börn og ungmenni í Hafnarfirði í frístundamálum.
Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls.

Kristín Thoroddsen tekur til máls. Kolbrún kemur til andsvars. Kristín svarar andsvari. Stefán Már Gunnlaugsson kemur að andsvari. Kristín svarar andsvari. Stefán Már kemur að andsvari.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls.

Forseti ber upp til atkvæða fyrirliggjandi tillögu. Er hún felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafna tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar greiða atkvæði með tillögunni.

Kolbrún kemur að svohljóðandi bókun:

Kolbrún Magnúsdóttir kom að eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir vonbrigðum með að meirihlutinn hafni tillögu um að skipa starfshóp til að móta heildarstefnu Hafnarfjarðarbæjar í frístundamálum. Frístundamál barna og ungmenna skipta grundvallarmáli í nútímasamfélagi; þátttaka í skipulögðu frístundastarfi er mikilvæg forvörn gegn félagslegum erfiðleikum og styður við heilsu og vellíðan.
Við teljum brýnt að Hafnarfjörður haldi áfram að skipa sér í fremstu röð á þessu sviði. Til að svo megi vera þarf markvissa stefnu og samræmda nálgun þar sem skoðaðar eru þarfir barna og ungmenna í heild; starfsemi ungmennahúsa, félagsmiðstöðva og frjálsra félagasamtaka, auk stoðþjónustu, atvinnumála ungmenna og nýsköpunar. Skipan starfshóps hefði skapað vettvang fyrir breitt samráð, þar sem sérfræðingar og frjáls félagasamtök hefðu lagt fram sín sjónarmið og sérstaklega verið hugað að því hvernig auka megi þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna. Jafnframt hefði hópurinn lagt mat á hvort nauðsynlegt væri að stofna sérstaka miðstöð frístundamála til að samræma þjónustu og efla faglega ráðgjöf.
Með því að hafna þessari tillögu er slegið á frest tækifæri til að efla samhæfða og framsækna stefnu í frístundamálum. Fulltrúar Samfylkingarinnar munu áfram vinna að því að börn og ungmenni í Hafnarfirði fái fjölbreytt og aðgengilegt frístundastarf sem mætir ólíkum þörfum.

Kristín kemur að svohljóðandi bókun:

Tillögu Samfylkingarinnar um að stofna starfshóp um fyrirkomulag frístundamála er synjað af hálfu meirihluta. Árið 2023 skilaði starfshópur skipaður af fræðsluráði tillögum sem miðuðu að því að efla frístundastarf frístundaheimila skólanna og er nú unnið samkvæmt því skipulagi ásamt því að starfshópur skilaði tillögum um frístunda og tómstundastarf fyrir ungmenni fyrir rúmlega ári síðan.
Meirihluti bæjarstjórnar telur heldur ekki þörf á að setja á laggirnar sérstaka miðstöð frístundamála. Hver skóli ber ábyrgð á sínu frístundaheimili og er þar að auki fyrir hendi öflugt og reglulegt samtal og samvinna milli stjórnenda frístundaheimilanna og við fagstjóra forvarna- og frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ . Unnið hefur verið markvisst að því að ná betur til barna af erlendum uppruna og mun starfsfólk bæjarins halda áfram að vinna að því markmiði, til þess þarf hvorki starfshóp né miðstöð.
Á síðustu tveimur árum eða frá því hafist var handa við að opna nýtt úrræði fyrir ungt fólk hefur orðið veruleg breyting á aðgengi ungs fólks að tómstunda- og frístundastarfi í bænum. Miðstöð ungs fólks blómstrar í Nýsköpunarsetrinu, þar fer fram fjölbreytt starf sem nær m.a. til leiklistar, tónlistar, nýsköpunar, ýmisskonar hópastarfs og ýmissa verkefna sem ungmenni hafa sjálf komið af stað og kallað eftir. Þetta hefur stórbætt aðgengi ungs fólks og náð til fjölbreyttari hóps en nokkru sinni fyrr.



8. 18129524 - Starfshópur um forvarnir
Starfshópur um forvarnir - endurskoðun forvarnarstefnu Hafnarfjarðar

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn samþykkir að fela fræðsluráði endurskoðun forvarnarstefnu Hafnarfjarðar. Endurskoðun fræðsluráðs skal lokið fyrir lokið í mars á næsta ári þannig að hægt verði að leggja nýja stefnu fram til afgreiðslu bæjarstjórnar í apríl 2026.

Greinargerð:
Núverandi forvarnarstefna Hafnarfjarðar var samþykkt árið 2008 og er því orðin 17 ára gömul. Því má með nokkurri vissu segja að hún þarfnist endurskoðunar. Enda var starfandi á síðasta kjörtímabili starfshópur um forvarnir. Eitt af því sem starfshópurinn lagði til og forgangsraðaði fremst í sínum tillögum var að endurskoða forvarnarstefnu bæjarins enda sé það mikilvægt að Hafnarfjörður hafi markvissa og sýnilega stefnu í forvarnaráherslum sínum. Í skýrslu starfshóps um forvarnir frá 2019 kom fram að núverandi forvarnarstefna bæjarins væri frá árinu 2008, væri verkefnamiðuð og úr sér gengin. Fulltrúi foreldraráðs í fræðsluráði lagði svo til á fundi ráðsins í apríl 2020 að farið yrði í endurskoðun forvarnarstefnunnar. Tillagan hlaut enga afgreiðslu af hálfu fræðsluráðs.
Samþykktar stefnur sveitarfélagsins mega ekki vera dauð plögg og í jafn mikilvægum málaflokki og forvarnarmálum gengur ekki að samþykkja stefnu og láta hana duga til mjög langrar framtíðar án þess að uppfæra hana. Það var enda niðurstaða starfshóps um forvarnir, sem skilaði af sér niðurstöðum árið 2019, að nauðsynlegt væri að endurskoða forvarnarstefnu sveitarfélagsins. Við því var ekki brugðist á sínum tíma, hvorki þegar skýrslan var kynnt í fræðsluráði né þegar fulltrúi foreldraráðs lagði til að farið yrði af stað í þessa vinnu. Síðan eru liðin 6 ár til viðbótar og því er orðið enn brýnna að forvarnarstefnan verði endurskoðuð.
Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls. Kristín Thoroddsen kemur að andsvari.

Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Kristín kemur að andsvari og leggur til að málinu verði í heild vísað til fræðsluráðs. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls. Kristín kemur að andsvari og fellur frá fyrri tillögu sinni. Árni Rúnar svarar andsvari. Kristín kemur að andsvari öðru sinni. Árni Rúnar svarar andsvari öðru sinni. Orri Björnsson kemur að andsvari. Árni Rúnar svarar andsvari.

Forseti ber upp fyrirliggjandi tillögu og er hún samþykkt samhljóða.
9. 2412667 - Aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði
Aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fjölskylduráði að móta leiðir, í samstarfi við atvinnulífið í bænum, til þess að styðja við fyrirtæki í bæjarfélaginu til þess að auka aðgengi og ýta undir atvinnuþátttöku fólks með fötlun á almennum vinnumarkaði.
Greinargerð:
Atvinnuþátttaka fólks með fötlun er mikilvægt jafnréttismál og almennur vinnumarkaður er ekki nógu aðgengilegur fötluðu fólki. Fyrir liggur að slæmt aðgengi í atvinnuhúsnæði dregur úr þátttöku fólks með fötlun á almennum vinnumarkaði. Úr því þarf að bæta. Því er vert að skoða hvort styðja skuli fyrirtæki til breytinga á atvinnuhúsnæði.
Fólk með fötlun er ólíklegra til að vera ráðið til starfa en ófatlað fólk og því standa ekki nægjanlega fjölbreytt störf til boða. Í 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hefur nú lögfest, er því lýst hvernig fólk á rétt til vinnu án aðgreiningar. Af þessum sökum verða stjórnvöld að leita leiða til þess að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og þar hefur Hafnarfjörður sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins mikilvægu hlutverki að gegna. Þess vegna er brýnt að setja þessi mál í markvissan farveg innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls. Margrét Vala Marteinsdóttir kemur að andsvari og leggur til að tillögunni verði vísað til fjölskylduráðs til frekari umræðu. Árni Rúnar svarar andsvari. Margrét Vala kemur að andsvari öðru sinni og fellur frá fyrri tillögu sinni. Árni Rúnar svarar andsvari.

Forseti ber upp fyrirliggjandi tillögu og er hún samþykkt samhljóða.

Margrét Vala kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti bæjarstjórnar ítrekar að Hafnarfjarðarbær hefur þegar byggt upp sterk úrræði til að styðja atvinnu- og virkniþátttöku fólks með fötlun með opnun Miðstöðvarinnar. Sú vinna er vel á veg komin og hefur þegar skilað faglegri, atvinnuaukandi og markvissari þjónustu.

Ný tillaga Samfylkingarinnar fellur einfaldlega inn í þá vinnu meirihlutans og þau úrræði sem þegar eru til staðar. Meirihlutinn samþykkir því tillöguna enda er hún í fullu samræmi við þá vinnu sem þegar stendur yfir.

Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi samþykkt tillögur okkar í Samfylkingunni varðandi aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði. Tillagan felur í sér að fjölskylduráði verði falið að móta tillögur, í samstarfi við atvinnulífið í bænum, til þess að auka aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði. Samfylkingin hefur áður lagt til tillögur í þessum anda sem ekki hafa verið samþykktar af meirihlutanum. Þessi breyting er því ánægjuleg.
10. 2512007 - Starfshópur um miðbæ Hafnarfjarðar
Starfshópur um miðbæ Hafnarfjarðar
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fjögurra manna starfshóps kjörinna fulltrúa auk eins fulltrúa frá íbúum miðbæjarins og eins fulltrúa rekstraraðila þjónustuhúsnæðis í miðbænum. Starfshópurinn njóti stuðnings og þjónustu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni hópsins er að móta framtíðarstefnu fyrir miðbæ Hafnarfjarðar. Hópurinn skoði lausnir er varðar bílastæði og þá m.a. í bílastæðahúsi eða neðanjarðar, þannig að rými skapist til uppbyggingar og þá hvernig megi efla þjónustu, verslun ásamt uppbyggingu íbúða og styðja við menningarviðburði. Einnig verði horft til tengingar miðbæjarins við önnur hverfi og þá uppbyggingu sem hefst vonandi á næstu misserum á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í vinnu hópsins verði haft í huga að vernda einkenni miðbæjar Hafnarfjarðar sem er annar af sögulegum miðbæjum höfuðborgarsvæðisins. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið eigi síðar en 1. mars nk. og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. maí nk. Á starfstímanum verði boðað til vinnufundar með íbúum og öðrum hagaðilum þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, eigendum verslunar og þjónusturýma, rekstraraðilum og öðrum þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Skýrsla starfshópsins verði grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins.

Greinargerð:
Á þessu og síðasta kjörtímabili hefur endurskoðun miðbæjar Hafnarfjarðar komið alloft til umræðu í skipulags- og byggingaráði. Þann 26. apríl 2022 var samþykkt á fundi í skipulags- og byggingaráði að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins, en ekkert hefur gerst. Síðast var málið til umfjöllunar 19. mars, 2025 og þar var samþykkt að óska eftir samantekt á stöðu mála, en ekkert hefur gerst. Nú þarf að láta verkin tala og vinna hratt og vel að því að móta framtíð miðbæjar Hafnarfjarðar, sem hefur mikið aðdráttarafl og þar liggja mikil tækifæri að gera enn betur. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og nauðsynlegt að þar megi byggja upp öflugan miðbæ iðandi af mannlíf með fjölbreyttri þjónustu, atvinnu- og menningarlífi. Niðurstaða starfshóps um miðbæinn, sem skilaði lokaskýrslu árið 2021, var að við endurskoðun og áframhaldandi vinnu er varðar miðbæinn sé lykilatriði að hann fái að þróast, að hann geti mætt þörfum samfélagsins hverju sinn og að sett verði fram skýr framtíðarsýn sem veitir heildarmynd og yfirsýn yfir næstu mögulegu vaxtarskeið Hafnarfjarðarbæjar. Raunin er hins vegar sú að bútasaumurinn heldur áfram og enginn árangur hefur náðst. Skipulag miðbæjarins er frá árinu 2001 og það er löngu kominn tími á endurskoðun þess sbr. niðurstöðu starfshópsins fyrir fimm árum síðan og því er þessi tillaga lögð fram. Lagt er til að hún verði unnin í samvinnu við íbúa og aðra hagaðila og haldinn verði íbúafundur. Skýrsla starfshópsins verði þannig grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar.
Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls.

Valdimar Víðisson tekur til máls og leggur jafnframt til að tillagan verði samþykkt og að henni verði einnig vísað til bæjarráðs. Stefán Már kemur til andsvars.

Er framangreint samþykkt samhljóða.

Valdimar kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tekur undir framkomna tillögu og telur mikilvægt að flýta og styrkja þá vinnu sem þegar er hafin við mótun framtíðarstefnu fyrir miðbæ Hafnarfjarðar. Undanfarin misseri hefur verið unnin mikil og góð vinna að frumkvæði meirihluta er snýr m.a. að greiningu á bílastæðamálum, þar á meðal nýtingu bílastæða yfir sumartímann, auk annarrar undirbúningsvinnu sem tengist uppbyggingu og mótun miðbæjarins. Á bæjarráðsfundi bókaði meirihlutinn einnig mikilvægi þess að hefja undirbúning að bílastæðahúsi og hefur fjármagn verið sett í það verkefni.
Málið hefur því verið undirbúið vel og starfshópurinn fær það verkefni að leiða það áfram í góðri samvinnu við bæjarráð, umhverfis- og framkvæmdarráð og skipulags- og byggingarráð.

