Til bakaPrenta
Bæjarstjórn - 1964

Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg,
05.11.2025 og hófst hann kl. 14:00
Fundinn sátu: Valdimar Víðisson bæjarstjóri,
Kristinn Andersen forseti,
Rósa Guðbjartsdóttir aðalmaður,
Skarphéðinn Orri Björnsson aðalmaður,
Kristín María Thoroddsen aðalmaður,
Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
Stefán Már Gunnlaugsson aðalmaður,
Kolbrún Magnúsdóttir varamaður,
Fundargerð ritaði: Ívar Bragason, Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 1102236 - Bæjarfulltrúi,leyfi
Lögð fram beiðni Hildar Rósar Guðbjargardóttur um tímabundna lausn frá sveitarstjórn til og með 31. desember nk.
Samþykkt samhljóða.
2. 2205659 - Ráð og nefndir 2022 - 2026, kosningar
Breytingar á áheyrnarfulltrúum Viðreisnar í skipulags- og byggingarráði.

Þröstur Valmundsson Sörin víkur sem varaáheyrnarfulltrúi og í hans stað kemur Jón Ingi Hákonarson.
Samþykkt samhljóða.
3. 2507285 - Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, breyting á greinargerð vegna Flensborgarhafnar
1. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 30. október sl.

Lögð fram vinnslutillaga að breytingu á greinargerð aðalskipulags Hafnarfjarðar vegna Flensborgarhafnar.

Skipulags- og byggingarráð samþykkir að vísa því til bæjarstjórnar að leita umsagna við vinnslutillögu vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Orri Björnsson kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Samþykkt samhljóða.
Samantekt athugasemda.pdf
Breyting á aðalskipulag Hafnarfjarðar, Skipulagslýsing vegna Flensborgarhafnar..pdf
Breyting á aðalskipulag Hafnarfjarðar, Skipulagslýsing vegna Flensborgarhafnar..pdf
4. 2507158 - Áshamar 34-40, breyting á deiliskipulagi
3. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 30. október sl.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 27. ágúst sl. að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Áshamar 34-40 í Hamranesi, í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Breyting á deiliskipulagi felur í sér að íbúðum er fjölgað úr 84 íbúðum í 105 íbúðir. Bílastæðum er fjölgað en byggingarmagn eykst ekki. Tillagan var í auglýsingu 4. september til og með 19. október. Ábendingar sem bárust á auglýsingatíma lagðar fram.

Skipulags- og byggingarráð þakkar ábendingarnar og vísar tillögunni til samþykktar í bæjarstjórn.
Orri Björnsson tekur til máls. Guðmundur Árni Stefánsson kemur til andsvars.

Samþykkt samhljóða.
Slóð á skipulagsgátt.pdf
24002IF-Áshamar 36-40 br-amt.pdf
24002IF-Áshamar 36-40 Hfj DS breyting.pdf
5. 2505063 - Reglur um stuðningsfjölskyldur
3.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 21.október sl.
Lögð fram umsögn samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks.
Reglur lagðar fram til afgreiðslu.

Fjölskylduráð samþykkir reglur um stuðningsfjölskyldur og vísar þeim til bæjarstjórnar til frekari samþykktar.
Margrét Vala Marteinsdóttir tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur til andsvars. Margrét Vala svarar andsvari. Árni Rúnar kemur að andsvari öðru sinni. Margrét Vala svarar andsvari. Árni Rúnar kemur að stuttri athugasemd.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls.

Samþykkt samhljóða.
Reglur Hafnarfjarðar um stuðningsfjölskyldur september 2025.pdf
6. 2505059 - Reglur um skammtímadvalir
4.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 21.október sl.
Lögð fram umsögn samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks.
Reglur lagðar fram til afgreiðslu.

Fjölskylduráð samþykkir reglur um skammtímadvalir og vísar þeim til bæjarstjórnar til frekari staðfestingar.
Margrét Vala Marteinsdóttir tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur til andsvars. Margrét Vala svarar andsvari. Árni Rúnar kemur til andsvars öðru sinni.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls. Margrét Vala Marteinsdóttir kemur til andsvars. Stefán Már svarar andsvari.

Samþykkt samhljóða.
Reglur Hafnarfjarðar um skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni maí 2025.pdf
7. 2510538 - Tunguhella 2, umsóknir um lóð
6. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Sár ehf. Rönd House ehf. Orrmúr slf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. KB Verk ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn Rönd house ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
8. 2510540 - Tunguhella 4, umsóknir um lóð
7. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Rönd House ehf. Orrmúr slf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. KB Verk ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn KB verk ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
9. 2510541 - Tunguhella 6, umsóknir um lóð
8. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Rönd House ehf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. KB Verk ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn G. Leifsson ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
10. 2510543 - Tunguhella 8, umsóknir um lóð
9. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Rönd House ehf. Orrmúr slf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn Dalsás ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
11. 2510544 - Jötnahella 1, umsóknir um lóð
10. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Orrmúr slf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. Drangahraun 14 ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn Drangahraun 14 ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
12. 2510545 - Jötnahella 3, umsóknir um lóð
11. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lagðar fram umsóknir frá:

Orrmúr slf. NR5 ehf. Þórs smíði sf. G. Leifsson ehf. Dalsás ehf. Pétur Ólafsson byggverktak ehf. Flatahraun 23 hf.

