Til bakaPrenta
Fjölskylduráð - 538

Haldinn í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6,
16.09.2025 og hófst hann kl. 08:30
Fundinn sátu: Margrét Vala Marteinsdóttir formaður,
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir aðalmaður,
Helga Ingólfsdóttir varaformaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Auður Brynjólfsdóttir aðalmaður,
Árni Stefán Guðjónsson áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Erna Aradóttir, ritari fjölskylduráðs
Einnig sat Guðlaug Ósk Gísladóttir, sviðsstjóri, fundinn.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2505059 - Reglur um skammtímadvalir
Drög að reglum Hafnarfjarðar um skammtímadvöl lagðar fram í fjölskylduráði til kynningar
Lagt fram til kynningar. Fjölskylduráð þakkar Guðlaugu Ósk Gísladóttur sviðsstjóra fyrir kynninguna og vísar reglum um skammtímadvalir til umsagnar hjá samráðshópi í málefnum fatlaðs fólks. Jafnframt óskar fjölskylduráð eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem nýta sér þjónustuna.
2. 2505063 - Reglur um stuðningsfjölskyldur
Drög að reglum Hafnarfjarðarbæjar um stuðningsfjölskyldur eru lagðar fram til kynningar
Lagt fram til kynningar. Fjölskylduráð þakkar Guðlaugu Ósk Gísladóttur sviðsstjóra fyrir kynninguna og vísar reglum um stuðningsfjölskyldur til umsagnar hjá samráðshópi í málefnum fatlaðs fólks.
3. 2509634 - Bæjarhraun 2 - nýting
Lagt fram til afgreiðslu.
Þjónusta sem fram fer í Bæjarhrauni 2 tekur við breytingum á næstu mánuðum og starfsemin sem þar fer nú fram mun flytjast yfir á Suðurgötu 41. Við þessar breytingar mun húsnæðið að Bæjarhrauni 2 losna. Fjölskylduráð vísar málinu til bæjarráðs til frekari ákvörðunar varðandi notkun á húsnæðinu.
4. 2304615 - Málefni heimilislausra
Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri, mætir til fundar undir þessum lið.

Fjölskylduráð samþykkir tillögu 1 sem staðsetningu fyrir þrjú smáhýsi og felur umhverfis- og skipulagssviði að vinna málið áfram.


Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Í ljósi þess að fulltrúar Samfylkingarinnar hafa fengið upplýsingar um að einstaklingum með lögheimili í Hafnarfirði hafi verið neitað um skjól í gistiskýlinu í Reykjavík vegna afstöðu Hafnarfjarðarbæjar þá leggja fulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi fyrirspurn:

1. Af hvaða ástæðum og við hvaða aðstæður neitar Hafnarfjarðarbær að greiða fyrir gistingu í gistiskýli í Reykjavík fyrir einstaklinga sem eru með lögheimili í Hafnarfirði?
2. Hvað tekur við hjá einstaklingi er honum er neitað um gistingu í gistiskýli i Reykjavík? Með hvaða hætti reynir Hafnarfjarðarbær að koma til móts við hann?
5. 24011109 - Smyrlahraun - uppbygging íbúðakjarna fyrir fatlað fólk
Hrönn Hilmarsdóttir deildarstjóri þróunar- og rekstrar og Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mæta á fundinn undir þessum lið.
Fjölskylduráð þakkar Sigurði Haraldssyni og Hrönn Hilmarsdóttur fyrir kynninguna. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að fjölgun búsetuúrræða fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði. Nú stendur yfir framkvæmd við nýjan búsetukjarna við Smyrlahraun þar sem fyrirhugaðar eru sex íbúðir. Fjölskylduráð fagnar framlagðri kynningu. Einnig fagnar fjölskylduráð því að vinna sé í gangi við að merkja lóð í Áslandi 4 fyrir uppbyggingu búsetukjarna sem og þeirri endurskipulagningu á aðalskipulagi vegna frekari uppbygginu á búsetukjarna við Öldugötu.
6. 2204108 - Flatahraun 3, Verkalýðsfélagið Hlíf, húsaleigusamningur
Til umræðu.
Fjölskylduráð tekur undir tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem samþykkt var samhljóða 10. september sl. varðandi húsnæðismál fyrir starfsemi Félags eldri borgara í Hafnarfirði (FEBH) og áréttar að sú starfsemi sem fram fer á Flatahrauni 3 undir stjórn félagsins er gríðarlega mikilvæg fyrir eldri borgara í Hafnarfirði. Undir forystu félagsins vinna margir eldri borgarar mikla sjálfboðavinnu í hópum og nefndum og taka virkan þátt í að skipuleggja og leggja lið á margvíslegan hátt þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fram fer á vegum félagsins. Á síðastliðnum 9 árum hefur félagsmönnum fjölgað frá því að vera 1.164 samkvæmt skýrslu félagsins fyrir árið 2016 í 2.332 samkvæmt félagatali FEBH í dag, 4. júlí 2025. Af þessum stóra hóp sækja afþreyingu í Flatahrauni 590-700 manns í viku hverri. Miklu skiptir að ekki verði rof í þessari starfsemi þar um er að ræða þjónustu sem vinnur að því að rjúfa félagslega einangrun og efla virkni eldri borgara í sveitarfélaginu. Fjölskylduráð felur sviðstjóra að setja í forgang vinnu innan sviðsins í samráði við bæjarráð og bæjarstjóra til að tryggja að ekki komi til þess að rof verði í starfsemi félagsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