Stefán Már Gunnlaugsson kemur að eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi samþykkt tillögu okkar um starfshóp um miðbæ Hafnarfjarðar. Það er orðið löngu tímabært að taka skipulag miðbæjarins til heildarskoðunar og setja fram skýra framtíðarsýn sem veiti heildarmynd og yfirsýn yfir næstu mögulegu vaxtaskeið miðbæjar Hafnarfjarðar.

11. 2512008 - Starfshópur um samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum
Starfshópur um samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn samþykkir að setja á stofn á stofn fjögurra manna starfshóp kjörinna fulltrúa ásamt fulltrúa lóðarhafa og íbúa til að vinna þróunaráætlun fyrir samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum. Starfshópurinn njóti stuðnings og þjónustu skipulagsfulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs. Verkefni hópsins er að móta áætlun fyrir samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum í samstarfi við lóðarhafa og aðra hagaðila og jafnframt koma með tillögur fyrir vinnu við deiliskipulag svæðisins. Meðan á vinnu starfshópsins stendur verður boðið upp á kynningar- og vinnufundi með íbúum og hagaðilum. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið fyrir 1. apríl nk. og vinnu starfshópsins verði lokið 1. júní.

Greinargerð:
Í vinnslutillögu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2025-2040 er gert ráð fyrir samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum og möguleika fyrir lestarstöð auk uppbyggingar þéttrar og blandaðrar byggðar verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu, skrifstofum og hótelstarfsemi. Þá er gert ráð fyrir að almenningsrými milli bygginga verði sérstaklega vandað. Hugmyndin er að samgöngumiðstöðin verði tenging hágæða almenningssamgangna milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Það er gert með flugrútu/fluglest með góðri tengingu við strætó, borgarlínu, bílastæði, hjóla- og göngustíga og stofnbrautir. Slík samgöngumiðstöð myndi jafnframt styðja við þjónustu, verslun, skrifstofur, íbúðabyggð og búa þannig til nýtt og spennandi hverfi í bænum sem hefur um langt skeið verið vannýtt og margar lóðir eru enn óbyggðar. Mikilvægt er að bærinn grípi tækifærið og hefji þessa vinnu sem fyrst þannig að hún verði hluti af þeirri vinnu sem er í gangi varðandi borgarlínu og tengingar höfuðborgarsvæðis við Keflavíkurflugvöll.
Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls. Orri Björnsson kemur að andsvari. Stefán Már svarar andsvari.

Forseti ber upp til atkvæða fyrirliggjandi tillögu. Er hún felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafna tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

Stefán Már Gunnlaugsson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar undrast að tillaga um starfshóp sem vinnur að þróunaráætlun um samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum hafi ekki fengið framgang. Aðalskipulag Hafnarfjarðar gerir ráð fyrir samgöngumiðstöð og nýju og spennandi hverfi á svæðinu, en lítill sómi er af svæðinu í dag og þannig hefur verið um langt árabil. Tillagan gerir ráð fyrir að setja kraft í þessa vinnu svo Hafnarfjörður taki forystu í að vera tengipunktur við Keflavíkurflugvöll sem getur skapað margvísleg tækifæri í bænum til atvinnuuppbyggingar, ferðaþjónustu og annarrar þjónustu og haft jákvæð áhrif á samgöngur. Einnig að á svæðinu hefjist sem fyrst kröftug uppbygging. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur greinilega ekki áhuga á að grípa tækifærið sem skilar raunverulegum ávinningi fyrir íbúa, atvinnulífið og ýmsa þjónustu í Hafnarfirði.


12. 2512009 - Starfshópur um framtíð hafnarmála
Starfshópur um framtíð hafnarmála.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að stofna fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa. Starfshópurinn njóti stuðnings skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og hafnarstjóra. Verkefni starfshópsins er að móta stefnu til framtíðar um hafnarmál í Hafnarfirði og aðgerðaráætlun. Starfshópurinn meti tækifæri til uppbyggingar, stækkunar, flutningsleiða og breytinga á þjónustu hafnarinnar og þjónustu við skemmtiferðaskip og móttöku ferðamanna. Einnig taki hann til skoðunar vegtengingar, samgöngu- og umferðarmál og þungaflutninga. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 1. apríl og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. september n.k.

Greinargerð:
Tvær hafnir eru nú í Hafnarfirði: Straumsvíkurhöfn og Suðurhöfn. Samkvæmt vinnslutillögu aðalskipulags er gert ráð fyrir að stækkun Straumsvíkurhafnar og einnig er gert ráð fyrir breytingum í Flensborgarhöfn og nýrri Hamarshöfn. Þetta mun óhjákvæmilega hafa áhrif á skipakomur og þjónustu hafnarinnar. Með uppbyggingu Flensborgarhafnar er miðbærinn að teygja sig í átt að höfninni. Undanfarin ár hefur ásókn í að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis við Suðurhöfn aukist, t.d. á Óseyrarsvæði og við Fornubúðir og einnig stofnana s.s. nýs tækniskóla. Mikilvægt er að starfshópurinn fjalli um þær breytingar og um leið framtíð Suðurhafnar m.a. með tilliti til atvinnu, þjónustu við skip, geymslu vöru og hafnaraðstöðu og samspils blandaðrar byggðar.
Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls. Kristín Thoroddsen kemur til andsvars. Stefán Már svarar andsvari.

Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls.

Forseti ber upp til atkvæða fyrirliggjandi tillögu. Er hún felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafna tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar sitja hjá.

Stefán Már kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar undrast að tillaga um stofnun fimm manna starfshóps til að móta stefnu og aðgerðaáætlun fyrir hafnarmál í Hafnarfirði hafi verið hafnað. Fyrirhuguð uppbygging Straumsvíkushafnar auk breytinga á Suðurhöfninni með tilkomu Tækniskólans og æ fleiri lóðum er breytt í íbúðalóðir mun hafa áhrif á þjónustu hafnarinnar, samgöngur og byggð í bænum. Þá hefur uppbygging við höfnina bein áhrif á miðbæinn. Brýnt er að ráðast í heildræna stefnumótun fyrir svæðið allt og móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu og þjónustu hafnarinnar svo ekki fari í óefni. Enn og aftur kýs meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að láta kylfu ráða kasti og hafnar tillögum okkar um framtíðarsýn sem byggir á skýrri stefnu og áætlunum.

13. 2512010 - Símenntun og íslenskukennsla
Símenntun og íslenskukennsla

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fræðsluráði undirbúning að átaki hvað varðar símenntun og íslenskukennslu fyrir allan aldur. Frá því að Námsflokkar Hafnarfjarðar voru lagðir niður hefur vantað skýra stefnumörkun og einnig þjónustu á þessu sviði, þrátt fyrir eftirspurn eftir slíku. Fræðsluráð láti taka saman minnisblað um málið, þar sem byggt er á fyrri reynslu af Námsflokkum Hafnarfjarðar og einnig tekið mið af slíkri þjónustu í nágrannabyggðarlögðum, svo sem í Reykjavík og hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Sérstaklega skal skoðað samstarf við atvinnulífið í þessu sambandi. Fræðsluráð ljúki þessari samantekt fyrir 1. apríl næstkomandi og skili til bæjarstjórnar.

Greinargerð:
Tillagan skýrir sig sjálf. En þess má geta að með stórauknum fjölda innflytjenda til Íslands hefur þörfin eftir skipulagðri íslenskukennslu farið ört vaxandi. Þeirri þörf þarf að mæta til að flýta inngildingu og aðlögun fólks af erlendu bergi brotið. Íslenskukennsla er þar lykilatriði. Í tillögunni er sérstaklega vísað til reynslu Suðurnesjamanna í þessum efnum, en þar hefur m.a. tekist gott samstarf við atvinnulífið á svæðinu varðandi þessi mál. Það er til eftirbreytni. Þess utan er nauðsynlegt í meira en 30 þúsund manna sveitarfélagi að skipuleg og virk fullorðinsfræðsla verði aðgengileg fyrir bæjarbúa, eins og var þegar Námsflokkar Hafnarfjarðar voru hvað öflugastir hér á árum áður.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Kristín Thoroddsen kemur til andsvars og leggur til að málinu verði vísað til fræðsluráðs. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls. Kristín kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari.

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir tekur til máls. Árni Rúnar kemur að andsvari.

Forseti ber næst upp framkomna tillögu um að vísa málinu til fræðsluráðs. Er það samþykkt þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar greiða atkvæði með því en fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Guðmundur Árni kemur að svohljóðandi bókun:

Allt þetta kjörtímabil hafa jafnaðarmenn reglulega flutt tillögur og talað fyrir fullorðinsfræðslu og íslenskukennslu fyrir bæjarbúa sem eiga annað móðurmál, sem eru um 18% íbúa en mætt fullkomnu áhugaleysi og metnaðarleysi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er með miklum ólíkindum á sama tíma og önnur sveitarfélög og ríkisvaldið tala fyrir mikilvægi þessara mála og hafa gripið til aðgerða og raunar einnig atvinnulífið og verklýðshreyfingin, þá er málinu drepið á dreif af hálfu sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Hafnarfirði. En tillagan lifir þó, því henni er vísað til umfjöllunnar í fræðsluráði og jafnaðarmenn munu fylgja því eftir að þar verði málið gaumgæft og unnið til hlítar.
og komi svo aftur hingað í bæjarstjórn eftir þá athugun.

Fundargerðir
14. 2501140 - Fundargerðir 2025, til kynningar í bæjarstjórn
Fundargerð fræðsluráðs frá 26.nóvember sl.
a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 17.nóvember sl.
Fundargerð fjölskylduráðs frá 25.nóvember sl.
Fundargerð bæjarráðs frá 27.nóvember sl.
a. Fundargerð hafnarstjórnar frá 12.nóvember sl.
b. Fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 19.nóvember sl.
Fundargerðir skipulags- og byggingaráðs frá 25. og 27.nóvember sl.
Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 21.nóvember sl.
Fundargerð forsetanefndar frá 1.desember sl.
Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls undir 4 og 7 lið í fundargerð fræðsluráðs frá 26. nóvember sl. þar sem fjallað var um öryggi nemenda og kennara í leik og grunnskólum. Kristín Thoroddsen kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari.
Áætlanir og ársreikningar
15. 2502769 - Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029, síðari umræða.
3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 27.nóvember sl.
Lögð fram fjárhagsáætlun 2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn ásamt gjaldskrá. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri fjármálsviðs mætir til fundarins.

Fjárhagsáætlun eins og hún liggur fyrir ásamt gjaldskrá er vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.

1. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans fyrir 2026 og langtímaáætlun 2027-2029. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Guðmundur Sverrisson rekstrarstjóri hagdeildar mæta til fundarins.

Fjárhagsáætlun 2026 og langtímaáætlun 2026 - 2029 er vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

5. liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 11.nóvember sl.
Lögð fram bókun bæjarstjórnar.

Meirihluti fjölskylduráðs ítrekar að vinna við fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði er í vinnslu. Í dag eru tvær lóðir tilbúnar til uppbyggingar, annars vegar í Hamranesi og hins vegar hjá Hrafnistu þar sem hægt er að ráðast í uppbyggingu um leið og ákvörðun liggur fyrir hjá ríkinu. Bæjarstjóri og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið í reglulegum samskiptum við ríkið og uppbyggingaraðila til að koma málinu áfram. Það stendur ekki á bænum að hefja uppbyggingu. Allar forsendur af hálfu sveitarfélagsins eru fyrir hendi.

Nú skiptir máli er að ríkisvaldið stígi næsta skref og ljúki málinu þannig að framkvæmdir geti hafist. Meirihlutinn leggur áherslu á að ferlið er hvorki á byrjunarreit né á hugmyndastigi heldur tilbúið til framkvæmda um leið og samþykki liggur fyrir.

Meirihluti fjölskylduráðs tekur undir mikilvægi þess að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og ítrekar að Hafnarfjarðarbær hefur þegar tekið í markviss skref til að styrkja þann málaflokk. Með nýrri Miðstöð um vinnu og virkni hefur þjónusta verið samhæfð og efld þannig að fatlað fólk fær nú betri stuðning, ráðgjöf og tækifæri til atvinnuþátttöku.

Meirihlutinn mun áfram leggja áherslu á að skapa raunhæf, fjölbreytt og einstaklingsmiðuð vinnu og virkni úrræði fyrir fatlað fólk.

Að lokum óskar meirihlutinn eftir upplýsingum frá sviðsstjóra um þá vinnu sem er í gangi á sviðinu varðandi innleiðingu og notkun velferðartækni hjá eldra fólki.

Samfylkingin fagnar því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi lagt til í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun að Hafnarfjörður taki þátt í uppbyggingu vettvangs- og ráðgjafarteymis í málefnum heimilislausra, annað hvort í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða með því að sameinast því teymi sem starfar hjá Reykjavíkurborg. Hér er um að ræða mál sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjölskylduráði og bæjarstjórn hafa lengi talað fyrir og lagt fram tillögur í þá veru og því fögnum við þessari tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og styðjum hana heilshugar.

Bókun meirihlutans á fundinum í dag leiðir svo í ljós að mikilvægt er að tillögur Samfylkingarinnar um fjölgun hjúkrunarrýma og nýja heilsugæslu verði samþykktar.


1.liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 21.nóvember sl.
Fjárfestingaráætlun tekin til umræðu. Lögð fram svör við bókun bæjarstjórnar. Lögð fram tillaga að gjaldskrá bílastæðasjóðs vegna stöðubrota.

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fjárfestingaráætlun 2026-2029 til afgreiðslu bæjarráðs.