Dregið úr umsóknum og dregin er út umsókn Flatahrauns 23 ehf. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til félagsins.
Samþykkt samhljóða.
13. 2411219 - Útboð skólamatar 2024-2025
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og leggja fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Bæjarstjórn samþykkir að settur verði á fót samráðshópur sem í eigi sæti fulltrúar foreldra tilnefndir af foreldraráðum leik- og grunnskóla, starfsfólk leik- og grunnskóla og fulltrúi frá ungmennaráði ásamt fulltrúum mennta- og lýðheilsusviðs sem halda utan um vinnu hópsins. Samráðshópurinn hittist reglulega yfir skólaárið og þegar við á með þjónustuaðila skólamats. Tilgangur hópsins er að stuðla að milliliðalausu samtali og upplýsingaflæði milli hagaðila. Einnig að koma með tillögur að því að gera skólamáltíðir að gæðastundum í skólastarfinu og skoði kosti og galla þess að elda mat í skólanum eða fá aðkeyptan mat. Samráðshópurinn skoði að gera könnun meðal foreldra og nemenda um máltíðir í skólum og úrbætur í þeim efnum. Áfangaskýrslu verði skilað í desember og lokaskýrslu í maí.
Greinargerð:
Að bjóða upp á mat fyrir nemendur og starfsfólk er mikilvægur þáttur skólastarfs og stuðlar að vellíðan nemenda. Vinna verður markvisst að því að matmálstímar séu góðar og uppbyggjandi stundir þar sem boðið er upp á næringarríkan og hollan mat. Nú er verið að skipta um þjónustuaðila með skólamat og það þarf að ganga vel fyrir sig. Virkt notendasamráð er mikilvægt í þessum efnum og getur stuðlað að bættri þjónustu við skólasamfélagið. Hlutverk samráðshópsins verður einnig að meta hvernig gera má betur og efla þessa þjónustu í skólunum með því að skoða kosti og galla þess að fá aðkeyptan mat eða elda í skólanum og kalla eftir tillögum frá starfsfólki, nemendum og foreldrum. Tillagan er í samræmi við það ferli sem verið hefur í aðdraganda útboðs skólamáltíða þar sem leitast hefur verið við að eiga samráð við foreldra, nemendur og starfsfólks og í raun verið að festa það enn frekar í sessi.
Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls.

Kristín Thoroddsen tekur til máls. Kolbrún kemur til andsvars. Kristín svarar andsvari. Guðmundur Árni Stefánsson kemur til andsvars. Kristín svarar andsvari. Guðmundur Árni kemur til andsvars öðru sinni. Árni Rúnar kemur til andsvars. Kristín svarar andsvari. Árni Rúnar kemur til andsvars öðru sinni. Kristín svarar andsvari öðru sinni. Árni Rúnar kemur að stuttri athugasemd. Stefán Már kemur að andsvari. Kristín svarar andsvari. Stefán Már kemur að andsvari öðru sinni.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls. Kristín kemur til andsvars. Jón Ingi svarar andsvari. Kristín kemur til andsvars öðru sinni. Valdimar Víðisson kemur til andsvars. Jón Ingi svarar andsvari. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars.

Guðmundur Árni tekur til máls.

Forseti ber upp þá till0ögu sem liggur fyrir fundinum og er hún felld þar sem fjóris fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni. Sex fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar greiða atkvæði gegn tillögunni. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

Kristín Thoroddsen kemur að svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn ítrekar mikilvægi þess að nemendur njóti næringarríks og fjölbreytts fæðis í samræmi við gildandi stefnu bæjarins. Skólamáltíðir eru mikilvægur hluti af skólastarfi. Að undangengnu útboði á skólamat fór fram víðtæk samráðsvinna meðal fulltrúa í fræðsluráði, starfsmanna mennta- og lýðheilsusviðs, þjónustuaðila og annarra hagaðila, þar á meðal foreldra og barna með það að markmiði að tryggja gæði og samfellu í þjónustunni. Stöðugt er unnið að því að bæta þjónustuna og draga úr matarsóun í góðu samstarfi allra sem að málinu koma. Reglulegt samráð og eftirlit með framkvæmd samnings er hluti af þeirri vinnu og niðurstöður kannana svo sem úr Skólapúlsinum nýtast til að fylgjast með ánægju og viðhorfum notenda. Tillaga Samfylkingarinnar hefur fengið góða umræðu hér í bæjarstjórn og fræðsluráði þar sem henni var synjað og er því tillögunni endanlega synjað hér í bæjarstjórn.

Kolbrún Magnúsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar furða sig á ákvörðun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um að fella tillögu jafnaðarfólks um stofnun samráðshóps um skólamáltíðir. Tillagan hefur áður verið lögð fram í bæjarstjórn en er endurflutt í ljósi umræðu um málið í fjölmiðlum og víðar. Tillagan miðar að því að tryggja virkt samráð og raunverulegt samstarf milli helstu hagsmunaaðila sem í þessu tilviki eru nemendur, foreldrar, starfsfólk og aðrir fagaðilar. Brýnt er að bæjarfélagið sé ávallt að leita leiða til umbóta þegar kemur að skólamat og í þeim efnum verður að horfa sérstaklega til upplifunar þeirra sem málið varðar. Því vekur það athygli að meirihlutinn skuli enn og aftur fella hófstillta tillögu jafnaðarfólks og hafna með því markvissu samráði við notendur þjónustunnar og aðra hagaðila málsins.
14. 2005180 - Samgöngusáttmáli
Umræður og tillaga lögð fram.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls og leggur jafnframt fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar áréttar að í tengslum við gerð Borgarlínu frá Engidal um Reykjavíkurveg að Firði verði öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda tryggt eins fljótt og auðið er í hönnun og framkvæmd verksins. Einnig krefst bæjarstjórn þess að Borgarlínan nái að hafnarsvæðinu en það er afar brýnt enda mun þar rísa Tækniskóla með meira en 3 þúsund nemendum sem og ný íbúðabyggð fyrir þúsundir íbúa. Af þessum sökum óskar bæjarstjórn eftir því að fulltrúar Betri samgangna mæti á fund bæjarráðs við fyrsta tækifæri til þess að ræða þessi mál sem og önnur mál sem tengjast samgöngusáttmálanum. Bæjarstjóra er falið að taka saman minnisblað um málið þar sem vilji og óskir bæjarins koma skýrt fram um þessi atriði og önnur sem lúta að samgöngusáttmálanum.

