Til bakaPrenta
Skipulags- og byggingarráð - 837

Haldinn Fundarsalurinn Hamarinn, Norðurhellu 2 (1. hæð),
25.11.2025 og hófst hann kl. 08:30
Fundinn sátu: Skarphéðinn Orri Björnsson formaður,
Árni Rúnar Árnason varaformaður,
Lovísa Björg Traustadóttir aðalmaður,
Guðrún Lísa Sigurðardóttir aðalmaður,
Sigurjón Ingvason áheyrnarfulltrúi,
Ágúst Arnar Þráinsson varamaður,
Ívar Bragason bæjarlögmaður, Sigurður Haraldsson sviðsstjóri, Anna María Elíasdóttir fundarritari, Hildur Bjarnadóttir byggingafulltrúi, Anna Margrét Tómasdóttir starfsmaður, Berglind Guðmundsdóttir starfsmaður, Lilja Grétarsdóttir skipulagsfulltrúi, Anne Steinbrenner starfsmaður.
Fundargerð ritaði: Anna María Elíasdóttir, skrifstofustjóri
Auk ofangreindra ráðsmanna sátu fundinn Lilja Grétarsdóttir skipulagsfulltrúi, Ívar Bragason bæjarlögmaður og Helga Stefánsdóttir forstöðumaður.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2502769 - Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029
Teknar til umræðu þær tillögur sem vísað hefur verið til ráðsins.
1. Útvíkkun vaxtamarka og framboð fjölbreytts húsnæðis

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa. Starfshópurinn njóti stuðnings sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni starfshópsins er að meta tækifæri til íbúðauppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum sem verða til með útvíkkun vaxtamarkanna. Einkum verður horft til þess að hraða uppbyggingu íbúða og skapa hagkvæmari valkosti fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Starfshópurinn skoði samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og félög um stúdentaíbúðir, byggingarfélög eldri borgara sem og við félög á borð við Bjarg, Búseta og Búmenn. Hópurinn skoði einnig samstarf við ríkið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis m.a. möguleika á stofnun innviðafélags sem fjármagnar og hefur umsjón með uppbyggingu ákveðins fjölda íbúða og þar með talið uppbyggingu innviða eins og gatnagerð, leik- og grunnskóla ofl. Þegar kemur að íbúðum fyrir eldra fólk skal hópurinn líta til niðurstöðu starfshóps um íbúðir fyrir eldra borgara sem mun skila af sér niðurstöðum á næstu vikum. Einnig skal starfshópurinn skoða sérstaklega hvernig hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélagsins á næstu árum svo hægt verði að vinna á löngum biðlistum eftir slíku húsnæði. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 1. maí og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. október n.k.

Greinargerð:
Mikilvægt er að leita allra leiða til þess að auka framboð fjölbreytts íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 30. október síðastliðinn var samþykkt að hefja vinnu við útvíkkun vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar í bæjarstjórn með það að markmiði að marka ný byggingarsvæði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Það er gert ráð fyrir að tillaga um slíkt liggi fyrir eigi síðar en í janúar 2026. Það er til staðar mikil uppsöfnuð íbúðaþörf í landinu og gera áætlanir ráð fyrir að það þurfi að byggja allt að 5000 íbúðir á ári og þar af yfir 500 í Hafnarfirði. Ekki hefur dregið úr eftirspurn eftir íbúðum þrátt fyrir spár þess efnis. Á sama tíma og þörf fyrir nýjar íbúðir eykst, þá er 70% fækkun nýframkvæmda á byggingarmarkaði milli ára. Nýlega lagði ríkisstjórnin fram húsnæðispakka þar sem áherslan er á einfaldara, skýrara og hraðara, einnig fleiri almennar íbúðir, fleiri íbúðir fyrir námsmenn og öryrkja og fleiri íbúðir fyrir alla. Einnig hefur verið kynnt samstarf ríkis og borgar um samstarfi í uppbyggingu í Úlfarsárdal með stofnun innviðafélags. Innviðauppbygging í nýjum hverfum hefur reynst sveitarfélögum erfið hindrun þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á nýjum svæðum, en nú kemur ríkið að því. Starfshópurinn meti leiðir til að stuðla að skjótri og öruggri uppbyggingu sem taki m.a. mið af húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 1:

Öll þessi verkefni eru á borði skipulags- og byggingaráðs, framboð nýs húsnæðis í Hafnarfirði hefur verið fjölbreytt síðustu ár, fyrr alla hópa kaupenda. Hlutfallslega er meira byggt í Hafnarfirði en öðrum af stærri sveitarfélögum landsins og því ekki þörf á sérstöku átaki í Hafnarfirði. Hæsta hlutfall hlutdeildarlána hefur veið veitt í Hafnarfirði, félagslegum íbúðum hefur fjölgað jafnt og þétt í tíð núverandi meirihluta. Leigufélög hafa tekið verulegan þátt í uppbyggingunni. Uppbygging íbúðahverfa á vegum innviðafélags hins opinbera er gamaldags nálgun sem fæstum hugnast. Einföldun regluverks hins opinbera er verkefni ríkisstjórnarinnar sem vonandi verður að veruleika. Að öllu samanlögðu er því er ekki þörf á sérstökum starfshóp um þessi málefni.

4. Fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarráði að setja á fót viðræðuhóp sem hefji formlegar viðræður við alla hagaðila málsins, Sóltún, Hrafnistu og ríkisvaldið. Meginverkefni hópsins verður að móta aðgerðaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði og koma verkefninu á framkvæmdastig.

Greinargerð:
Fjölgun hjúkrunarrýma er orðin löngu tímabær í Hafnarfirði og lengi hefur verið unnið að undirbúningi vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis á vegum Sóltúns í Hamranesi og hjá Hrafnistu. Lítið hefur þokast í þessum málum á undanförnum árum og skemmst er að minnast þess að á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG bættist ekki við eitt nýtt hjúkrunarheimili. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði hefur heldur ekki staðið sig í stykkinu við að halda á lofti hagsmunum Hafnfirðinga í þessum stóra og mikilvæga málaflokki og því leggur Samfylkingin fram til þessa tillögu til þess að freista þessu að koma hreyfingu á málið og koma fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði af hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 4:

Fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði er yfirvofandi og ekki hefur staðið á meirihlutanum í þeim verkefnum. Stækkun á Hrafnistu, nýtt hjúkrunarheimili í Hamranesi, hjúkrunarheimili í Vatnshlíð auk fleiri möguleika til dæmis stækkunar við Sólvang eru verkefni í vinnslu sem munu fara af stað á næstu misserum þegar ríkisvaldið stendur við sitt.

6. Starfshópur um miðbæ Hafnarfjarðar

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fjögurra manna starfshóps kjörinna fulltrúa auk eins fulltrúa frá íbúum miðbæjarins og eins fulltrúa rekstraraðila þjónustuhúsnæðis í miðbænum. Starfshópurinn njóti stuðnings og þjónustu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni hópsins er að móta framtíðarstefnu fyrir miðbæ Hafnarfjarðar. Hópurinn skoði lausnir er varðar bílastæði og þá m.a. í bílastæðahúsi eða neðanjarðar, þannig að rými skapist til uppbyggingar og þá hvernig megi efla þjónustu, verslun ásamt uppbyggingu íbúða og styðja við menningarviðburði. Einnig verði horft til tengingar miðbæjarins við önnur hverfi og þá uppbyggingu sem hefst vonandi á næstu misserum á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í vinnu hópsins verði haft í huga að vernda einkenni miðbæjar Hafnarfjarðar sem er annar af sögulegum miðbæjum höfuðborgarsvæðisins. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið eigi síðar en 1. mars nk. og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. maí nk. Á starfstímanum verði boðað til vinnufundar með íbúum og öðrum hagaðilum þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, eigendum verslunar og þjónusturýma, rekstraraðilum og öðrum þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Skýrsla starfshópsins verði grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins.

Greinargerð:
Á þessu og síðasta kjörtímabili hefur endurskoðun miðbæjar Hafnarfjarðar komið alloft til umræðu í skipulags- og byggingaráði. Þann 26. apríl, 2022 var samþykkt á fundi í skipulags- og byggingaráði að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins, en ekkert hefur gerst. Síðast var málið til umfjöllunar 19. mars, 2025 og þar var samþykkt að óska eftir samantekt á stöðu mála, en ekkert hefur gerst. Nú þarf að láta verkin tala og vinna hratt og vel að því að móta framtíð miðbæjar Hafnarfjarðar, sem hefur mikið aðdráttarafl og þar liggja mikil tækifæri að gera enn betur. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og nauðsynlegt að þar megi byggja upp öflugan miðbæ iðandi af mannlíf með fjölbreyttri þjónustu, atvinnu- og menningarlífi. Skipulag miðbæjarins er frá árinu 2001 og kominn tími á endurskoðun þess því er þessi tillaga lögð fram. Lagt er til að hún verði unnin í samvinnu við íbúa og aðra hagaðila og haldinn verði íbúafundur. Skýrsla starfshópsins verði þannig grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 6:

Mikil uppbygging er í gangi og fyrirhuguð í miðbæ Hafnarfjarðar, fjölgun bílastæða með nýju bílastæðahúsi er eitt af þeim verkefnum. Eðlilegt er að halda áfram deiliskipulagsvinnu á miðbæjarsvæðinu þegar nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar hefur verið samþykkt.
Meirihlutinn mun koma því verkefni á góðan rekspöl á næstu mánuðum. Ekki er þörf á sérstökum starfshóp um þessi verkefni.

11. Húsnæði leikskóla - samþætting leikskóla í hverfum bæjarins

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar feli fræðslusviði, í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið, að kanna hvort mögulegt sé að hanna leikskóla eða daggæslurými sem hluta af fjölbýlishúsum, bæði þar sem þétting byggðar á sér stað og í nýjum hverfum.

Meta kosti þess að nýta jarðhæðir fjölbýlishúsa eða önnur sambærilega rými til leikskólastarfsemi.

Leggja fram tillögur að skipulags- og hönnunarleiðbeiningum sem geri ráð fyrir slíkum úrræðum við byggingu leikskóla í framtíðinni.
Við skipulag nýrra íbúðahverfa og þéttingu byggðar hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á sjálfbærni, blandaða byggð og nærþjónustu. Leikskólar eru mikilvægur þáttur í slíku samfélagi en hingað til hefur verið hefð fyrir því að leikskólar séu staðsettir í sér húsnæði á stórum lóðum. Með því að skoða þessar leiðir þegar kemur að húsnæði leikskóla er hægt að stuðla að hagkvæmar nýtingu lands og húsnæðis í hverfum. Slík útfærsla gæti nýtt betur það húsnæði og innviði sem þegar eru til staðar, til dæmis bílastæði og viðhald, og þannig dregið úr bygginga- og rekstrarkostnaði. Efla sjálfbært skipulag byggða í Hafnarfirði og tryggja aðgengileg leikskólahúsnæði fyrir íbúa, hvort sem um er að ræða hverfum í þéttingu eða nýjum hverfum.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 11:

Nú þegar er gert ráð fyrir mögulegum leikskólum á jarðhæðum fjölbýlishúsa á Hrauni vestur, kröfur um lóðastærð eru áskorun, sem þarf að mæta, við þetta fyrirkomulag.

12. Strandblaksvöll við Suðurbæjarlaug

Hafin verði vinna að finna staðsetningu fyrir strandblaksvöll í eða við garð Suðurbæjarlaugar. Mikilvægast er að horfa til þess að aðgengi að salerni og búningaaðstaða sé við hendi.
Suðurbæjarlaugin er einstaklega vel að því komið og góður grundvöllur fyrir því í garði sundlaugarinnar eða við sundlaugina.
Innan Suðurbæjarlaugar eru besti mögulegi kosturinn, þar eru mjög góðar aðstæður til að setja velli í garðinum á nánast ónýttu plássi og auka nýtingamöguleika sundlaugasvæðisins. Einnig eykur það öryggi, völlurinn væri þá innan girðingar á læstu svæði eftir lokunartíma. Slíkir vellir eru í Árbæjarlaug og Laugardalslaug, þar eru vellirnir vel nýttir og mjög jákvætt viðhorf gangvart þeim hjá öllum.
Til vara væri hægt að skoða svæði austan megin við sundlaugina, þar er nú þegar bæði hreysti tæki og leiksvæði. Sá kostur er sístur, aðgengi ótakmarkað og hætta á að búnaður, net og sandur verði fyrir aðkasti. Fyrirmynd slíkra valla er þó til í bæði Fagralundi í Kópavogi sem og við íþróttamiðstöðina Ásgarð í Garðabæ, með fínasta móti.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs við tillögu 12:

Verkefnið tilheyrir ekki skipulags- og byggingaráði

Bókanir við tillögur sem lagðar voru fram á fundi skipulags- og byggingarráðs 13. nóvember 2025.