Fulltrúar Samfylkingarinnar bóka:
Fjárfestingaráætlun bæjarins þarfnast lagfæringar og endurbóta, sem m.a. munu koma fram í breytingartillögum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar við síðari umræðu fjárhagsáætlunar 3. desember næstkomandi. Ljóst er til dæmis, að framlög til gatnagerðar á Hrauni vestur eru nánast engin, framlög til útisundlaugar og -svæðis við Ásvallalaug, miðstöð frístunda í Hamranesi eru afar lág og sömu sögu má segja varðandi fjármagn til stækkunar Tónlistarskóla Hafnarfjarfjarðar sem allt eru í raun alger sýndarframlög og ljóst að þau mál virðast á fullkomnu frumstigi. Þá þarf að ganga frá samningi vegna þjónustu við Garðabæ hvað varðar frárennslismál, þar sem Garðabær greiði sanngjarnt og eðlilegt gjald til Hafnarfjarðar eins og tillögur Samfylkingarinnar á undanförnum árum hafa kveðið á um. Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum, þar sem þörf er á því að verkin verði látin tala og markviss uppbygging liggi fyrir um.

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa tillögu að gjaldskrá Bílastæðastjóðs vegna stöðubrota til afgreiðslu bæjarráðs.

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa tillögu um akstur strætó á álagstímum í iðnaðarhverfi í Hellnahrauni til afgreiðslu bæjarráðs.
Frá og með 5. janúar verður hafinn akstur hefðbundinna strætisvagna á álagstímum, þ.e. að morgni og síðdegis frá Ásvallalaug um iðnaðarhverfi Hellnahrauns. Leiðin mun þjónusta meðal annars eftirfarandi götur: Berghellu, Steinhellu, Rauðhellu, Gjáhellu, Breiðhellu, Álfhellu, Dranghellu og Einhellu. Utan álagstíma verður áfram boðið upp á pantþjónustu, líkt og verið hefur. Verkefnið er til reynslu til 1. apríl 2026 og verður endurskoðað þá með tilliti til notkunar.

Bókanir við tillögur 12,18 (tillaga 1,2,3) sem vísað var til umhverfis- og framkvæmdaráðs við fyrri umræðu bæjarstjórnar:

12. Strandblaksvöll við Suðurbæjarlaug

Hafin verði vinna að finna staðsetningu fyrir strandblaksvöll í eða við garð Suðurbæjarlaugar. Mikilvægast er að horfa til þess að aðgengi að salerni og búningaaðstaða sé við hendi.
Suðurbæjarlaugin er einstaklega vel að því komið og góður grundvöllur fyrir því í garði sundlaugarinnar eða við sundlaugina.
Innan Suðurbæjarlaugar eru besti mögulegi kosturinn, þar eru mjög góðar aðstæður til að setja velli í garðinum á nánast ónýttu plássi og auka nýtingamöguleika sundlaugasvæðisins. Einnig eykur það öryggi, völlurinn væri þá innan girðingar á læstu svæði eftir lokunartíma. Slíkir vellir eru í Árbæjarlaug og Laugardalslaug, þar eru vellirnir vel nýttir og mjög jákvætt viðhorf gangvart þeim hjá öllum.
Til vara væri hægt að skoða svæði austan megin við sundlaugina, þar er nú þegar bæði hreysti tæki og leiksvæði. Sá kostur er sístur, aðgengi ótakmarkað og hætta á að búnaður, net og sandur verði fyrir aðkasti. Fyrirmynd slíkra valla er þó til í bæði Fagralundi í Kópavogi sem og við íþróttamiðstöðina Ásgarð í Garðabæ, með fínasta móti.

Bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í umhverfis og framkvæmdaráði benda á að nú þegar er góður strandblakvöllur á Víðistaðatúni sem nýtist vel, en tekur engu að síður jákvætt í hugmyndir um að fjölga möguleikum til iðkunar íþróttarinnar í Hafnarfirði.
Hvað varðar tillögu um staðsetningu innan garðs Suðurbæjarlaugar þarf þó að líta til rekstraröryggis laugarinnar. Reynslan úr öðrum sveitarfélögum hefur sýnt að sandur af völlum innan sundlaugargarða berst auðveldlega í kerfi lauganna, sem veldur álagi og skemmdum á viðkvæmum hreinsibúnaði. Upplýsingar frá rekstaraðilum sundlauga sem hafa reynt slíkt benda til þess að sú sambúð hafi ekki gefið góða raun til lengdar.
Ráðið vill því skoða aðra kosti til að mæta áhuga á íþróttinni. Lagt er til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að ræða við Knattspyrnufélagið Hauka um möguleika á uppsetningu strandblakvallar á svæði félagsins á Ásvöllum. Þar væri hægt að tryggja aðgang að búningsaðstöðu og sturtum, án þess að stofna rekstri sundlauga í hættu.“

18. Umhverfis og framkvæmdaráð

Tillaga 1

Heildstæð áætlun um vistvæn viðhald og orkunýtingu eigna bæjarins
Hafnarfjarðarbær hefur á undanförnum árum unnið að viðhaldi og endurbótum á fasteignum bæjarins, einkum leik- og grunnskólum. Til að tryggja að sú vinna skili sem mestri orkusparnaði og hagkvæmni til framtíðar er mikilvægt að samþætta þessi verkefni í eina heildstæða áætlun sem sameinar viðhald, orkunýtingu og sjálfbærni.
Með því að samþætta og greina verkefnin sem þegar eru í vinnslu verður unnt að tryggja betri nýtingu fjármagns, draga úr sóun og skapa mælanlegan ávinning fyrir bæði bæ og íbúa. Verkefnið byggir á grunni fyrri viðhald átaka en gefur þeim nýjan stefnumarkandi ramma.
Viðreisn leggur til að Hafnarfjarðarbær móti heildstæða áætlun fyrir árin 2026?2030 um vistvænt viðhald og orkunýtingu fasteigna bæjarins.
Áætlunin taki mið af þeim verkefnum sem þegar eru í gangi, en samræmi forgangsröðun, árangursmælingar og kostnaðargreiningu þannig að orkunotkun, rekstrarkostnaður og viðhald nýtist sem best.

Bókun:
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tekur undir mikilvægi þess að viðhald fasteigna skili orkusparnaði og hagkvæmni. Sú vinna er þegar hafin og er í föstum farvegi hjá Hafnarfjarðarbæ.
Í uppfærðri umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins kemur fram að Hafnarfjarðarbær skuli vera til fyrirmyndar í orkunýtingu og lágmörkun úrgangs. Þetta er leiðarljós í öllu viðhaldi fasteigna bæjarins í dag. Samþætting viðhaldsverkefna, orkusparnaðar og kostnaðargreiningar er nú þegar hluti af daglegum rekstri og langtímaáætlunum umhverfis- og framkvæmdasviðs. Að móta sérstaka viðbótaráætlun fyrir árin 2026?2030, eins og lagt er til, er því óþörf viðbót við stjórnsýsluna og gæti fremur tafið en flýtt fyrir þeim góða árangri sem þegar er verið að vinna að.
Að setja af stað nýja stefnumótunarvinnu eða sérstaka áætlunargerð myndi fela í sér tvíverknað, enda er markmiðum tillögunnar nú þegar fylgt eftir í yfirstandandi verkefnum.

Tillaga 2

Áætlun um græn og aðgengileg opin svæði
Viðreisn leggur til að hafinn verði vinna við áætlun sem miðar að því að samræma og forgangsraða endurnýjun, fegrun og vistvæna hönnun opinna svæða í hverfum bæjarins. Verkefnið verði unnin í samráði við íbúa, fyrirtæki og stofnanir bæjarins með áherslu á aðgengi, lýsingu, gróður, úrgang stýringu og hvíldarsvæði (bekki). Verkefnið mun taka mið af þeim framkvæmdum sem þegar eru í undirbúningi, en veiti þeim skýran ramma og langtímasýn með það að markmiði að styðja áfram við lýðheilsu og lífsgæði íbúa.

Bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggja áherslu á að Hafnarfjörður er heilsueflandi samfélag og vísar til gildandi Heildarstefnumótunar og Umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins. Þar er skýrt kveðið á um mikilvægi grænna svæða, útivistar og aðgengis fyrir alla.
Í daglegum rekstri bæjarins er unnið markvisst að þessum markmiðum. Liðir í fjárhagsáætlun sem snúa að minni framkvæmdum og viðhaldi eru nýttir til að uppfæra hverfin jafnt og þétt, hvort sem um er að ræða betri lýsingu, gróðursetningu eða uppsetningu hvíldarsvæða. Sérstök ný áætlun myndi ekki breyta þeirri forgangsröðun sem þegar liggur fyrir í stefnum bæjarins og fjárhagsáætlun.

Tillaga 3

Sameiginleg mótun stefnu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana í Hafnarfirði

Atvinnulífið í Hafnarfirði gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu og sýnir í auknum mæli samfélagslega ábyrgð í rekstri sínum. Til að efla þessi jákvæðu tengsl og skapa samræmdan ramma fyrir slíkt samstarf er nauðsynlegt að bæjarfélagið, fyrirtækin og stofnanir bæjarins vinni saman að mótun sameiginlegrar stefnu um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Viðreisn leggur til að Hafnarfjarðarbær hrindi af stað verkefni þar sem mótuð verður stefna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana í Hafnarfirði, í beinu samstarfi við atvinnulífið, stofnanir bæjarins og hagsmunaaðila.

Markmið verkefnisins er að:
-Efla samstarf milli atvinnulífs og stofnana um sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og nýsköpun
-Skilgreina sameiginleg gildi, mælanleg markmið og viðmið sem endurspegla ábyrgð gagnvart samfélaginu,
- Kortleggja verkefni og tækifæri sem styðja vistvæna og samfélagslega ábyrga starfsemi,

- Auka gagnsæi, traust og jákvæða ímynd Hafnarfjarðar um framsýni og samfélagslega ábyrgt bæjarfélag.

Verkefnið felur í sér að leiddur verði samstarfsvettvangur þar sem atvinnulíf, stofnanir og sveitarfélagið móta sameiginlega sýn á samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra þróun. Slík vinna styrkir tengsl atvinnulífs og sveitarfélags, eykur samstöðu og skapar trúverðugleika í umhverfis- og samfélagsmálum bæjarins. Verkefnið verði unnið með aðkomu sérfræðinga á sviði samfélagslegrar ábyrgðar úr háskólaumhverfinu og í samstarfi við fyrirtæki og stofnunum bæjarins þar sem lögð verði áhersla á umhverfisjónarmið, gagnsæi, jafnrétti og mælanleg markmið.

Bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar taka undir mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar. Hafnarfjarðarbær vinnur markvisst að því að sýna samfélagslega ábyrgð í verki í öllum sínum rekstri, í samræmi við uppfærða Umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins. Hafnarfjarðarbær leitast við að vera fyrirmynd fyrir atvinnulífið þegar kemur að vistvænum innkaupum, orkusparnaði og jafnréttismálum.
Hafnarfjarðarbær hefur þegar markað sér skýra stefnu í samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni með samþykkt Heildarstefnumótunar fyrir Hafnarfjarðarbæ og uppfærða Umhverfis- og auðlindastefnu. Í þeirri vinnu var haft víðtækt samráð við íbúa og hagsmunaaðila.
Verkefnið sem lagt er til felur í sér tvíverknað við þá stefnumótun sem þegar hefur átt sér stað. Áhersla meirihlutans er lögð á aðgerðir og framkvæmd gildandi stefnu í samstarfi við atvinnulífið, fremur en að hefja nýja stefnumótunarvinnu.


1. liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 25.nóvember sl.
Teknar til umræðu þær tillögur sem vísað hefur verið til ráðsins.

1. Útvíkkun vaxtamarka og framboð fjölbreytts húsnæðis

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa. Starfshópurinn njóti stuðnings sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni starfshópsins er að meta tækifæri til íbúðauppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum sem verða til með útvíkkun vaxtamarkanna. Einkum verður horft til þess að hraða uppbyggingu íbúða og skapa hagkvæmari valkosti fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Starfshópurinn skoði samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og félög um stúdentaíbúðir, byggingarfélög eldri borgara sem og við félög á borð við Bjarg, Búseta og Búmenn. Hópurinn skoði einnig samstarf við ríkið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis m.a. möguleika á stofnun innviðafélags sem fjármagnar og hefur umsjón með uppbyggingu ákveðins fjölda íbúða og þar með talið uppbyggingu innviða eins og gatnagerð, leik- og grunnskóla ofl. Þegar kemur að íbúðum fyrir eldra fólk skal hópurinn líta til niðurstöðu starfshóps um íbúðir fyrir eldra borgara sem mun skila af sér niðurstöðum á næstu vikum. Einnig skal starfshópurinn skoða sérstaklega hvernig hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélagsins á næstu árum svo hægt verði að vinna á löngum biðlistum eftir slíku húsnæði. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 1. maí og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. október n.k.

Greinargerð:
Mikilvægt er að leita allra leiða til þess að auka framboð fjölbreytts íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 30. október síðastliðinn var samþykkt að hefja vinnu við útvíkkun vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar í bæjarstjórn með það að markmiði að marka ný byggingarsvæði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Það er gert ráð fyrir að tillaga um slíkt liggi fyrir eigi síðar en í janúar 2026. Það er til staðar mikil uppsöfnuð íbúðaþörf í landinu og gera áætlanir ráð fyrir að það þurfi að byggja allt að 5000 íbúðir á ári og þar af yfir 500 í Hafnarfirði. Ekki hefur dregið úr eftirspurn eftir íbúðum þrátt fyrir spár þess efnis. Á sama tíma og þörf fyrir nýjar íbúðir eykst, þá er 70% fækkun nýframkvæmda á byggingarmarkaði milli ára. Nýlega lagði ríkisstjórnin fram húsnæðispakka þar sem áherslan er á einfaldara, skýrara og hraðara, einnig fleiri almennar íbúðir, fleiri íbúðir fyrir námsmenn og öryrkja og fleiri íbúðir fyrir alla. Einnig hefur verið kynnt samstarf ríkis og borgar um samstarfi í uppbyggingu í Úlfarsárdal með stofnun innviðafélags. Innviðauppbygging í nýjum hverfum hefur reynst sveitarfélögum erfið hindrun þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á nýjum svæðum, en nú kemur ríkið að því. Starfshópurinn meti leiðir til að stuðla að skjótri og öruggri uppbyggingu sem taki m.a. mið af húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 1:

Öll þessi verkefni eru á borði skipulags- og byggingaráðs, framboð nýs húsnæðis í Hafnarfirði hefur verið fjölbreytt síðustu ár, fyrr alla hópa kaupenda. Hlutfallslega er meira byggt í Hafnarfirði en öðrum af stærri sveitarfélögum landsins og því ekki þörf á sérstöku átaki í Hafnarfirði. Hæsta hlutfall hlutdeildarlána hefur veið veitt í Hafnarfirði, félagslegum íbúðum hefur fjölgað jafnt og þétt í tíð núverandi meirihluta. Leigufélög hafa tekið verulegan þátt í uppbyggingunni. Uppbygging íbúðahverfa á vegum innviðafélags hins opinbera er gamaldags nálgun sem fæstum hugnast. Einföldun regluverks hins opinbera er verkefni ríkisstjórnarinnar sem vonandi verður að veruleika. Að öllu samanlögðu er því er ekki þörf á sérstökum starfshóp um þessi málefni.

4. Fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarráði að setja á fót viðræðuhóp sem hefji formlegar viðræður við alla hagaðila málsins, Sóltún, Hrafnistu og ríkisvaldið. Meginverkefni hópsins verður að móta aðgerðaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði og koma verkefninu á framkvæmdastig.

Greinargerð:
Fjölgun hjúkrunarrýma er orðin löngu tímabær í Hafnarfirði og lengi hefur verið unnið að undirbúningi vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis á vegum Sóltúns í Hamranesi og hjá Hrafnistu. Lítið hefur þokast í þessum málum á undanförnum árum og skemmst er að minnast þess að á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG bættist ekki við eitt nýtt hjúkrunarheimili. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði hefur heldur ekki staðið sig í stykkinu við að halda á lofti hagsmunum Hafnfirðinga í þessum stóra og mikilvæga málaflokki og því leggur Samfylkingin fram til þessa tillögu til þess að freista þessu að koma hreyfingu á málið og koma fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði af hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 4:

Fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði er yfirvofandi og ekki hefur staðið á meirihlutanum í þeim verkefnum. Stækkun á Hrafnistu, nýtt hjúkrunarheimili í Hamranesi, hjúkrunarheimili í Vatnshlíð auk fleiri möguleika til dæmis stækkunar við Sólvang eru verkefni í vinnslu sem munu fara af stað á næstu misserum þegar ríkisvaldið stendur við sitt.

6. Starfshópur um miðbæ Hafnarfjarðar

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fjögurra manna starfshóps kjörinna fulltrúa auk eins fulltrúa frá íbúum miðbæjarins og eins fulltrúa rekstraraðila þjónustuhúsnæðis í miðbænum. Starfshópurinn njóti stuðnings og þjónustu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni hópsins er að móta framtíðarstefnu fyrir miðbæ Hafnarfjarðar. Hópurinn skoði lausnir er varðar bílastæði og þá m.a. í bílastæðahúsi eða neðanjarðar, þannig að rými skapist til uppbyggingar og þá hvernig megi efla þjónustu, verslun ásamt uppbyggingu íbúða og styðja við menningarviðburði. Einnig verði horft til tengingar miðbæjarins við önnur hverfi og þá uppbyggingu sem hefst vonandi á næstu misserum á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í vinnu hópsins verði haft í huga að vernda einkenni miðbæjar Hafnarfjarðar sem er annar af sögulegum miðbæjum höfuðborgarsvæðisins. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið eigi síðar en 1. mars nk. og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. maí nk. Á starfstímanum verði boðað til vinnufundar með íbúum og öðrum hagaðilum þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, eigendum verslunar og þjónusturýma, rekstraraðilum og öðrum þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Skýrsla starfshópsins verði grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins.

Greinargerð:
Á þessu og síðasta kjörtímabili hefur endurskoðun miðbæjar Hafnarfjarðar komið alloft til umræðu í skipulags- og byggingaráði. Þann 26. apríl, 2022 var samþykkt á fundi í skipulags- og byggingaráði að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins, en ekkert hefur gerst. Síðast var málið til umfjöllunar 19. mars, 2025 og þar var samþykkt að óska eftir samantekt á stöðu mála, en ekkert hefur gerst. Nú þarf að láta verkin tala og vinna hratt og vel að því að móta framtíð miðbæjar Hafnarfjarðar, sem hefur mikið aðdráttarafl og þar liggja mikil tækifæri að gera enn betur. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og nauðsynlegt að þar megi byggja upp öflugan miðbæ iðandi af mannlíf með fjölbreyttri þjónustu, atvinnu- og menningarlífi. Skipulag miðbæjarins er frá árinu 2001 og kominn tími á endurskoðun þess því er þessi tillaga lögð fram. Lagt er til að hún verði unnin í samvinnu við íbúa og aðra hagaðila og haldinn verði íbúafundur. Skýrsla starfshópsins verði þannig grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 6:

Mikil uppbygging er í gangi og fyrirhuguð í miðbæ Hafnarfjarðar, fjölgun bílastæða með nýju bílastæðahúsi er eitt af þeim verkefnum. Eðlilegt er að halda áfram deiliskipulagsvinnu á miðbæjarsvæðinu þegar nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar hefur verið samþykkt.
Meirihlutinn mun koma því verkefni á góðan rekspöl á næstu mánuðum. Ekki er þörf á sérstökum starfshóp um þessi verkefni.

11. Húsnæði leikskóla - samþætting leikskóla í hverfum bæjarins

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar feli fræðslusviði, í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið, að kanna hvort mögulegt sé að hanna leikskóla eða daggæslurými sem hluta af fjölbýlishúsum, bæði þar sem þétting byggðar á sér stað og í nýjum hverfum.

Meta kosti þess að nýta jarðhæðir fjölbýlishúsa eða önnur sambærilega rými til leikskólastarfsemi.

Leggja fram tillögur að skipulags- og hönnunarleiðbeiningum sem geri ráð fyrir slíkum úrræðum við byggingu leikskóla í framtíðinni.
Við skipulag nýrra íbúðahverfa og þéttingu byggðar hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á sjálfbærni, blandaða byggð og nærþjónustu. Leikskólar eru mikilvægur þáttur í slíku samfélagi en hingað til hefur verið hefð fyrir því að leikskólar séu staðsettir í sér húsnæði á stórum lóðum. Með því að skoða þessar leiðir þegar kemur að húsnæði leikskóla er hægt að stuðla að hagkvæmar nýtingu lands og húsnæðis í hverfum. Slík útfærsla gæti nýtt betur það húsnæði og innviði sem þegar eru til staðar, til dæmis bílastæði og viðhald, og þannig dregið úr bygginga- og rekstrarkostnaði. Efla sjálfbært skipulag byggða í Hafnarfirði og tryggja aðgengileg leikskólahúsnæði fyrir íbúa, hvort sem um er að ræða hverfum í þéttingu eða nýjum hverfum.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 11:

Nú þegar er gert ráð fyrir mögulegum leikskólum á jarðhæðum fjölbýlishúsa á Hrauni vestur, kröfur um lóðastærð eru áskorun, sem þarf að mæta, við þetta fyrirkomulag.

12. Strandblaksvöll við Suðurbæjarlaug

Hafin verði vinna að finna staðsetningu fyrir strandblaksvöll í eða við garð Suðurbæjarlaugar. Mikilvægast er að horfa til þess að aðgengi að salerni og búningaaðstaða sé við hendi.
Suðurbæjarlaugin er einstaklega vel að því komið og góður grundvöllur fyrir því í garði sundlaugarinnar eða við sundlaugina.
Innan Suðurbæjarlaugar eru besti mögulegi kosturinn, þar eru mjög góðar aðstæður til að setja velli í garðinum á nánast ónýttu plássi og auka nýtingamöguleika sundlaugasvæðisins. Einnig eykur það öryggi, völlurinn væri þá innan girðingar á læstu svæði eftir lokunartíma. Slíkir vellir eru í Árbæjarlaug og Laugardalslaug, þar eru vellirnir vel nýttir og mjög jákvætt viðhorf gangvart þeim hjá öllum.
Til vara væri hægt að skoða svæði austan megin við sundlaugina, þar er nú þegar bæði hreysti tæki og leiksvæði. Sá kostur er sístur, aðgengi ótakmarkað og hætta á að búnaður, net og sandur verði fyrir aðkasti. Fyrirmynd slíkra valla er þó til í bæði Fagralundi í Kópavogi sem og við íþróttamiðstöðina Ásgarð í Garðabæ, með fínasta móti.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 12:

Verkefnið tilheyrir ekki skipulags- og byggingaráði

Bókanir við tillögur sem lagðar voru fram á fundi skipulags- og byggingarráðs 13. nóvember 2025.

Vatnshlíð, vistvænt hverfi

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að þegar hafin verði vinna við deiliskipulag Vatnshlíðar á árinu 2026 verði vistvænar lausnir hafðar að leiðarljósi, sjálfbærni og leiðir sem lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Jafnframt verði kannaðir kostir og gallar þess að allar nýframkvæmdir verði vistvænar og jafnvel vistvottaðar. Einnig að skoða ávinning af því fyrir umhverfið, samfélagið og byggingaraðila. Vatnshlíðin er í nánd við útivistarperlur í upplandi Hafnarfjarðar, óspillta náttúru og jaðri byggðarinnar og því mikilvægt að lágmarka umhverfisleg áhrif eins og kostur er. Markmið vistvænnar byggðar er að stuðla að aukinni vellíðan, betra umhverfi og bættri heilsu fólks.

Innleiðing ferla við vistvænar nýframkvæmdir og endurbætur á vegum bæjarins Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hafin verði vinna við að móta ferla sem miða að því að vistvænum lausnum við nýframkvæmdir, viðhald fasteigna og á vegum bæjarins, m.a. umhverfis vottun. Markmið áætlunarinnar er finna leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum vegna framkvæmda á vegum bæjarins og losun koltvísýrings og stuðla að sjálfbærri þróun. Áætlað er að vinnunni verði lokið eigi síðar en vorið 2026 og þá liggi fyrir áætlun um innleiðingu ferla, sem komi til framkvæmdar haustið 2026. Greinargerð: Talið er að 30-40% af heildarlosun koltvísýrings komi frá mannvirkjagerð og tæplega helmingur alls úrgangs sem myndast á Íslandi sé byggingar- og niðurrifs úrgangur. Hafnarfjörður hefur verið leiðandi á meðal sveitarfélaga að hvetja til umhverfisvottanna nýbygginga. Líklegt er að stofnkostnaður hækki við upphaf innleiðingar en samfélagskostnaður verður minni og gera má ráð fyrir að kostnaður vegna viðhalds og reksturs verði minni. Á vegum bæjarins eru árlega töluverðar framkvæmdir og því er til mikils að vinna að innleiða vistvænar lausnir.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs:

Vistvænar lausnir eru nú þegar hluti af skipulagsvinnu bæjarins, einnig eru byggingaraðilar í síauknu mæli farnir að nota þær. Markaðurinn er á mikilli hreyfingu á átt að vistvænni byggingum og því er óþarfi á sérstökum fyrirmælum og valdboði frá yfirvöldum.

Átak í frágangi nýbyggingarsvæða

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að farið verði í átak í að byggja húsnæði á lóðum sem nú þegar hefur verið úthlutað og enn eru óbyggðar. Samhliða verði setur aukinn vinna í að ljúka vinnu við gangstéttar, göngustíga, lýsingu, bifreiðastæði, leikvelli ofl. í nýjum hverfum. Greinargerð: Um fimm ár er síðan að síðustu lóðinni var úthlutað í Skarðshlíð og því miður eru nokkur dæmi þar sem ekki eru enn hafnar framkvæmdir á lóðum. Hér þarf að ganga skipulega til verks svo uppbygging nýrra hverfa taki ekki of langan tíma og ljúki sem fyrst. Hreinsunarátak, iðnaðar- og nýbyggingarsvæði Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að farið verði í átak í hreinsun á iðnaðar- og nýbyggingarsvæðum. Mikilvægt er fyrir uppbygging atvinnulífs hér sem annars staðar sé snyrtilegt og umgengni góð. Sama má segja um nýbyggingarsvæði bæjarins eða þar sem framkvæmdir eru í byggðum hverfum. Snyrtilegt umhverfi bætir ímynd bæjarins sem verður eftirsóknarverðara sem valkostur fyrir rekstraraðila og íbúa bæjarins.
Þrýstingur á uppbyggingu á tilbúnum lóðum hefur verið fyrir hendi síðustu ár og hafa lóðir verið teknar til baka í nokkrum tilfellum og úthlutað að nýju. Áfram verður haldið á sömu braut og hart lagt að lóðarhöfum að bæði hefja og ljúka uppbyggingu á sínum lóðum.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs:

Á síðasta kjörtímabili hófst átak i frágangi í nýjum atvinnuhverfum, til dæmis í Selhrauni, árangurinn hefur verið góður. Á nýjustu athafnasvæðum bæjarins hafa bæði byggingaraðilar og bæjaryfirvöld gert betur en áður í frágangi lóða og opinna svæða, það er því góð þróun og rífandi gangur í þessum verkefnum.

1.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 25.nóvember sl.
Lagðar fram tillögur úr bókun Bæjarstjórnar.

Fjölskylduráð samþykkir fyrir sitt leyti að Hafnarfjarðarbær taki þátt í uppbyggingu vettvangs-og ráðgjafarteymis í málefnum heimilislausra, annað hvort í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða með því að sameinast því teymi sem starfar hjá Reykjavíkurborg.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu létu vinna heildarskýrslu um stöðu í málefnum heimilislausra sem kom út í mars 2023. Ein meginniðurstaða hennar var tillaga um að koma á fót sameiginlegu vettvangs- og ráðgjafarteymi.