Greinargerð:
Þann 2. apríl sl. kom fram á vef Borgarlínunnar að stórt Borgarlínuskref hefði verið tekið í Hafnarfirði. Skrefið fólst í því að hönnun frumdraga á um 2 km löngum vegakafla í Hafnarfirði, sem tilheyrir fjórðu lotu Borgarlínunnar, er hafin. Um er að ræða vegakafla sem nær frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Reykjavíkurveg að verslunarkjarnanum Firði. Af þessu tilefni lagði Samfylkingin fram fyrirspurn um málið í bæjarstjórn í ágúst sl. Svör við henni bárust á síðasta fundi bæjarráðs. Svörin leiða í ljós að undirbúningur að Borgarlínu frá Engidal um Reykjavíkurveg að Firði á algjöru frumstigi, enda er ekki gert ráð lokum framkvæmda fyrr en 2034. Einnig leiða þau í ljós að það er alls ekki skýrt hvernig öryggisráðstöfunum vegna gangandi og hjólandi vegfarenda skuli háttað og að undirgöng eru ekki inni í umfangi Borgarlínunnar að svo stöddu. Eins er ekki gert ráð fyrir framlengingu að hafnarsvæðinu sem er afar mikilvægt. Ekki síst í ljósi þess að þar mun rísa nýr Tækniskóli með meira en 3 þúsund nemendur sem og ný íbúðabyggð fyrir þúsundir íbúa. Ljóst er að nú þegar þarf að hefja formlegar viðræður við Betri samgöngur og knýja á um ofangreindar áherslur Hafnarfjarðar og fleiri mikilvæg atriði og í þeim efnum. Framkvæmdin er á hönnunarstigi og þá verður bæjarstjórn að tala skýrt.

Valdimar Víðisson kemur til andsvars og leggur til að framkominni tillögu verði vísað til bæjarráðs.

Guðmundur Árni svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars öðru sinni. Guðmundur Árni svarar andsvari öðru sinni.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls.

Guðmundur Árni tekur til máls. Orri Björnsson kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls.

Árni Rúnar tekur til máls öðru sinni. Valdimar kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars öðru sinni. Orri kemur til andsvars. Árni Rúnar svarar andsvari. Orri kemur til andsvars öðru sinni. Árni Rúnar svarar andsvari.

Forseti ber næst upp til atkvæða þá tillögu um að vísa framlagðri tillögu frá fulltrúum Samfylkingar til bæjarráðs. Er það samþykkt þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Guðmundur Árni kemur að svohljóðandi bókun:

Enn og aftur forðast meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að taka afstöðu til grundvallaratriða; núna varðandi mikilvæg vegamál í Hafnarfirði og fyrirkomulag borgarlínu í Hafnarfirði frá bæjarmörkum í Engidal og að miðbæ. Í stað þess að sameinast um grundvallarhagsmuni Hafnarfjarðar í málinu, þá þorir meirihlutinn ekki að taka undir meginatriði máls, fyrirliggjandi tillögu um framlengingu borgarlínu suður að hafnarsvæði og og að tryggt verði öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem þvera Reykjavíkurveg. Og fyrirkomulag borgarlínu að öðru leyti. Þessi afstaða er í anda stjórnsýslu meirihlutans að forðast verkefnin og afstöðu til þeirra, en bíða þess er verða vill í stað þess að sameinast um tillögu jafnaðarmanna.

Kristín Thoroddsen kemur að svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn bóka eftirfarandi:
Vinna milli Betri samgangna og umhverfis- og framkvæmdasvið er í virku samtali og vinnu vegna frumdraga um hönnun og legu Borgarlínu að hafnarsvæðinu. Það hefur ávallt legið fyrir að borgarlínan fari um hafnarsvæðið og áfram út á Velli.

Hér reynir Samfylkingin enn á ný að afvegaleiða umræðuna og bera ósannindi á borð bæjarbúa Skipulagsvaldið er hjá bænum og það er bæjarfélagið sem ákveður hvernig Borgarlínan liggur í gegnum Hafnarfjörð. Líkt og áður hefur komið fram stendur ekki til að fjarlægja hús við Reykjavíkurveg vegna legu Borgarlínunnar


Fundargerðir
15. 2501140 - Fundargerðir 2025, til kynningar í bæjarstjórn
Bæjarráð 30. október sl.
Skipulags- og byggingarráð 30. október sl.
Fræðsluráð 29. október sl.
Umhverfis- og framkvæmdaráð 29. október sl.
Hafnarstjórn 29. október sl.
Fjölskylduráð 28. október sl.
Fjölskylduráð 24. október sl.
Umhverfis- og framkvæmdaráð 24. október sl.
Fræðsluráð 23. október sl.
Fundargerð fjölskylduráðs frá 21.október sl.

https://hafnarfjordur.is/stjornsysla/fundargerdir/

Fundargerðir ásamt tenglum á heimasíðu.pdf
Áætlanir og ársreikningar
16. 2502769 - Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029
1. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 30. október sl.

Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans fyrir 2026 og langtímaáætlun 2027-2029. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Guðmundur Sverrisson rekstrarstjóri hagdeildar mæta til fundarins.

Fjárhagsáætlun 2026 og langtímaáætlun 2026 - 2029 er vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Valdimar Víðisson tekur til máls.

Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu við fjárhagsáætlun:

1. Útvíkkun vaxtamarka og framboð fjölbreytts húsnæðis

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa. Starfshópurinn njóti stuðnings sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni starfshópsins er að meta tækifæri til íbúðauppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum sem verða til með útvíkkun vaxtamarkanna. Einkum verður horft til þess að hraða uppbyggingu íbúða og skapa hagkvæmari valkosti fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Starfshópurinn skoði samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og félög um stúdentaíbúðir, byggingarfélög eldri borgara sem og við félög á borð við Bjarg, Búseta og Búmenn. Hópurinn skoði einnig samstarf við ríkið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis m.a. möguleika á stofnun innviðafélags sem fjármagnar og hefur umsjón með uppbyggingu ákveðins fjölda íbúða og þar með talið uppbyggingu innviða eins og gatnagerð, leik- og grunnskóla ofl. Þegar kemur að íbúðum fyrir eldra fólk skal hópurinn líta til niðurstöðu starfshóps um íbúðir fyrir eldra borgara sem mun skila af sér niðurstöðum á næstu vikum. Einnig skal starfshópurinn skoða sérstaklega hvernig hægt verði að fjölga félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélagsins á næstu árum svo hægt verði að vinna á löngum biðlistum eftir slíku húsnæði. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 1. maí og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. október n.k.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í bæjarráði og skipulags- og byggingaráði milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu í bæjarstjórn í síðari umræðu í bæjarstjórn.