Vatnshlíð, vistvænt hverfi

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að þegar hafin verði vinna við deiliskipulag Vatnshlíðar á árinu 2026 verði vistvænar lausnir hafðar að leiðarljósi, sjálfbærni og leiðir sem lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Jafnframt verði kannaðir kostir og gallar þess að allar nýframkvæmdir verði vistvænar og jafnvel vistvottaðar. Einnig að skoða ávinning af því fyrir umhverfið, samfélagið og byggingaraðila. Vatnshlíðin er í nánd við útivistarperlur í upplandi Hafnarfjarðar, óspillta náttúru og jaðri byggðarinnar og því mikilvægt að lágmarka umhverfisleg áhrif eins og kostur er. Markmið vistvænnar byggðar er að stuðla að aukinni vellíðan, betra umhverfi og bættri heilsu fólks.

Innleiðing ferla við vistvænar nýframkvæmdir og endurbætur á vegum bæjarins Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hafin verði vinna við að móta ferla sem miða að því að vistvænum lausnum við nýframkvæmdir, viðhald fasteigna og á vegum bæjarins, m.a. umhverfis vottun. Markmið áætlunarinnar er finna leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum vegna framkvæmda á vegum bæjarins og losun koltvísýrings og stuðla að sjálfbærri þróun. Áætlað er að vinnunni verði lokið eigi síðar en vorið 2026 og þá liggi fyrir áætlun um innleiðingu ferla, sem komi til framkvæmdar haustið 2026. Greinargerð: Talið er að 30-40% af heildarlosun koltvísýrings komi frá mannvirkjagerð og tæplega helmingur alls úrgangs sem myndast á Íslandi sé byggingar- og niðurrifs úrgangur. Hafnarfjörður hefur verið leiðandi á meðal sveitarfélaga að hvetja til umhverfisvottanna nýbygginga. Líklegt er að stofnkostnaður hækki við upphaf innleiðingar en samfélagskostnaður verður minni og gera má ráð fyrir að kostnaður vegna viðhalds og reksturs verði minni. Á vegum bæjarins eru árlega töluverðar framkvæmdir og því er til mikils að vinna að innleiða vistvænar lausnir.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs:

Vistvænar lausnir eru nú þegar hluti af skipulagsvinnu bæjarins, einnig eru byggingaraðilar í síauknu mæli farnir að nota þær. Markaðurinn er á mikilli hreyfingu á átt að vistvænni byggingum og því er óþarfi á sérstökum fyrirmælum og valdboði frá yfirvöldum.

Átak í frágangi nýbyggingarsvæða

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að farið verði í átak í að byggja húsnæði á lóðum sem nú þegar hefur verið úthlutað og enn eru óbyggðar. Samhliða verði setur aukinn vinna í að ljúka vinnu við gangstéttar, göngustíga, lýsingu, bifreiðastæði, leikvelli ofl. í nýjum hverfum. Greinargerð: Um fimm ár er síðan að síðustu lóðinni var úthlutað í Skarðshlíð og því miður eru nokkur dæmi þar sem ekki eru enn hafnar framkvæmdir á lóðum. Hér þarf að ganga skipulega til verks svo uppbygging nýrra hverfa taki ekki of langan tíma og ljúki sem fyrst. Hreinsunarátak, iðnaðar- og nýbyggingarsvæði Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að farið verði í átak í hreinsun á iðnaðar- og nýbyggingarsvæðum. Mikilvægt er fyrir uppbygging atvinnulífs hér sem annars staðar sé snyrtilegt og umgengni góð. Sama má segja um nýbyggingarsvæði bæjarins eða þar sem framkvæmdir eru í byggðum hverfum. Snyrtilegt umhverfi bætir ímynd bæjarins sem verður eftirsóknarverðara sem valkostur fyrir rekstraraðila og íbúa bæjarins.
Þrýstingur á uppbyggingu á tilbúnum lóðum hefur verið fyrir hendi síðustu ár og hafa lóðir verið teknar til baka í nokkrum tilfellum og úthlutað að nýju. Áfram verður haldið á sömu braut og hart lagt að lóðarhöfum að bæði hefja og ljúka uppbyggingu á sínum lóðum.

Bókun meirihluta skipulags- og byggingarráðs:

Á síðasta kjörtímabili hófst átak i frágangi í nýjum atvinnuhverfum, til dæmis í Selhrauni, árangurinn hefur verið góður. Á nýjustu athafnasvæðum bæjarins hafa bæði byggingaraðilar og bæjaryfirvöld gert betur en áður í frágangi lóða og opinna svæða, það er því góð þróun og rífandi gangur í þessum verkefnum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 08:50 

Til bakaPrenta