Málefni heimilislausra hafa verið reglulega á dagskrá hjá fjölskylduráði og hafa samtöl meðal annars átt sér stað við sveitarfélög varðandi uppbyggingu á vettvangs-og ráðgjafarteymi, þá hefur verið fjárfest í þremur smáhýsum og vinnsla tengt þeim í gangi. Einnig hefur verið sett af stað sértæk heimaþjónusta sem er mikilvæg viðbót við þjónustuframboð bæjarins.

Fjölskylduráð samþykkir að tillögum að umbótarverkefnum vegna úttektar HLH verði vísað í fjárhagsáætlunarvinnu. Sviðsstjóra fjölskyldu-og barnamálasviðs falið að fylgja verkefninu eftir.

Meirihluti Fjölskylduráðs hafnar tillögu Samfylkingarinnar um að setja á fót viðræðuhóp vegna fjölgunar á hjúkrunarrýmum. Meirihluti fjölskylduráðs ítrekar að vinna við fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði er í vinnslu. Í dag eru þrjár lóðir tilbúnar til uppbyggingar, í Hamranesi, í Vatnshlíð og hjá Hrafnistu þar sem hægt er að ráðast í uppbyggingu um leið og ákvörðun liggur fyrir hjá ríkinu. Bæjarstjóri og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið í reglulegum samskiptum við ríkið og uppbyggingaraðila til að koma málinu áfram. Það stendur ekki á bænum að hefja uppbyggingu. Allar forsendur af hálfu sveitarfélagsins eru fyrir hendi.
Nú skiptir máli er að ríkisvaldið stígi næsta skref og ljúki málinu þannig að framkvæmdir geti hafist. Meirihlutinn leggur áherslu á að ferlið er hvorki á byrjunarreit né á hugmyndastigi heldur tilbúið til framkvæmda um leið og samþykki liggur fyrir. Fulltrúar fjölskylduráðs verða hluti af ferlinu á öllum stigum ásamt því að haft verður samráð við hagmunaaðila.

Meirihluti fjölskylduráðs tekur jákvætt í tillöguna sem snýr að nýrri heilsugæslu í Hafnarfirði og vísar henni til frekari úrvinnslu í bæjarráði. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir Hafnfirðinga að hafa aðgang að heilsugæslu í sínu nærumhverfi og brýn þörf að bæta við heilsugæslustöð í Valla eða Hamraneshverfi. Fulltrúar bæjarins hafa átt í viðræðum við stjórnvöld varðandi aðkomu að því að hálfu bæjarins og taka undir með minnihluta bæjarstjórnar að mikilvægt er að halda þessum viðræðum áfram og þrýsta á ráðuneyti heilbrigðismála sem fer með málaflokkinn.

Meirihluti fjölskylduráðs hafnar tillögu Samfylkingarinnar sem fjallar um aðgengi fólks með fötlun á almennum vinnumarkaði og telur það árangursríkara að nýta og styrkja og þróa þau úrræði sem eru til staðar hjá bænum.

Meirihluti fjölskylduráðs tekur undir mikilvægi þess að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og ítrekar að Hafnarfjarðarbær hefur þegar tekið í markviss skref til að styrkja þann málaflokk. Með nýrri Miðstöð um vinnu og virkni hefur þjónusta verið samhæfð og efld þannig að fatlað fólk fær nú betri stuðning, ráðgjöf og tækifæri til atvinnuþátttöku.
Meirihlutinn mun áfram leggja áherslu á að skapa raunhæf, fjölbreytt og einstaklingsmiðuð vinnu- og virkniúrræði fyrir fatlað fólk. Með því að nýta sér þjónustu eins og atvinnu með stuðningi hjá Vinnumálastofnun og Miðstöðina er hægt að bjóða upp á sveigjanleg og einstaklingsmiðuð úrræði, sem hafa reynst árangursrík við að bæta atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks munu áfram vinna að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að atvinnu með því að nýta þessi fyrirliggjandi úrræði og tryggja að allar aðgerðir sem við setjum í framkvæmd séu markvissar og atvinnu-og virkni aukandi.

Meirihluti fjölskylduráðs tekur undir mikilvægi þess að ráðast í formlega stefnumótun um innleiðingu og notkun á velferðartækni í velferðarþjónustu.

Sviðsstjóra falið að taka saman minnisblað um mögulegar leiðir, afla upplýsinga frá öðrum sveitarfélögum og skoða leiðir að útfærslum. Fjallað verður áfram um málið í fjölskylduráði í kjölfar upplýsinga sem lagðar verða fram.


Fulltrúar Samfylkingarinna leggja fram eftirfarandi:

Ljóst er að snúin sigling er framundan í rekstri bæjarins eins og niðurstaða árshlutareiknings bæjarins er til vitnis um. Það er því enn brýnna en áður að standa vörð um velferðarþjónustu sveitarfélagsins og að forgangsraða í þágu hennar. Svör við fyrirspurnum Samfylkingarinnar sem liggja fyrir á þessum fundi um húsnæðismál almennt, biðlista eftir félagslegum íbúðum og biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk leiða því miður í ljós að stefnu- og úrræðaleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í húsnæðismálum. Langir biðlistar eftir félagslegum íbúðum sem og biðlistar eftir húsnæði fyrir fatlað fólks og hæg fjölgun íbúða á síðustu árum eru til marks um þessa stöðu. Í þeim efnum er þó rétt að fagna því að uppbyggingaráætlun um uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk er lögð fram á þessum fundi. Í síðari umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun næsta árs munu fulltrúar Samfylkingarinnar leggja áherslu á þessi mál og ýmis önnur sem snúa að því að efla velferð íbúa Hafnarfjarðar. Þar er hægt að nefna atriði eins og hraðari fjölgun félagslegra íbúða hjá bænum, uppbyggingu fjölbreytts húsnæði, m.a. fyrir eldra fólk og fleiri mál.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja áherslu á að bæjarstjórn samþykki tillögur okkar varðandi fjölgun hjúkrunarrýma og nýja heilsugæslu í Hafnarfirði. Þar er um að ræða mikil hagsmunamál fyrir Hafnfirðinga sem þarf að fylgja eftir af festu og koma á hreyfingu. Sama gildir um tillögu okkar um aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði. Við ítrekum einnig að við fögnum tillögu meirihlutans um að Hafnarfjörður muni taka þátt í uppbyggingu vettvangs- og ráðgjafarteymis í málefnum heimilislausra annað hvort með samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða með því að sameinast því teymi sem starfar hjá Reykjavíkurborg. Enda er hér um að ræða mál sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjölskylduráði og bæjarstjórn hafa lengi talað fyrir.


Fulltrúi Viðreisnar fagnar því að formleg innleiðing á velferðartækni sé komin á dagskrá fjölskylduráðs. Hafnarfjörður, líkt og önnur sveitarfélög, er vissulega að nota slíka tækni að hluta til en sú vinna getur verið og þarf auðvitað að vera markviss - bæði þannig að hún nýtist þjónustuþegum sem best og sé einnig unnin á sem hagkvæmastan hátt. Formleg innleiðing á notkun velferðartækni mun meðal annars hafa í för með sér aukið sjálfstæði, öryggi og lífsgæði fyrir íbúa bæjarins. Notkun velferðartækni minnkar einnig álag á starfsfólk, eykur yfirsýn stjórnenda og leiðir af sér betri nýtingu á fjármunum bæjarbúa. Það er því jákvætt að fjölskylduráð ætli sér að vinna málið áfram, en fulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á mikilvægi þess að Hafnarfjarðarbær leggi í formlega stefnumótun varðandi innleiðingu á velferðartækni, til þess að tryggja að fagmennska og þjónusta við bæjarbúa sé höfð að leiðarljósi.

5.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 26.nóvember sl.
Tillögur lagðar fram.

Tillögum vísað til bæjarráðs.
Fundarhlé kl. 18:24. Fundi framhaldið kl. 19:05.

Valdimar Víðisson, Orri Björnsson, Margrét Vala Marteinsdóttir, Kristín Thoroddsen og Guðbjörg Oddný Jónasdóttir taka til máls.

Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun:

1. Útsvar
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að tekjur af útsvari og fasteignaskatti verði krónur 37.328.371 í stað 36.728 eða 600 milljónum hærri en fyrirliggjandi tillaga, enda sýna reynslutölur fjárhagsáætlana síðustu ára að útsvarstekjur hafa verið vanmetnar.
Greinargerð:
Ljóst er, og staðfest af embættismönnum, að spá um útsvarstekjur í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun er varfærin og tekur mið af miðspá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fjölgun íbúa, sem er síðan helminguð. Ljóst er að reynslutölur síðustu ára sýna ótvírætt að tekjur af útsvari hafa farið verulega fram úr áætlun og eru þær viðbótartekjur gjarnan notaðar til að fjármagna viðbótarútgjöld á fjárhagsárinu með viðaukum af ýmsu tagi. Fyrirliggjandi er að tekjur af útsvari á árinu 2025 verða um 800 milljónum króna hærri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Í þessari tillögu er farið bil beggja og lögð fram hófstillt tillaga og raunsæ um áætlaðar útsvarstekjur á komandi ári - eða hækkun um 600 milljónir frá fyrirliggjandi tillögu.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni.

2. Sparnaður og hagræðing - dregið úr aðkeyptri þjónustu

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarstjóra að draga saman kostnað við aðkeypta þjónustu bæjarins á fjárhagsárinu, sem nam meira en 3 milljörðum króna á árinu 2024 og ekki lægri upphæð á yfirstandandi ári. Einnig verði sett fram hófstillt aðhalds- og sparnaðarkrafa á stofnanir bæjarins, þar sem tök eru á. Einkum verði kostnaður aðalskrifstofu greindur í þessu sambandi. Bæjarstjóri leggi fram tillögur þess efnis fyrir bæjarráð fyrir lok janúar á næsta ári, 2026 og verði fjárhagsáætlun ársins í kjölfarið aðlöguð og breytt í því ljósi. Rekstrarsparnaður verði um 300 milljónum króna á komandi fjárhagsári.

Greinargerð:
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum um kostnað við aðkeypta þjónustu í sveitarfélaginu og vekur þar sitthvað athygli. Samkvæmt nýkomnum upplýsingum um umfang þeirra þjónustukaupa, þá liggur fyrir að aðkeypt þjónusta af ólíkum toga var meiri en 3 milljarðar á árinu 2024. Enn er unnið að gagnaöflun hjá sveitarfélaginu við öflun upplýsinga við fyrirspurn jafnaðarmanna um sundurliðuð heildarumsvif aðkeyptrar þjónustu. Öll stærri sveitarfélög landsins og ríkissjóður eru jafnan með hagræðingarkröfur á rekstur stofnana, þar sem þeim er falið hagræða og spara. Á það skal minnt að fjárhagsáætlun ársins 2023 samþykkti meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eigin tillögu um að hagræðingarkrafa væri 500 milljónir. Ekkert var gert í málinu og þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir jafnaðarmanna um sundurliðaðar aðgerðir í þessa veru, þá komu engin svör. Engin slík hagræðingartillaga hefur komið frá meirihlutanum síðan á yfirstandandi kjörtímabili. Hér er lögð til hófsamari aðkoma að verkefninu sem miði sérstaklega að sviði stjórnsýslu og þá sérstaklega aðkeyptri þjónustu af ólíkum toga, sem skiptir milljörðum hvað útgjöld varðar í bæjarkerfinu. Þar er sannarlega svigrúm til hagræðingar og sparnaðar ef pólitískur vilji er til staðar.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

3. Hækkun þjónustugjalda vegna fráveitu og móttöku frárennslis frá Garðabæ

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að þjónustugjöld/tekjur vegna fráveitu hækki um 60 milljónir króna vegna endurskoðaðs þjónustusamnings bæjarins við Garðabæ.
Greinargerð:
Fyrir liggur að fráveitukerfi Hafnarfjarðarbæjar tekur við umtalsverðu magni frárennslis frá Garðabæ. Samningur bæjarfélaganna um það kvað á um árlega greiðslu frá Garðabæ til Hafnarfjarðar að upphæð 12,5 milljónir króna. Sá samningur er fyrir nokkru runninn út, en nýtt bráðabirgðasamkomulag aðila var gert í ágúst síðastliðnum og var þá þjónustugjaldið tvöfaldað; er rúmar 2 miljónir á mánuði eða um 27 milljónir á ársgrundvelli. Þá hefur verkfræðistofan Efla tekið saman skýrslu um málið, sem og stöðu og framtíðarverkefni fráveitumála í Hafnarfirði. Ljóst er að miðað við magn frárennslis frá hverfum í Garðabæ, íbúðabyggð í Urriðaholti og atvinnu- og þjónustusvæðum þar í bæ, um lagnakerfi Hafnarfjarðar þá ætti það að skila mun hærri upphæðum í þjónustugjald til Hafnarfjarðarbæjar, ef tekið er mið af gjaldtöku skv. holræsagjaldi gagnvart íbúum Hafnarfjarðarbæjar. Einnig er eðlilegt að þessi þjónusta verði verðlögð þannig að ráð sé gert fyrir fjárfestingarkostnaði Hafnarfjarðar fyrr og nú og í framtíð, en ekki eingöngu rekstri kerfisins. Á yfirstandandi ári ver Hafnarfjarðarbæ 725 milljónum til verklegra framkvæmda við holræsamál og að jafnaði 800 milljónum á ári á næstu þremur árum. Eðlilegt er að gjaldtaka vegna nýtingar Garðabæjar taki mið af þessum kostnaði og er þá ótalinn kostnaður fyrri ára við lagnakerfi og hreinsistöðvar, sem Hafnarfjarðarbær hefur alfarið staðið straum af. Sérstaklega skal áréttað að Garðabær hefur á liðnum árum fengið útsöluverð á þessari þjónustu og greitt lægra gjald en þjónustunotendur í Hafnarfirði. Samstarf sveitarfélaga er af hinu góða og er jákvætt en það er sanngirnismál að það sé til hagsbóta fyrir báða aðila. Og þá ber að greiða sanngjarnt eftirgjald. Ljóst er að Garðabær hefur undirbúið árum saman stóra og kostnaðarsama framkvæmd við eigið lagnakerfi en frestað því og sparað fjármagn á meðan Hafnarfjörður hefur sinnt þjónustunni og fjárfestingu í þessum innviðum fyrir lágt þjónustuverð. Er morgunljóst að þessu virtu, að greiðslur Garðabæjar vegna þessarar þjónustu eru langt undir eðlilegum viðmiðunarmörkum og því gert ráð fyrir að tekjuauki fráveitunnar vegna nýs og endurskoðaðs samnings verði um 60 milljónir króna á komandi ári.