Greinargerð:
Mikilvægt er að leita allra leiða til þess að auka framboð fjölbreytts íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 30. október síðastliðinn var samþykkt að hefja vinnu við útvíkkun vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar í bæjarstjórn með það að markmiði að marka ný byggingarsvæði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Það er gert ráð fyrir að tillaga um slíkt liggi fyrir eigi síðar en í janúar 2026. Það er til staðar mikil uppsöfnuð íbúðaþörf í landinu og gera áætlanir ráð fyrir að það þurfi að byggja allt að 5000 íbúðir á ári og þar af yfir 500 í Hafnarfirði. Ekki hefur dregið úr eftirspurn eftir íbúðum þrátt fyrir spár þess efnis. Á sama tíma og þörf fyrir nýjar íbúðir eykst, þá er 70% fækkun nýframkvæmda á byggingarmarkaði milli ára. Nýlega lagði ríkisstjórnin fram húsnæðispakka þar sem áherslan er á einfaldara, skýrara og hraðara, einnig fleiri almennar íbúðir, fleiri íbúðir fyrir námsmenn og öryrkja og fleiri íbúðir fyrir alla. Einnig hefur verið kynnt samstarf ríkis og borgar um samstarfi í uppbyggingu í Úlfarsárdal með stofnun innviðafélags. Innviðauppbygging í nýjum hverfum hefur reynst sveitarfélögum erfið hindrun þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á nýjum svæðum, en nú kemur ríkið að því. Starfshópurinn meti leiðir til að stuðla að skjótri og öruggri uppbyggingu sem taki m.a. mið af húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls.

Margrét Vala Marteinsdóttir tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu:

2. Uppbyggingu vettvangs- og ráðgjafarteymis í málefnum heimilislausra

Lagt er til að Hafnarfjarðarbær taki þátt í uppbyggingu vettvangs- og ráðgjafarteymis í málefnum heimilislausra, annað hvort í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða með því að sameinast því teymi sem starfar hjá Reykjavíkurborg.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu létu vinna heildarskýrslu um stöðu í málefnum heimilislausra sem kom út í mars 2023. Ein meginniðurstaða hennar var tillaga um að koma á fót sameiginlegu vettvangs- og ráðgjafarteymi sem sinnir einstaklingum sem hafa fengið úthlutað húsnæði, þeim sem eiga hvergi höfði sínu að halla að næturlagi og einstaklingum sem búa við ótryggar aðstæður. Teymið myndi jafnframt vinna samkvæmt hugmyndafræði Housing First og sinna þeim sem teljast heimilislausir samkvæmt ETHOS-skilgreiningu.
Þjónustan myndi gagnast öllum deildum þvert á svið og styrkja samhæfða nálgun við þennan hóp.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til fjölskylduráðs til umfjöllunar milli umræðna á fjárhagsáætlun.

Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu við fjárhagsáætælun:

3. Frístundastyrkur - tillaga um hækkun

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að frístundastyrkur fyrir börn og ungmenn 5-18 ára verði alls 75 þúsund krónur á hvern einstakling á ári frá og með 01.01.2026. Frístundastyrkur fyrir 3-4 ára verði svo innleiddur í áföngum á næsta ári.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í fræðsluráði og Íþrótta-og tómstundanefnd milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu í síðari umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.

Greinargerð:
Mikilvægi frístundastyrksins er óumdeilt og skiptir máli fyrir börn og ungmenni bæjarins og fjölskyldur þeirra. Enda var það baráttumál jafnaðarfólks að koma frístundastyrknum á fót hér í Hafnarfirði á sínum tíma. Með slíku framlagi er þess freistað að sem flest börn og ungmenni geti tekið þátt í uppbyggilegri tómstunda- og/eða íþróttaiðkun. Við gerð síðustu tveggja fjárhagsáætlana felldu fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillögu Samfylkingarinnar um að hækka frístundastyrkinn 65 þúsund kr. á ári sem og tillögur okkar um að styrkurinn yrði einnig í boði frá fimm ára aldri. Fyrir ári síðan ákvað meirihlutinn að frístundastyrkurinn yrði í boði fyrir 5 ára börn frá og með hausti 2025 en þá einungis á þann veg að 5 ára eiga bara rétt á hálfum frístundastyrk. Og nú á lokametrum kjörtímabilsins ætlar meirihlutinn að leggja það til að að styrkurinn verði í boðið fyrir 3 og 4 ára börn að hluta sem er auðvitað ekkert annað en sýndarmennska þegar kjörtímabilinu er að ljúka.

Samfylkingin stendur áfram með þessu gamla og sígilda baráttumáli sínu, frístundastyrknum, til þess að tryggja það að börn og ungmenni geti stundað íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag og þess vegna leggjum við fram þessa tillögu um hækkun styrksins upp í 75 þúsund kr. á ári. Markvisst verði jafnhliða aldur þeirra, sem eiga kost á að nýta frístundastyrkinn, lækkaður á næstu misserum. . Tillögur í þessa veru hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fellt aftur og aftur á yfirstandandi kjörtímabili og sýnt málinu lítinn áhuga.

Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu við fjárhagsáætlun:

4. Fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarráði að setja á fót viðræðuhóp sem hefji formlegar viðræður við alla hagaðila málsins, Sóltún, Hrafnistu og ríkisvaldið. Meginverkefni hópsins verður að móta aðgerðaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði og koma verkefninu á framkvæmdastig.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í fjölskylduráði, skipulags- og byggingaráði og bæjarráði milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu í síðari umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun. Auk þess verði tillagan send til umsagnar Öldungaráðs Hafnarfjarðar og Félags eldri borgara í Hafnarfirði, FEBH.