Samfylkingin gagnrýnir samráðsleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við Félag eldri borgara í Hafnarfirði vegna þessa máls og að kjörnir fulltrúar minnihlutans hafi ekki fengið að sjá bréf frá stjórn FEBH fyrr en tveimur mánuðum eftir að það var sent til bæjarráðs. Um leið og fulltrúar leigusala upplýstu bæinn um fyrirhugaða uppsögn leigusamningsins fyrir tæpu ári síðan átti að setja málið í ferli og vinna að lausn þess í samstarfi við FEBH. Það var því miður ekki gert og nú hefur langur tími farið til spillis. Nú er mikilvægt að þessi starfshópur, sem bæjarstjórn samþykkti að setja á fót á síðasta bæjarstjórnarfundi og skipaður verður fulltrúum frá bænum og fulltrúum eldri borgara, taki til starfa sem fyrst og vinni hratt og örugglega að lausn húsnæðismála fyrir öfluga og mikilvæga starfsemi FEBH til framtíðar.


Meirihluti fjölskylduráðs tekur undir bókun meirihluta bæjarstjórnar frá fundi bæjarstjórnar þann 10. september sl. þar sem skorað var á Verkalýðsfélagið Hlíf að endurskoða þá ákvörðun að segja upp húsnæði Félags eldri borgara í Hafnarfirði áður en starfsári félagsins lýkur. Ljóst er að uppsögnin mun koma til með að raska starfsemi eldra fólks á miðju starfsári eftir rúmlega aldarfjórðungs farsælt samkomulag um húsnæðið. Meirihluti fjölskylduráðs tekur einnig undir hvatningu til Hlífar um að falla frá áformum um uppsögn að svo stöddu eða hið minnsta, veita að frest til loka starfsárs FEBH svo unnt sé í ró og reglu að finna og undirbúa varanlegt og viðeigandi húsnæði fyrir þessa mikilvægu starfsemi.

Meirihluti fjölskylduráðs fagnar því að tillögu meirihlutans varðandi starfshóp hafi verið samþykktur á fundi bæjarstjórnar og þeirri samstöðu sem er um málið í fjölskylduráði.
7. 2504679 - Þjónustukannanir á fjölskyldu- og barnamálasviði
Lagðir fram spurningalistar.
Frestað.
8. 2312015 - Aðstoð við ungt fólk sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðu um málið. Fyrirspurn lögð fram.
Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka fyrirspurn sem lögð var fram undir málinu á fundi fjölskylduráðs þann 11. mars sl. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Í skýrslu starfshóps um starfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 16-24 ára í Hafnarfirði sem lögð var fram á fundi fræðsluráðs 13. nóvember 2024 var lagt til að í nýrri tómstundamiðstöð við Selhellu 7 yrði starfrækt sérstök atvinnu- og virknideild með sérstakri áherslu á að styðja ungt fólk og veita því ráðgjöf. Einnig var lagt til að skapa sérstök úrræði fyrir félagslega einangruð ungmenni, ekki síst fyrir ungmenni með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

a. Er atvinnu- og virknideild komin á laggirnar í hinu nýja úrræði við Selhellu 7? Ef svo er ekki, hvaða ástæður eru fyrir því að starfsemin er ekki farin af stað og hvenær stendur til að hún fari af stað?

b. Hvenær er stefnt að því að opna fyrrnefnt úrræði fyrir ungt fólk sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun?

c. Hefur einhver önnur vinna farið af stað innan fjölskyldusviðs sl. ár til að styðja við ungt fólk til að komast í atvinnu, skóla eða virknitengd úrræði?


Þá leggja fulltrúar Samfylkingarinnar fram nýja fyrirspurn, svohljóðandi:

Á fundi fjölskylduráðs þann 17. sept. 2024 kom fram í minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs að rætt hafi verið við deildarstjóra íþrótta- og tómstunda og fagstjóra forvarna hjá mennta- og lýðheilsusviði um málefni ungs fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Í minnisblaðinu kom fram að aðilar væru sammála um að mikilvægt væri að greina hópinn svo hægt væri að bregðast við með viðeigandi úrræðum og forvörnum.

a. Hefur umrædd greining, sem stóð til að gera á stöðu ungs fólks sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun farið fram?

b. Ef svo er þá óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að niðurstöður þeirrar greiningar verði lagðar fram ásamt upplýsingum um til hvaða „viðeigandi úrræða og forvarna“ gripið hafi verið til fyrir þennan hóp.

c. Hafi fyrirhuguð greining ekki farið fram óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir skýringum á því hvers vegna ekki.


Meirihluti fjölskylduráðs vekur athygli á því að vinna vegna ungs fólks sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun er í góðum farvegi. Nánari útfærsla verður til kynningar í fjölskylduráði fljótlega.
Fundargerðir
9. 0701243 - Málskot
Lögð fram niðurstaða málskotsnefndar í málum nr. 25-27/2025.
Fjölskylduráð staðfestir afgreiðslu málskotsnefndar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45 

Til bakaPrenta