Framkomin tillaga um að vísa tillögunni til umhverfis- og framkvæmdaráðs er smaþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

4. Tekjur af gatnagerðagjöldum og byggingarréttargjöldum í Hraun Vestur

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að tekjur af gatnagerðargjöldum og byggingarréttargjöldum hækki um 70 milljónir vegna Hrauns vestur og uppbyggingar á svæðinu. Sama upphæð, 70 milljónir, komi til hækkunar útgjalda í fjárfestingum og sérstaklega merkt gatnagerð á Hrauni vestur.

Greinargerð:
Hér er lögð áhersla að flýta til muna uppbyggingu á Hrauni vestur, en þar hefur lítið gerst frá því fyrsta úthlutun átti sér stað 2019. Í fjárhagsáætlun meirihlutans er hvorki gert ráð fyrir tekjum né útgjöldum í þessu hverfi, fyrir utan 10 milljóna framlagi til gatnagerðar eða til undirbúnings, sem dugar skammt.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni.

5. Endurbætur á Reykjanesbraut og Flóttamannavegi og Borgarlínu frá miðbæ að Suðurhöfn

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að veita 60 milljónum króna til vegabóta til að flýta fyrir aðgerðum vegna brýnna framkvæmda við endurbætur á Reykjanesbraut og Flóttamannavegar annars vegar og framlengingu Borgarlínu frá miðbæ að Suðurhöfn hins vegar.
Greinargerð.

Í sérstökum tillögum jafnaðarmanna er lagt til að hefja formlegar viðræður við Betri samgöngur og Vegagerð ríkisins til að ýta á eftir og flýta brýnum vegabótum við Reykjanesbrautina, sem er að finna í Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er aðalþungi þeirra framkvæmda ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum. Jafnframt er alls óljóst hvernig tryggð verði greið hjáleið þegar framkvæmdir hefjast við stokk/undirgöng á Reykjanesbraut, en Flóttamannavegur/Ofanbyggðarvegur er einasti valkosturinn í þeim efnum. Þetta framlag bæjarins væri unnt að nota til að tryggja greiða aðkomu aðliggjandi vega bæjarins og eins að hefjast handa um handfastar lagfæringar og sýnir um leið virkan vilja Hafnarfjarðarbæjar til að flýta endurbótum. Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé að nýta þessa fjárveitingu til að tryggja framlengingu Borgarlínu frá Firði og að Suðurhöfninni, en samkvæmt samgöngusáttmálanum eru þau mál óafgreidd, en um leið brauðnauðsynleg. Með þessari tillögur er sýndur vilji í verki og ekki óeðlilegt að ætla að hluti þessarar upphæðar verði endurkræfur af hálfu bæjarins, þegar framkvæmdir Betri samgangna og eftir atvikum Vegagerðarinnar verða gerðar upp í verklok.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

6. Fjárfestingar - gatnagerð - undirbúningur uppbyggingar á Hrauni vestur

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir 70 milljónum króna verið varið til gatnagerðar og undirbúnings uppbyggingar á Hrauni vestur og hækki fjárfestingar sem því nemi.

Greinargerð:
Hér er lögð áhersla á að setja í gang fyrir alvöru uppbyggingu á Hrauni vestur, með hækkun í fjárfestingarkafla í 70 milljónir, en nánast ekkert hefur gerst á þessu framtíðarbyggingarsvæði frá úthlutun fyrstu lóðar árið 2019. Í tekjutillögum Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir tekjum á móti í formi gatnagerðar- og byggingarréttargjalda. Samfylkingin hefur ítrekað hvatt til þess á kjörtímabilinu að farið verði af stað með hverfið fyrir alvöru, en meirihlutinn skellt við skollaeyrum og lítið aðhafst. Nú er tími til að verkin tali.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar

 7. Fjárfestingar - nýr golfvöllur í upplandi Hafnarfjarðar

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hækka framlög vegna undirbúnings uppbyggingar nýs golfvallar, sem nýtist Golfklúbbnum Keili og Golfklúbbnum í Setbergi til framtíðar um 15 milljónir, þannig að heildarframlagið á næsta ári verði 20 milljónir en gert er ráð fyrir 5 milljónum til verkefnisins í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun.
Fyrir liggur samhljóða álit starfshóps og áðurnefndir golfklúbbar hafa sent frá sér sameiginlega viljayfirlýsingu í málinu. Þá liggur fyrir að nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar mun gera ráð fyrir starfsemi af þessum toga á svæði í upplandi Hafnarfjarðar; meðfram Krýsuvíkurvegi og Bláfjallavegi. Mikilvægt er að framhald verði á vinnunni, enda verið skipaður framkvæmdahópur kjörinna fulltrúa með aðkomu fulltrúa golfklúbbanna tveggja. Bæjarstjórn telur eðlilegt að verkefnið hafi fjármagn til þess að undirbúa verkefnið m.a. vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, afmörkun svæðis og frumhönnunar.

Greinargerð:
Tillagan skýrir sig sjálf. Í henni er gert ráð fyrir að hækka framlag til verkefnisins úr 5 milljónum eins og lagt er til í tillögum meirihlutans í 20 milljónir, sem er í raun forsenda þess að verkefninu miði markvisst áfram.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

Valdimar kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari. Orri kemur að andsvari. Guðmundur Árni svarar andsvari. Orri kemur að andsvari öðru sinni. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun:

8. Fjölgun félagslegra íbúða
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að framlag til fjárfestingar í félagslega íbúðakerfinu hækki um 200 milljónir og verði 450 milljónir á árinu 2026. Gert er ráð fyrir að Húsnæðisskrifstofa geti farið í stórátak í fjölgun íbúða á næsta ári, enda er gert ráð fyrir því að fasteignalán fylgi íbúðunum, sem staðið verði skil á að verulega leyti með leigugreiðslum notenda.

Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur fjölgun félagslegra íbúða verið afar hæg hjá Hafnarfjarðarbæ. Það kallar á kraftmeiri fjárfestingu í kerfinu. Framlag til kaupa á íbúðum í félagslega kerfið er 250 milljónir á yfirstandandi ári og í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir sömu upphæð. Það er ljóst að sú upphæð dugar hvergi nærri til þess að standa undir átaki í fjölgun í félagslegra íbúða. Það þýðir einfaldlega að mikið verk er óunnið í þessum mikilvæga málaflokki.

Nú eru 163 umsóknir samþykktar á biðlista eftir félagslegum íbúðum hjá bænum og þar af eru 33 einstaklingar skráðir heimilislausir á biðlistanum og eru því í mjög brýnni þörf. Hjá þeim einstaklingum sem fengu úthlutað tveggja herbergja íbúð á árinu hefur meðalbiðtíminn verið 4 ár, hjá þeim sem fengu úthlutað þriggja herbergja íbúðum árinu var meðalbiðtíminn tvö ár og hjá þeim sem var úthlutað fjögurra herbergja íbúðum var meðalbiðtíminn 1 ár. Þá er ekki reiknað inn í meðalbiðtímann bið þeirra sem ekki var úthlutað íbúð á árinu. Inn í þetta spilar að í dag eru 34 einstaklingar á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk en hluti þeirra gæti búið sjálfstætt í félagslegri íbúð á vegum bæjarins með stuðningi. Hjá þeim hefur einnig gengið hægt að vinna á biðlistum og eru í dag 50 einstaklingar á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk ef með eru taldir þeir einstaklingar sem eru í búsetuúrræðum sem ekki teljast fullnægjandi. Þar eins og annars staðar í húsnæðismálum er verk að vinna.

Alltof hægt hefur gengið að fjölga íbúðum í félagslega íbúðakerfinu og ljóst er að fjölgunin þarf að vera mun hraðari og kraftmeiri til þess að vinna á biðlistum. Og það er nauðsynlegt vegna þess að á bak við þessar umsóknir á biðlistanum eru hundruðir einstaklinga og fjölskyldna sem margir hverjir eru í sárri neyð vegna stöðu sinnar á húsnæðismarkaði. Þess vegna er nauðsynlegt að fjölga markvisst félagslegum íbúðum sveitarfélagsins og setja aukinn kraft í verkefnið. Hér er þörf á átaki, ekki bara á næsta ári heldur líka til lengri tíma svo vinna megi bug á þeim biðlistum sem til staðar eru eftir þessu mikilvæga úrræði. Á síðasta ári stefndi Reykjavík að því að fjölga félagslegum íbúðum um 90. Ef Hafnarfjörður ætlaði sér að fjölga hlutfallslega jafn mikið og Reykjavík þá þyrfti fjölgunin að nema um 16 íbúðum á ári þegar raunstaðan er sú í Hafnarfirði að félagslegum íbúðum hefur einungis fjölgað að meðaltali um rétt liðlega fjórar á ári á síðustu 6 árum. Aðgerðarleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessum málum hefur því skapað þær aðstæður að hér er þörf á átaki, ekki bara á næsta ári heldur líka til lengri tíma svo vinna megi bug á þeim biðlistum sem til staðar eru í kerfinu eftir áralanga vanrækslu meirihlutans í þessum málaflokki.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

9. Undirbúningur uppbyggingar íþróttaaðstöðu við grunnskóla sem ekki eru með íþróttahús

Bæjarstjórn samþykkir að hefja vinnu við gerð áætlunar til næstu ára um uppbyggingu íþróttaaðstöðu við skóla í bænum sem ekki eru með íþróttahús í dag. Í þeirri vinnu verði greindur kostnaður við keyrslu í íþróttahús til lengri tíma, samhliða kostnaðarmati á byggingu íþróttahúsa og rekstri þeirra. Til þessa verkefnis verði varið 10 milljónum á næsta ári.

Greinargerð:
Grunnskólar í Hafnarfirði búa við ólíkar aðstæður hvað íþróttaaðstöðu við skólana varðar. Við suma skóla eru skólaíþróttahús sem nýtast nemendum við skólana, ekki síst yngstu nemendum skólanna. Annars staðar þurfa allir nemendur skólanna að sækja íþróttatíma um lengri veg. Lengi hefur verið rætt hvort rétt sé að byggð verði upp íþróttahús við þessa skóla líkt og við aðra skóla í bænum. Það er í raun orðið löngu tímabært að fara í alvöru skoðun á þessum málum til þess að unnt sé að leggja mat á það hvort það sé skynsamlegt og æskilegt að byggja íþróttaaðstöðu við þá skóla sem ekki eru með íþróttahús. Meðal þess sem verður að greina er kostnaðurinn við keyrslu í íþróttahús á móti kostnaði vegna uppbyggingar og reksturs íþróttahúsa við skólana.

Framkominni tillögu um vísa tillögunni til fræðsliuráðs er samþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ásamt fullttrúa Viðreisnar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

10. Menningarhús

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að framlög til undirbúnings að opnun menningarhúss í Hafnarfirði hækki um 10 milljónir og verði 20 milljónir á næsta ári. Þeir fjármunir nýtist til undirbúnings opnunar nýs menningarhúss í Hafnarfirði sem geti þjónað sviðslistum, tónlist og öðrum skapandi greinum og menningu í sinni breiðustu mynd.

Greinargerð:
Hér er lagt til að heildarframlög vegna undirbúnings að opnun menningarhúss í Hafnafirði verði 20 milljónir á næsta ári. Það er hækkun um 10 milljónir frá fyrirliggjandi fjárhagsáætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Starfshópur um menningarhús í Hafnarfirði, sem skipaður var að tillögu Samfylkingarinnar, er enn að störfum en vænta má tillagna frá honum fljótlega. Mikilvægt er að í kjölfarið verði tekin markviss skref í kjölfar niðurstöðu og tillagna starfshópsins. Þá verði valkostir greindir nánar og undirbúningur hafinn fyrir alvöru. Til þess þarf fjármuni, m.a. til hönnunarvinnu, kostnaðargreiningar, uppbyggingaráætlunar og til annars undirbúnings og brýnt að sú vinna hefjist af fullum strax í upphafi næsta árs.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

11. Tónlistarskóli

Bæjarstjórn samþykkir að framlög vegna stækkunar Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hækki um 15 milljónir og fari þannig úr 5 milljónum í 20 milljónir á næsta ári.