Greinargerð:
Fjölgun hjúkrunarrýma er orðin löngu tímabær í Hafnarfirði og lengi hefur verið unnið að undirbúningi vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis á vegum Sóltúns í Hamranesi og hjá Hrafnistu. Lítið hefur þokast í þessum málum á undanförnum árum og skemmst er að minnast þess að á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG bættist ekki við eitt nýtt hjúkrunarheimili. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði hefur heldur ekki staðið sig í stykkinu við að halda á lofti hagsmunum Hafnfirðinga í þessum stóra og mikilvæga málaflokki og því leggur Samfylkingin fram til þessa tillögu til þess að freista þessu að koma hreyfingu á málið og koma fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði af hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig.

5. Ný heilsugæsla í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarráði að setja á fót viðræðuhóp sem hefji formlegar viðræður við alla hagaðila málsins, þar á meðal Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og ríkisvaldið. Meginverkefni hópsins verður að koma hreyfingu á verkefnið og að koma því á framkvæmdastig eins fljótt og mögulegt.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í fjölskylduráði og bæjarráði milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu við síðari umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun.

Greinargerð:
Lengi hefur legið fyrir að þörf er á nýrri heilsugæslu í Hafnarfirði og þá ekki síst til þess að þjónusta yngstu hverfi bæjarins eins og Velli, Hamranes og Skarðshlíð. Málið hefur lengi verið til umræðu en lítið hefur þokast og því brýnt að setja málið í ákveðið ferli og til þess að stuðla skýrri sýn bæjarins um skipulag heilsugæslu í bænum. Af þeim ástæðum er lagt til að settur verði á laggirnar starfshópur til þess að kafa ofan í málið og koma því á hreyfingu. Vert er að nefna, að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað tekið málið á dagskrá á síðustu árum og flutt tillögur og jafnan hefur því verið haldið fram að meirihluta bæjarstjórnar að málið væri í fullri vinnslu - en ekkert handfast hefur gerst. Nú þarf að láta verkin tala, fá niðurstöðu í málið og þar með bætta þjónustu við Hafnfirðinga hvað heilsugæsluþjónustu varðar.

Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu við fjárhagsáætælun:

6. Starfshópur um miðbæ Hafnarfjarðar

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fjögurra manna starfshóps kjörinna fulltrúa auk eins fulltrúa frá íbúum miðbæjarins og eins fulltrúa rekstraraðila þjónustuhúsnæðis í miðbænum. Starfshópurinn njóti stuðnings og þjónustu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Verkefni hópsins er að móta framtíðarstefnu fyrir miðbæ Hafnarfjarðar. Hópurinn skoði lausnir er varðar bílastæði og þá m.a. í bílastæðahúsi eða neðanjarðar, þannig að rými skapist til uppbyggingar og þá hvernig megi efla þjónustu, verslun ásamt uppbyggingu íbúða og styðja við menningarviðburði. Einnig verði horft til tengingar miðbæjarins við önnur hverfi og þá uppbyggingu sem hefst vonandi á næstu misserum á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í vinnu hópsins verði haft í huga að vernda einkenni miðbæjar Hafnarfjarðar sem er annar af sögulegum miðbæjum höfuðborgarsvæðisins. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið eigi síðar en 1. mars nk. og vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. maí nk. Á starfstímanum verði boðað til vinnufundar með íbúum og öðrum hagaðilum þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, eigendum verslunar og þjónusturýma, rekstraraðilum og öðrum þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Skýrsla starfshópsins verði grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í skipulags- og byggingaráði.

Greinargerð:
Á þessu og síðasta kjörtímabili hefur endurskoðun miðbæjar Hafnarfjarðar komið alloft til umræðu í skipulags- og byggingaráði. Þann 26. apríl, 2022 var samþykkt á fundi í skipulags- og byggingaráði að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins, en ekkert hefur gerst. Síðast var málið til umfjöllunar 19. mars, 2025 og þar var samþykkt að óska eftir samantekt á stöðu mála, en ekkert hefur gerst. Nú þarf að láta verkin tala og vinna hratt og vel að því að móta framtíð miðbæjar Hafnarfjarðar, sem hefur mikið aðdráttarafl og þar liggja mikil tækifæri að gera enn betur. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og nauðsynlegt að þar megi byggja upp öflugan miðbæ iðandi af mannlíf með fjölbreyttri þjónustu, atvinnu- og menningarlífi. Skipulag miðbæjarins er frá árinu 2001 og kominn tími á endurskoðun þess því er þessi tillaga lögð fram. Lagt er til að hún verði unnin í samvinnu við íbúa og aðra hagaðila og haldinn verði íbúafundur. Skýrsla starfshópsins verði þannig grundvöllur að vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar.

7. Aðgengi fólks með fötlun að almennum vinnumarkaði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að styðja fyrirtæki í sveitarfélaginu til þess að auka aðgengi og ýta undir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Einnig að styðja fyrirtæki til breytinga á atvinnuhúsnæði, en slæmt aðgengi dregur úr þátttöku fatlað fólks á vinnumarkaði.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til umfjöllunar í fjölskylduráði og samráðshópi um málefni fatlaðs fólks milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu við síðari umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun.