Greinargerð:
Hér er lagt til að heildarframlög vegna stækkunar Tónlistarskóla Hafnarfjarðar verði 20 milljónir á næsta ári í stað 5 milljóna eins og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun og hækki þannig um 15 milljónir. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar varð 75 ára á þessu ári og hann á sér svo sannarlega glæsta sögu og margir Hafnfirðingar hafa stigið þar sín fyrstu spor á tónlistarbrautinni. Hann gegnir gríðarlega stóru hlutverki fyrir tónlistarmenntun hafnfirskra ungmenna sem og fyrir menningarstarf bæjarins. Það verður því að hlúa vel að starfsemi skólans, nemendum hans og starfsfólki. Lítið hefur gerst í þessum málum á kjörtímabilinu þrátt fyrir yfirlýstan vilja bæjarstjórnar til þess að stækka húsnæði skólans. Til marks um það þá lagði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks fram tillögu á fyrsta fundi bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili þess efnis að undirbúningur að stækkun skólans yrði hafinn. Ekkert gerðist svo í málinu fyrr en fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu á fundi bæjarstjórnar þann 9. apríl sl. sem miðaði að því að hefja undirbúning að stækkun Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Meirihlutinn treysti sér ekki til að samþykkja tillöguna en samþykkt var að vísa henni til vinnslu hjá starfshópi um menningarhús í Hafnarfirði. Sá starfshópur er enn að störfum en búast má við tillögum frá honum fljótlega. Mikilvægt er að í kjölfarið verði tekin markviss skref í kjölfar niðurstöðu og tillagna starfshópsins. Þá verði valkostir greindir nánar og undirbúningur hafinn fyrir alvöru. Til þess þarf fjármuni, m.a. til hönnunarvinnu, kostnaðargreiningar, uppbyggingaráætlunar og til annars undirbúnings og brýnt að sú vinna hefjist af fullum strax í upphafi næsta árs.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar

Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu við fjárhagsáætlun:

12. Frístundastyrkur - tillaga um hækkun

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni 3-18 ára verði alls 75 þúsund krónur á hvern einstakling á ári frá og með 01.01.2026. Árlegur viðbótarkostnaður vegna þess er um 85 milljónir króna.

Greinargerð:
Mikilvægi frístundastyrksins er óumdeilt og skiptir máli fyrir börn og ungmenni bæjarins og fjölskyldur þeirra. Enda var það baráttumál jafnaðarfólks að koma frístundastyrknum á fót hér í Hafnarfirði á sínum tíma. Með slíku framlagi er þess freistað að sem flest börn og ungmenni geti tekið þátt í uppbyggilegri tómstunda- og/eða íþróttaiðkun. Við gerð síðustu tveggja fjárhagsáætlana felldu fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillögu Samfylkingarinnar um að hækka frístundastyrkinn í 65 þúsund kr. á ári sem og tillögur okkar um að styrkurinn yrði einnig í boði frá fimm ára aldri. Fyrir ári síðan ákvað meirihlutinn að frístundastyrkurinn yrði í boði fyrir 5 ára börn frá og með hausti 2025 en þá einungis á þann veg að 5 ára börn eigi rétt á hálfum frístundastyrk. Og nú á lokametrum kjörtímabilsins ætlar meirihlutinn að leggja það til að að styrkurinn verði í boðið fyrir 3 og 4 ára börn að hluta sem er auðvitað ekkert annað en sýndarmennska þegar kjörtímabilinu er að ljúka.

Samfylkingin stendur áfram með þessu gamla og sígilda baráttumáli sínu, frístundastyrknum, enda var honum komið á í tíð jafnaðarmanna við stjórn bæjarfélagsins fyrir margt löngu. Til þess að tryggja það að börn og ungmenni geti stundað íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag leggjum við fram þessa tillögu um hækkun styrksins upp í 75 þúsund kr. á ári en það er sambærileg upphæð og í Reykjavík. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir því að styrkurinn nái til yngri barna, niður í 3ja ára og verði sá sami fyrir öll börn og ungmenni sem eiga rétt á honum en ekki helmingaður hjá yngstu börnunum eins og tillaga meirihluta bæjarstjórnar gengur út á. Eins hvetur Samfylkingin til að möguleikar barna til tómstunda verði útvíkkaðir og þá ekki síst gagnvart skapandi greinum. Góð samstaða er um þær breytingar í fræðsluráði og mun unnið að breytingu á greiðslufyrirkomulagi og auknum möguleikum til nýtingar frístundastyrksins. Ítrekaðar tillögur Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu um hækkun og styrkingu frístundastyrksins hafa mætt fálæti og andstöðu hjá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og hann fellt slíkar tillögur aftur og aftur á yfirstandandi kjörtímabili og sýnt málinu lítinn áhuga og sýndarmennska á lokametrum kjörtímabilsins breytir litlu þar um.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

13. Hækkun vegna framkvæmda á frjálsíþróttasvæði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að framlag til endurbóta á hlaupabrautum frjálsíþróttadeildar FH í Kaplakrika verði 10 milljónir á árinu 2026.

Greinargerð:
Hér er gert ráð fyrir því að hækka framlag til verkefnisins úr 5 milljónum í 10 þannig að það geti farið af stað.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

14. Miðstöð frístunda - hækkun á fjármagni, útboð og upphaf framkvæmda

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hækka framlag vegna miðstöðvar frístunda sem á að rísa í Hamranesi um 50 milljónir, úr 10 milljónum í 60 milljónir á næsta ári.

Greinargerð:
Hér er gerð tillaga um hækkun framlags vegna miðstöðvar frístunda sem á að rísa í Hamranesi 50 milljónir á næsta ári, eða úr 10 milljónum eins og lagt er til í fjárhagsáætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í 60 milljónir. Þannig verður hægt að hefjast handa við hluta verkefnisins á næsta ári og setja meiri kraft í það.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

20. Gjaldskrá leikskóla - mat á áhrifum breytinga
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fram fari mat að 6 mánuðum liðnum þar sem áhrif breytinga á gjaldskrá verða metin og að matið nái til m.a. eftirfarandi atriða:

1. Áhrif á börnin:
-Er viðvera barna að styttast?
-Hvernig hafa breytingarnar áhrif á líðan, þátttöku og þroska?

2. Starfsfólk og mönnun:
- Minnkar álag á starfsfólki?
- Skilar þetta sér í jákvæðum breytingum innan leikskólanna, aukinni starfsánægju og meiri stöðugleika?

3. Notkun:
- Hversu margir foreldrar eiga kost á og nýta sér 6 tíma viðveru?
- Hver er raunverulegur samfélagslegur og faglegur ávinningur?

4. Áhrif á jaðarhópa:
- Hvernig hefur breytingin áhrif á tekjulægri heimili og börn með fötlun?
- Er tryggt að breytingin leiði ekki til aukins ójafnræðis?

5. Fjárhagsleg áhrif:
- Hvaða sparnaður eða kostnaður skapast fyrir heimilin og sveitarfélagið?

Greinargerð:
Við í Samfylkingunni viljum leggja áherslu á metnaðarfulla þróun leikskólastarfsins. Góð eftirfylgni og skýrar mælingar eru grunnurinn að góðum árangri. Með því að fá heildstæða mynd af áhrifum breytinga á gjaldskrá verður hægt að meta hvort breytingarnar hafi orðið til þess að efla skólastarfið og bæta hag nemenda, starfsfólks og foreldra og forráðamanna. Með markvissri eftirfylgni þar sem lagt er mat á þær breytingar sem bæjarstjórn hefur samþykkt getum við byggt áfram upp sterkara, réttlátara og barnvænna leikskólaumhverfi.

Framkomin tillaga um að vísa tilögunni til fræsðluráðs er samþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun:

15. Frítt í Strætó fyrir börn 12-17 ára

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að börn í Hafnarfirði á aldrinum 12-17 ára fái frítt í strætó. Árlegur viðbótarkostnaður vegna þessa er um 97 milljónir króna.

Greinargerð:
Bæði ungmennaráð og Foreldraráð Hafnarfjarðar hafa lagt til að hækka aldur barna sem fá frítt í strætó. Í því er fólgin bæði tímasparnaður og fjárhagslegur ávinningur fyrir foreldra og forráðafólk. Að auki dregur það úr umferð og hefur jákvæð umhverfisáhrif. Þá er þetta jákvæður hvati til ungmenna um nýtingu almenningssamgangna sem fylgir þeim út í lífið. Árlegur viðbótarkostnaður er 97 milljónir króna.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar.

16. Sveinssafn - tillaga um hækkun framlaga
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að veita 10 milljónum króna til Sveinssafns í Krýsuvík sem og að unnið verði að gerð samstarfssamnings aðila um rekstur safnsins, þ.e. milli afkomenda Sveins Björnssonar listmálara, Hafnarfjarðarbæjar, menningar-, nýsköpunnar- og háskólaráðuneytisins og HS Orku.

Greinargerð:
Mikilvægt er að styrkja stoðir og varðveislu Sveinssafns í Krýsuvík og tryggja rekstur þess og þjónustu til framtíðar. Samfylkingin hefur ítrekað rætt þau mál og hvatt til að gerður verði samstarfssamningur aðila í þeim efnum. Hér er sýndur raunverulegur vilji bæjarins með fjárframlagi í fjárhagsáætlun, sem verði upphaf og innlegg í gerð samstarfssamnings aðila, eins og rakið er í tillögunni.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

17. Ásvallalaug - hækkun á fjármagni - upphaf framkvæmda

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að framlag til undirbúningsframkvæmda við Ásvallalaug hækki um 40 milljónir króna og verði 90 milljónir á árinu 2026.

Greinargerð:
Hér er gerð tillaga um hækkun framlags til undirbúningsframkvæmda Ásvallalaugar um 40 milljónir, eða úr 50 milljónum króna sem lagt er til í fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í 90 milljónir, þannig að unnt verði að hefjast handa við hluta verkefnisins.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

18. Sundhöllin, endurbætur

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hækka framlag við endurbætur á Sundhöll Hafnarfjarðar um 40 milljónir, þannig að það fari úr 70 milljónum í 110 milljónir.

Greinargerð:
Fjármagnið verði notað til að undirbúa og hefja framkvæmdir við endurbætur á útisvæði og tengja sundhöllina sjóböðum sem er í samræmi við samþykktir umhverfis- og framkvæmdaráðs vegna málsins.

Í minnisblaði frá hausti 2024 er gert ráð fyrir að kostnaður vegna framkvæmdanna verði um 115 milljónir kr. Það er samstaða um að hefja endurbætur við Sundhöll Hafnarfjarðar sem eru löngu tímabærar. Því er lögð til hækkun framlags svo að hægt verði að ljúka endurbótum að mestu fyrir árslok 2026.

Tillagan er felld þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

19. Aðgengismál - hækkun framlags vegna bætts aðgengis að húsnæði eigu bæjarfélagsins

Bæjarstjórn samþykkir að hækka framlög í þágu bætts aðgengis að húsnæði í eigu bæjarfélagsins um 20 milljónir þannig að það verði 40 milljónir á næsta ári.

Greinargerð:
Tillagan skýrir sig sjálf en lagt er til að framlög vegna þessa mikilvæga verkefnis hækki um 20 milljónir og verði heildarframlög vegna þess því 40 milljónir á næsta ári. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða og leita verður allra leiða til þess útrýma öllum hindrunum hvað varðar aðgengi að húsnæði í eigu bæjarins. Af þeim sökum leggja jafnaðarmenn til tvöföldun á upphæð til þessa verkefnis svo hægt verði að ganga í það af meiri krafti og festu en ella.

Framkomin tillaga um að vísa tillögunni til umhverfis- og framkvæmdarráðs er samþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði með tillögunni ásamt fulltrúa Viðreisnar. Fjórir fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Valdimar Víðisson kemur til andsvars. Stefán Már svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars öðru sinni. Stefán Már svarar andsvari.

Orri Björnsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögur að breytingum á framkomnum tillögum Samfylkingar:

3. Hækkun þjónustugjalda vegna fráveitu og móttöku frárennslis frá Garðabæ

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að þjónustugjöld/tekjur vegna fráveitu hækki um 60 milljónir króna vegna endurskoðaðs þjónustusamnings bæjarins við Garðabæ.

Verði vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs

5. Undirbúningur uppbyggingar íþróttaaðstöðu við grunnskóla sem ekki eru með íþróttahús

Verði vísað til fræðsluráðs

13. Aðgengismál - hækkun framlags vegna bætts aðgengis að húsnæði eigu bæjarfélagsins

Verði vísað til umhverfis og framkvæmdaráðs

Tillögur vegna gjaldskrár: KTH

1. Gjaldskrá leikskóla - mat á áhrifum breytinga
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fram fari mat að 6 mánuðum liðnum þar sem áhrif breytinga á gjaldskrá verða metin og að matið til m.a. til eftirfarandi atriða:

Verði vísað til fræðsluráðs.

Árni Rúnar tekur til máls. Orri kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari.

Guðmundur Árni tekur til máls.

Umræðum lokið.

Forseti ber næst upp framkomnar tillögur frá fulltrúum Samfylkingar og niðurstaða atkvæðagreiðslu er færð undir hverja tillögu fyrir sig hér að framan.

Næst ber forseti upp til atkvæða fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2026 með áorðnum breytingum. Er hún samþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks samþykkja. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar sitja hjá.

Næst ber forseti upp til atkvæða fyrirliggjandi langtímaáætlun 2027-29. Er hún samþykkt þar sem sex fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks samþykkja. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar sitja hjá.

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun:

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar gerir ráð fyrir 2.087 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 942 milljónir króna á árinu 2026 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 6,9% af heildartekjum eða 3.983 milljónir króna.

Áætlað er að skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2026 verði 92,6%, sem er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Útsvarsprósenta verður óbreytt á milli ára 14,93%. Álagningarprósenta fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,217 í 0,1999 og álagningarprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,387 í 1,367.

Álagningarprósentan lækkar þannig að fasteignagjöld hækka ekki umfram verðbólgu og sama gildir um atvinnuhúsnæði.

Hér höfum við byggt upp ábyrgan rekstur sem skilar sér í stöðugleika, fyrirsjáanleika og svigrúmi til að þróa traust og gott samfélag. Við hlúum að grunnþjónustu og forgangsröðum fjárfestingum sem styrkja skóla, íþróttir, umhverfi og innviði.

Ábyrg fjármálastjórn snýst um að nýta skattfé íbúa með skynsamlegum hætti. Við leitum jafnvægis á milli framkvæmda og aðhalds. Þannig tryggjum við stöðugt, sanngjarnt og hlýlegt samfélag fyrir Hafnfirðinga, nú og til framtíðar.