Greinargerð:
Atvinnuþátttaka fatlaðs fólks er mikilvægt jafnréttismál og almennur vinnumarkaður er ekki nógu aðgengilegur fötluðu fólki. Úr því þarf að bæta. Fatlað fólk er ólíklegra til að vera ráðið til starfa en ófatlað fólk og því standa ekki nægjanlega fjölbreytt störf til boða. Í 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er því lýst hvernig fólk á rétt til vinnu án aðgreiningar. Af þessum sökum er verða stjórnvöld að leita leiða til þess að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og þar hefur Hafnarfjörður sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins mikilvægu hlutverki að gegna. Þess vegna er brýnt að setja þessi mál í markvissan farveg innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Rósa Guðbjartsdóttir tekur til máls og upplýsti jafnframt um að á næsta fundi bæjarstjórnar verður lögð fram ósk hennar um lausn úr bæjarstjórn til loka kjörtímabilsins. Orri Björnsson tekur til máls. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson, Valdimar Víðisson, Kristín Thoroddsen og Jón Ingi Hákonarson.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu við fjárhagsáætlun:

Bæjarfulltrúi Viðreisnar bókar eftirifarandi

Fjárhagsáætlun bæjarins liggur fyrir og ljóst að grunnreksturinn er rekinn með 1,5 milljarða halla enn eitt árið. Því hvetur bæjarfulltrúi Viðreisnar meirihlutann að gera 1% hagræðingarkröfu á öll svið rekstrarins. Því miður er verklagið þannig við fjárhagsáætlunarvinnuna að minnihluta er haldið nokkuð frá þeirri vinnu. Því vill bæjarfulltrúi koma eftirfarandi áherslumálum Viðreisnar áfram til réttra ráða og nefnda til umræðu og vonar að málin fái góða umræðu og tekið verði jákvætt í þau.

8. Fræðsluráð - Sjóð sem styður við öll framúrskarandi ungmenni

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að Fræðsluráð, í samstarfi við Mennta- og lýðheilsusvið, stofni sjóð til að styðja framúrskarandi ungmenni í fjölbreyttum tómstundum.
-Markmið sjóðsins er að veita ungmennum með lögheimili í Hafnarfirði fjárhagslegan styrk vegna æfinga og/eða keppni á sínu sviði.
-Með sjóðnum er tryggt að börn og ungmenni sem skara fram úr á öðrum
sviðum en íþróttum, t.d. í listum eða skapandi greinum, fái sömu viðurkenningu og stuðning og íþróttafólk.
Sjóðurinn yrði mikilvægt skref til að jafna tækifæri, efla fjölbreytni og hvetja ungmenni til að láta drauma sína rætast, óháð því hvaða tómstund þau stunda.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
9. Fjármagn til kennslu í félags- og tilfinningafærni

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar verði lögð aukin áhersla á kennslu í félags- og tilfinningafærni, með sérstakri áherslu á andlega heilsu, streitustjórnun og samskiptafærni. Slíkt nám hefur víða skilað góðum árangri, m.a. í finnskum skólum.
Jafnframt verði kallað eftir upplýsingum frá leik- og grunnskólum um hvort og hvernig unnið er að slíkri færni í dag, og fengin nánari útlistun á því hvernig hún er útfærð í námi.
Verði tillagan samþykkt verði lögð sérstök áhersla á að styðja kennara og skóla í þessu starfi og skapa þeim svigrúm til að þróa og móta námsefni á sviði félags- og tilfinningafærni.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
10. Ungbarnaleikskóla

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að hafin verði undirbúningur að því að stofna ungbarnaleikskóla í Hafnarfirði.
Að fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar feli fræðslusviði að:
Kanna möguleika á stofnun ungbarnaleikskóla í Hafnarfirði, hvort sem um verður að ræða rekstur á vegum bæjarins eða í samstarfi við einkaaðila.
Meta kostnað, húsnæðisþörf og mögulegar staðsetningar fyrir slíka starfsemi.

Skila niðurstöðum til fræðsluráðs fyrir næstu endurskoðun fjárhagsáætlunar.

Í samtölum við foreldra í bænum hefur komið fram að margir foreldrar standa frammi fyrir því að geta ekki hafið störf að fæðingarorlofi loknu vegna skorts á dagvistun fyrir börn undir tveggja ára aldri. Slíkur vandi hefur áhrif á atvinnuþátttöku foreldra, jafnvægi fjölskyldulífs og jafnrétti á vinnumarkaði. Í nágrannasveitarfélögum, svo sem í Garðabæ, eru starfandi 2?3 ungbarnaleikskólar sem veita þjónustu fyrir börn allt niður í 12 mánaða aldur. Þessi útfærsla hefur reynst foreldrum þar vel og dregið úr álagi á hefðbundna leikskólastarfsemi.

Ungbarnaleikskólar eru ekki hugsaðir sem staðgenglar dagforeldra heldur sem viðbót við núverandi daggæsluúrræði. Með því móti fá foreldrar aukið frelsi til að velja þá daggæslu sem hentar barni þeirra og fjölskylduaðstæðum best strax að loknu fæðingarorlofi. Þannig megi tryggja fjölbreyttari daggæslu fyrir yngstu börnin, styðja foreldra í betra jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs og efla þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í takt við þarfir barnafjölskyldna.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
11. Húsnæði leikskóla - samþætting leikskóla í hverfum bæjarins

Fulltrúi Viðreisnar leggur til að fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar feli fræðslusviði, í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið, að kanna hvort mögulegt sé að hanna leikskóla eða daggæslurými sem hluta af fjölbýlishúsum, bæði þar sem þétting byggðar á sér stað og í nýjum hverfum.

Meta kosti þess að nýta jarðhæðir fjölbýlishúsa eða önnur sambærilega rými til leikskólastarfsemi.

Leggja fram tillögur að skipulags- og hönnunarleiðbeiningum sem geri ráð fyrir slíkum úrræðum við byggingu leikskóla í framtíðinni.
Við skipulag nýrra íbúðahverfa og þéttingu byggðar hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á sjálfbærni, blandaða byggð og nærþjónustu. Leikskólar eru mikilvægur þáttur í slíku samfélagi en hingað til hefur verið hefð fyrir því að leikskólar séu staðsettir í sér húsnæði á stórum lóðum. Með því að skoða þessar leiðir þegar kemur að húsnæði leikskóla er hægt að stuðla að hagkvæmar nýtingu lands og húsnæðis í hverfum. Slík útfærsla gæti nýtt betur það húsnæði og innviði sem þegar eru til staðar, til dæmis bílastæði og viðhald, og þannig dregið úr bygginga- og rekstrarkostnaði. Efla sjálfbært skipulag byggða í Hafnarfirði og tryggja aðgengileg leikskólahúsnæði fyrir íbúa, hvort sem um er að ræða hverfum í þéttingu eða nýjum hverfum.

12. Strandblaksvöll við Suðurbæjarlaug

Hafin verði vinna að finna staðsetningu fyrir strandblaksvöll í eða við garð Suðurbæjarlaugar. Mikilvægast er að horfa til þess að aðgengi að salerni og búningaaðstaða sé við hendi.
Suðurbæjarlaugin er einstaklega vel að því komið og góður grundvöllur fyrir því í garði sundlaugarinnar eða við sundlaugina.
Innan Suðurbæjarlaugar eru besti mögulegi kosturinn, þar eru mjög góðar aðstæður til að setja velli í garðinum á nánast ónýttu plássi og auka nýtingamöguleika sundlaugasvæðisins. Einnig eykur það öryggi, völlurinn væri þá innan girðingar á læstu svæði eftir lokunartíma. Slíkir vellir eru í Árbæjarlaug og Laugardalslaug, þar eru vellirnir vel nýttir og mjög jákvætt viðhorf gangvart þeim hjá öllum.
Til vara væri hægt að skoða svæði austan megin við sundlaugina, þar er nú þegar bæði hreysti tæki og leiksvæði. Sá kostur er sístur, aðgengi ótakmarkað og hætta á að búnaður, net og sandur verði fyrir aðkasti. Fyrirmynd slíkra valla er þó til í bæði Fagralundi í Kópavogi sem og við íþróttamiðstöðina Ásgarð í Garðabæ, með fínasta móti.

13. Starfsfólk Menntastofnanna

Leyfa röddum starfsmanna leik- og grunnskóla bæjarins að heyrast í öllu skipulagi tengdu skólunum og starfinu þeirra.
Viðreisn leggur til að fræðsluráð heimsæki leik- og grunnskóla bæjarins að minnsta kosti einu sinni á ári og fái að kynnast starfsemi allra menntastofnanir bæjarins, á þeirra heimavelli.

14. Tryggja góðar vinnuaðstæður í grunn- og leikskólum, fyrir starfsmenn og nemendur

Farið verði í markvissa vinnu í hverjum grunn- og leikskóla þar sem rými eru skoðuð út frá áhættu vegna álags á starfsmenn og börn. Álag vegna rýmis og notkun þess getur falið í sér heilsufarsáhrif.
Hefja vinnu við að greina hvaða þætti í náms- og starfsumhverfinu þarf að styrkja enn frekar inn í skólum bæjarins með það að leiðarljósi að auka traust og virðingu nemenda og starfsmanna.
Gerð verði sérstök greining á öryggi og aðgengi skólalóða og skólahúsnæðis.

Hafin verði vinna við greiningu ferla sem snúa að viðbrögðum við aðstæðum sem ógna öryggi starfsfólks og nemenda.
Lögð verði sérstök áhersla á virkri þátttöku starfsfólks í vinnu við að tryggja öryggi og traust í skólum bæjarins.
Að aukin verði sérúrræði inn í leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar með því að fjölga stöðugildum iðjuþjálfa, atferlisfræðinga, sálfræðinga og talmeinafræðinga. Með fjölgun sérðhæfðs fagfólks inn í skólana þá fyrst er hægt að bjóða upp á fjölbreytt sérúrræði innan skólanna til þessa að efla stuðning við bæði nemendur og starfsfólk. Þessir sérfræðingar eiga að vera hluti af fagteymum og þátttakendur í mótun skólaumhverfisins.
Hafin verði vinna að stofnun sérúrræðis eða sérskóla. Hafnarfjörður hefji vinnu við að stofna sérúrræði eða sérskóla í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikið ákall úti í samfélaginu, sérstaklega frá starfsfólki skólanna til að mæta þörfum nemenda með fjölþættar þarfir.

15. Niðurgreiðsla á Árskortum í strætó

Hafnarfjarðarbær styrki ungmenni til almenningssamgangna. Börn og ungmenni á aldrinum 12 til 16 ára, með lögheimili í Hafnarfirði geti sótt um niðurgreiðslu á kortum í strætó. Þetta er sá aldurshópur sem fellur ekki undir frístundabílinn, þarf því að koma sér sjálf í tómstundir. Lagt er til að fyrst árið verði niðurgreiðsla um 25% og hækki um 15 prósentu stig á hverju ár.

16. Breyting á fyrirkomulagi frístundastyrkja

Frístundastyrkur Hafnarfjarðarbæjar er í dag mánaðargreiðsla, Viðreisn leggur til að þessu fyrirkomulagi sé breytt yfir í eina fasta upphæða á ársgrundvelli sem ráðstafað er á hvert barn. Forráðamanni barnsins er frjálst að ráðstafa upphæðinni í eina eða fleiri greinar. Núverandi fyrirkomulag mismunar börnum sem ekki eru í tómstundum alla mánuði ársins eða eru í fleiri en einni tómstund.

Íþrótta og tómstundanefnd

17. Fjölskylduráð

Að Hafnarfjörður ráðist í formlega stefnumótun um innleiðingu og notkun velferðartækni, með það að markmiði að auðvelda fólki að búa á eigin heimili við betri lífsgæði, þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi. Horft verði sérstaklega til Akureyrarbæjar og Reykjavíkur í þessum efnum. Settur verði á laggirnar starfshópur, skipaður fulltrúum allra flokka sem sæti eiga í Bæjarstjórn, ásamt fulltrúum viðeigandi hagsmunafélaga og/eða sérfræðinga sem skal sjá um stefnumótunina.