Guðmundur Árni Stefánsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd Samfylkingarinnar:

Við afgreiðslu þessarar fjárhagsáætlunar hefur Samfylkingin lagt fram margar metnaðarfullar tillögur sem miða að því að efla Hafnarfjörð og bæta hag og velferð bæjarbúa. Í þeim endurspeglast skýr sýn og stefna Samfylkingarinnar fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga til framtíðar. Hér er um að ræða tillögur sem taka á húsnæðismálum í víðu samhengi, tillögur í þágu barna og ungmenna, í þágu fólks með fötlun, í þágu bættra samgangna, hagræðingar og bættrar stjórnsýslu og svo mætti lengi áfram telja. Þessi skýra framtíðarsýn sem birtist í tillögum jafnaðarmanna er í fullkominni andstöðu við upplegg meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessari síðustu fjárhagsáætlun hans sem einkennist enn og aftur af lausatökum, skammtímareddingum og skorti á framtíðarsýn og stefnuleysi í stóru sem smáu. Það kemur því miður ekki á óvart því allar fjárhagsáætlanir þessar meirihluta hafa verið sama marki brenndar. Enda fór það svo að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gat ekki samþykkt eina einustu breytingartillögu okkar í Samfylkingunni, heldur felldi þær langflestar en vísaði nokkrum til umfjöllunar í ráðum.

Í stóru og öflugu bæjarfélagi eins og Hafnarfjörður er, þá miðar ýmsu vissulega í rétta átt og á kjörtímabilinu hefur jafnaðarfólk í minnihluta bæjarstjórnar haldið meirihlutanum við efnið með málefnalegum hætti þegar kemur að mikilvægum málum, stórum og smáum. Samfylkingin hefur verið óþreytandi við að setja mál á dagskrá sem máli skipta fyrir hag og velferð bæjarbúa í nútíð og framtíð. Þar má nefna mál á borð við nýjan Tækniskóla sem jafnaðarmenn hafa ítrekað ýtt við, stækkuð vaxtarmörk byggðar sem skapar rými fyrir nýja uppbyggingu húsnæðis, ekki síst fyrir óhagnaðardrifin leigufélög, upphaf orkuframkvæmda í Krýsuvík og frágang þéttingar byggðar á Óseyrarsvæði. Einnig hefur jafnaðarfólk haldið meirihlutanum við efnið, þegar kemur að félagslegum stuðningi við bæjarbúa, aukna þjónustu í skólum, s.s. fríar skólamáltíðir, næturstrætó, gjaldfrjálsar strætóferðir fyrir unglinga til 18 ára aldurs, fjölgun félagslegra íbúða, talað fyrir málefnum heimilislausra og staðið fyrir málefnalegri gagnrýni á lokun Hamarsins fyrir ungmenni í bænum og margt fleira væri hægt að tína til. Allt þetta hefur Samfylkingin nálgast með málefnalegum og uppbyggilegum hætti og ýtt áfram jákvæðum verkefnum, sem jafnan hafa staðið í meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Tilgangur fjárhagsáætlana sveitarfélaga til næstu fjögurra ára er ekki eingöngu að skipta skattfé á einstök verkefni heldur að marka stefnuna til framtíðar og leggja almennar línur í rekstri og framkvæmdum sveitarfélagsins. Líkt og áður þá skortir verulega á að slíkt sé gert í þessari síðustu fjárhagsáætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og er hún í engu frábrugðin öðrum áætlunum meirihlutans á kjörtímabilinu hvað þetta varðar. Miklu frekar er tjaldað til einnar nætur, málin látin reka á reiðanum og haldið áfram í hlutlausum gír. Og við okkur blasir algjör skortur á stefnu, framtíðarsýn og langtímamarkmiðum og engum skilaboðum er komið á framfæri við bæjarbúa um leiðina framundan.

Fyrir liggur að rekstur bæjarins er tæpast sjálfbær enda koma takmarkaðir fjármunir úr rekstri bæjarins, líkt og raunin hefur verið allt kjörtímabilið, í verklegar framkvæmdir eða fjárfestingar. Síðustu ár hafa framkvæmdir við leik- og grunnskólabyggingar og fleiri mannvirki að mestu verið fjármagnaðar með lántöku og með einskiptistekjum sem verða til við lóðasölu. Það hefur enda verið reyndin við rekstur Hafnarfjarðar á tíma þessa meirihluta sem nú stýrir bænum að sala lóða og innheimta gatnagerðar- og byggingarréttargjöldum á þéttingarreitum hefur verið sá tekjustofn sem fleytt hefur bæjarfélaginu áfram. Á mæltu máli þýðir það einfaldlega að Hafnarfjörður mun lenda í verulegum fjárhagsvanda þegar slaknar á framboði og eftirspurn eftir lóðum og milljarða tekjur af lóðasölu dragast saman. Núverandi meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur neitað að horfast í augu við þessa stöðu, ber höfðinu við steininn og setur kíkinn fyrir blinda augað. Undirliggjandi rekstur er ekki sjálfbær og meirihlutinn hefur ekkert gert til þess að reyna að bregðast við þessu á kjörtímabilinu. Í þessum efnum er þess skemmst að minnast á að í fjárhagsáætlun ársins 2023 samþykkti meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eigin tillögu um hagræðingarkröfu upp á næri 500 milljónir. Ekkert var gert í málinu þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir jafnaðarmanna um málið. Engin slík hagræðingartillaga hefur komið frá meirihlutanum síðan á yfirstandandi kjörtímabili sem lýsir fullkomnu metnaðarleysi og uppgjöf fyrir verkefninu.

Samkvæmt gildandi skipulagi eru ný uppbyggingarsvæði uppurin í Hafnarfirði og án nýrrar sóknar stefnir í óefni. Stefnuleysi núverandi meirihluta hjálpar ekki í þeim efnum. Á kjörtímabilinu hefur lítið sem ekkert hreyfst á þéttingarreitum eins og t.d. á Hraun vestur en nánast ekkert hefur gerst á þessu framtíðarbyggingarsvæði frá úthlutun fyrstu lóðar árið 2019. Til þess að hreyfa við þeim málum lögðu jafnaðarmenn til við afgreiðslu þessarar fjárhagsáætlunar 70 milljón króna fjárfestingu í gatnagerð og undirbúningi uppbyggingar á Hrauni Vestur og hún er að fullu fjármögnuð með gatnagerðar- og byggingarréttargjöldum. En í takti við verkleysi sitt á kjörtímabilinu þá hafnaði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þessari tillögu okkar. Skortur á framtíðarsýn birtist einnig í verkleysi þegar kemur að hugsanlegum nýjum byggingarreitum á lóðum sem eru utan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Hafnarfjarðarbær hefur til að mynda enn ekki látið reyna á útvíkkun vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og eftirfylgni jafnaðarfólks í bæjarstjórn og skipulags- og byggingaráði. En svo virðist sem meirihlutinn hafi loksins vaknað til lífsins á lokametrum kjörtímabilsins þegar skipulags- og byggingaráð, að frumkvæði Samfylkingarinnar, samþykkti í nóvember sl. að hefja vinnu við útvíkkun vaxtamarkanna. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skilar einnig auðu þegar kemur að auknu framboði fjölbreytts húsnæðis. Lítill sem enginn áhugi er á samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, ekkert hefur verið gert í byggingum fyrir eldra fólk, nema að skipaður var starfshópur að frumkvæði Samfylkingarinnar, sem nú hefur skilað niðurstöðum, og langt er síðan byggðar voru námsmannaíbúðir í Hafnarfirði. Að auki hefur fjölgun félagslegra íbúða gengið afar hægt og biðlistar eru langir þar sem margir einstaklingar og fjölskyldur eru í mikilli neyð. Við þessu þarf að bregðast en enn og aftur þá hafnar meirihlutinn hófsömum tillögum okkar jafnaðarfólks í þá veru við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Meðal þeirra tillagna sem jafnaðarmenn lögðu fram, en meirihlutinn hefur fellt, er hækkun frístundastyrks, frítt í strætó fyrir hafnfirsk ungmenni, flýtiframkvæmdir vegna Reykjanesbrautar og Borgarlínu, markviss uppbygging í sundlaugum bæjarins, framlagi vegna nýs menningarhúss, hröðun framkvæmda við frístundamiðstöð í Hamranesi og svo mætti áfram telja. Allar endurbótatillögur Samfylkingarinnar eru fullfjármagnaðar með raunhæfum tekjutillögum og leiða til aukins rekstrarafgangs og frekari niðurgreiðslu skulda bæjarins. Breytingartillögurnar við áætlunina voru 16 talsins, auk 4 tekjutillagna en meirihlutinn treysti sér ekki til að samþykkja neina þeirra, heldur felldi þær langflestar en vísaði þó nokkrum til ráða. Jafnframt lögðu jafnaðarmenn fram 10 ályktunartillögur á þessum fundi um mikilvæg hagsmunamál í samgöngumálum, tómstundamálum, skólamálum, framtíðarskipan hafnarmála og fleiri mikilvægum hagsmunamálum bæjarbúa.

Þessi síðasta fjárhagsáætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ber öll merki valdaþreytu og samstarfsdoða. Þróunin hjá þessum meirihluta hefur verið mjög hliðstæð þróun ríkisstjórnar þessara flokka og VG sem hrökklaðist frá völdum með eftirminnilegum hætti í þingkosningum fyrir ári síðan. Sem betur fer hafa kjósendur skýran valkost um breytingar næsta vor þegar kosið verður til bæjarstjórnar að nýju. Þá geta kjósendur valið nýtt upphaf líkt og þeir gerðu í síðustu alþingiskosningum. Samfylkingin í Hafnarfirði er sannarlega tilbúin til verka sem endurspeglast í þeim fjölmörgu tillögum sem við leggjum fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs þar sem er að finna skýra sýn og stefnu í þágu Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga.

Fulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2026:

Ljóst er af gögnum fjárhagsáætlunar og sjóðstreymis að fjármálastjórn meirihlutans á þessu kjörtímabili hefur verið óábyrg og ósjálfbær. Rekstur bæjarsjóðs hefur ekki staðið undir sér eitt einasta ár kjörtímabilsins. Handbært fé frá rekstri er neikvætt um 671 milljónir króna og því hefur bæjarsjóður ekki haft krónu aflögu til að standa undir lögbundnum afborganir lána og vaxta.

Afborganir og vextir nema 8,9 milljörðum króna á tímabilinu, og hefur allur sá kostnaður verið fjármagnaður með nýjum lánum. Heildarlántaka til að halda rekstrinum gangandi nemur 9,5 milljörðum króna. Meirihlutinn hefur þannig rekið bæinn á lánsfé ? tekið lán til að greiða lán og tekið lán til að fjármagna rekstrarhalla.

Þrátt fyrir þetta er kynnt villandi mynd í opinberum gögnum með því að leggja saman A- og B-hluta rekstrarreiknings á þann hátt að villir um fyrir íbúum um raunverulega stöðu fjármála bæjarins. Lánsfjármögnun er þannig sett fram sem tekjur og rekstur sýndur sterkari en gögnin staðfesta. Þetta er ekki gagnsæ stjórnsýsla.
Með þessari fjármálastjórn hefur meirihlutinn varpað 9,5 milljarða króna skuld yfir á framtíðarkynslóðir Hafnfirðinga, auk vaxta og verðbóta. Hallarekstur er frestuð skattheimta og ungt fólk mun borga reikninginn fyrir þessa óábyrgu stefnu.

Viðreisn telur brýnt að um leið og þessu kjörtímabili lýkur verði gerðar róttækar breytingar á fjármálastjórn bæjarins.

Við leggjum áherslu á:

1. Að stöðva ný ófjármögnuð útgjöld strax.
2. Að setja skýrt þak á vöxt rekstrargjalda ? hámark 2% raunaukning.
3. Að breyta vinnubrögðum þannig að ákvarðanir byggi á staðreyndum, ekki óskhyggju í tekjuáætlunum.
4. Að efla samvinnu sveitarfélaga verulega, einkum á sviði stafrænnar þróunar og innkaupa, þar sem milljarðatækifæri liggja.
5. Að tryggja að uppbygging bæjarins sé markviss og sjálfbær í stað óskipulags og óðagots sem eykur kostnað.

Núverandi meirihluti hefur ekki sýnt þann aga né þá ábyrgð sem þarf í fjármálum bæjarins. Ljóst er að breytinga er þörf og Viðreisn mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Tillögur Viðreisnar við þessa fjárhagsáætlun voru skynsamlegar og m.a. miðaðar að bættum rekstri. Við erum ánægð með að tillaga okkar um fjárfestingu í velferðartækni hafi hlotið brautargengi. Slíkt mun bæta velferðarþjónustuna og gera hana markvissari og hagkvæmari.
Tillaga okkar um þann sjálfsagða rétt að fá greiðslu íþrótta og tómstundastyrks í einu lagi eykur valfrelsi um tómstundir barna og kostar bæinn ekkert aukalega.

Stefna okkar um að lækka aldur barna sem notið geta frístundastyrks hefur náð fram að ganga.

Tillaga okkar um kennslu í fjármálalæsi í vinnuskóla Hafnarfjarðar er að verða að veruleika og gleðjumst við yfir því.

Einnig er gleðilegt að samþykkt hefur verið að fjármagna kennslu í félags- tilfinninga og streitustjórnun í grunnskólum. Slíkt mun bæta líðan til muna.

Viðreisn lagði fram fleiri tillögur sem við munum koma til framkvæmda í nýjum meirihluta næsta vor. Þær má finna undir bókun okkar við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar þann 5 nóvember 2025.
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029.pdf
Fjarfestingar 2026-2029 - Bæjarstjórn 03122025.pdf
Gjaldskrá 2026.pdf
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029 - Greinargerð.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 22:54 

Til bakaPrenta