18. Umhverfis og framkvæmdaráð

Tillaga 1

Heildstæð áætlun um vistvæn viðhald og orkunýtingu eigna bæjarins
Hafnarfjarðarbær hefur á undanförnum árum unnið að viðhaldi og endurbótum á fasteignum bæjarins, einkum leik- og grunnskólum. Til að tryggja að sú vinna skili sem mestri orkusparnaði og hagkvæmni til framtíðar er mikilvægt að samþætta þessi verkefni í eina heildstæða áætlun sem sameinar viðhald, orkunýtingu og sjálfbærni.
Með því að samþætta og greina verkefnin sem þegar eru í vinnslu verður unnt að tryggja betri nýtingu fjármagns, draga úr sóun og skapa mælanlegan ávinning fyrir bæði bæ og íbúa. Verkefnið byggir á grunni fyrri viðhald átaka en gefur þeim nýjan stefnumarkandi ramma.
Viðreisn leggur til að Hafnarfjarðarbær móti heildstæða áætlun fyrir árin 2026?2030 um vistvænt viðhald og orkunýtingu fasteigna bæjarins.
Áætlunin taki mið af þeim verkefnum sem þegar eru í gangi, en samræmi forgangsröðun, árangursmælingar og kostnaðargreiningu þannig að orkunotkun, rekstrarkostnaður og viðhald nýtist sem best.

Tillaga 2

Áætlun um græn og aðgengileg opin svæði
Viðreisn leggur til að hafinn verði vinna við áætlun sem miðar að því að samræma og forgangsraða endurnýjun, fegrun og vistvæna hönnun opinna svæða í hverfum bæjarins. Verkefnið verði unnin í samráði við íbúa, fyrirtæki og stofnanir bæjarins með áherslu á aðgengi, lýsingu, gróður, úrgang stýringu og hvíldarsvæði (bekki). Verkefnið mun taka mið af þeim framkvæmdum sem þegar eru í undirbúningi, en veiti þeim skýran ramma og langtímasýn með það að markmiði að styðja áfram við lýðheilsu og lífsgæði íbúa.

Tillaga 3

Sameiginleg mótun stefnu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana í Hafnarfirði

Atvinnulífið í Hafnarfirði gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu og sýnir í auknum mæli samfélagslega ábyrgð í rekstri sínum. Til að efla þessi jákvæðu tengsl og skapa samræmdan ramma fyrir slíkt samstarf er nauðsynlegt að bæjarfélagið, fyrirtækin og stofnanir bæjarins vinni saman að mótun sameiginlegrar stefnu um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Viðreisn leggur til að Hafnarfjarðarbær hrindi af stað verkefni þar sem mótuð verður stefna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana í Hafnarfirði, í beinu samstarfi við atvinnulífið, stofnanir bæjarins og hagsmunaaðila.

Markmið verkefnisins er að:
-Efla samstarf milli atvinnulífs og stofnana um sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og nýsköpun
-Skilgreina sameiginleg gildi, mælanleg markmið og viðmið sem endurspegla ábyrgð gagnvart samfélaginu,
- Kortleggja verkefni og tækifæri sem styðja vistvæna og samfélagslega ábyrga starfsemi,

- Auka gagnsæi, traust og jákvæða ímynd Hafnarfjarðar um framsýni og samfélagslega ábyrgt bæjarfélag.

Verkefnið felur í sér að leiddur verði samstarfsvettvangur þar sem atvinnulíf, stofnanir og sveitarfélagið móta sameiginlega sýn á samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra þróun. Slík vinna styrkir tengsl atvinnulífs og sveitarfélags, eykur samstöðu og skapar trúverðugleika í umhverfis- og samfélagsmálum bæjarins. Verkefnið verði unnið með aðkomu sérfræðinga á sviði samfélagslegrar ábyrgðar úr háskólaumhverfinu og í samstarfi við fyrirtæki og stofnunum bæjarins þar sem lögð verði áhersla á umhverfisjónarmið, gagnsæi, jafnrétti og mælanleg markmið.



Forseti leggur næst til að fyrirliggjandi fjárhagsáætlun ásamt framlögðum tillögum að viðbótum verði vísað til þeirra ráða og nefnda sem tilteknar eru með hverri tillögu eða við á.

Samþykkt Samhljóða.

Þá leggur forseti til að fjárhagsáætlun verði vísað áfram til síðari umræðu í bæjarstjórn og er það samþykkt samhljóða.

Valdimar Víðisson kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks koma að eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun 2026 sýnir að ábyrg fjármálastjórn skilar sér í traustum rekstri Hafnarfjarðarbæjar enn eitt árið. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 2.144 milljón króna á árinu 2026. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 7,3% af heildartekjum eða 3.111 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæður um 4.165 milljónir króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um 1.051 milljónir króna. Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta verði um 57,4 milljarðar króna árið 2026 og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði um 50,4 milljarður króna. Útsvarsprósenta á árinu 2026 verður áfram 14,93% en álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækkar á milli ára.

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar er traust.
Á komandi ári er gert ráð fyrir hóflegum afgangi á rekstri A-hluta bæjarsjóðs og á samstæðunni í heild. Áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu við íbúa, fallegt umhverfi og blómlegt mannlíf. Viðamiklar fjárfestingar á sviði skólamála, íþróttamannvirkja, gatnagerðar og búsetukjarna eru á lokastigi eða komnar í gagnið. Markviss uppbygging hefur átt sé stað í uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis og má vænta þess að enn meiri framkvæmdakraftur bíði þess að leystast úr læðingi með hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá mun Hafnarfjörður standa vel að vígi með frábær tækifæri fyrir atvinnulíf, fjölbreytta möguleika í íbúðabyggð, hóflegar álögur, hátt þjónustustig og líflegt og aðlaðandi samfélag.

Guðmundur Árni Stefánsson kemur að svohljóðandi bókun:

Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands leggur fram eftirfarandi bókun við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar fyrir 2026 og þriggja ára áætlun 2027 til 2029:
Ljóst er á fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar, sem er lögð fram af meirihluta bæjarstjórnar, að meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem hefur farið með meirihlutavald í bæjarstjórn á umliðnum átta árum og Sjálfstæðisflokkurinn fjórum árum lengur, er kominn á endastöð; uppgjöfin og metnaðarleysið fyrir því verkefni að stjórna bænum er algjört. Framtíðarsýnin er vandlega falin og verklagið það sama og hefur verið almenna reglan á yfirstandandi kjörtímabili þar sem reynt er að redda aðsteðjandi verkefnum og vandamálum fyrir horn hverju sinni.
Jafnaðarmenn hafa allt þetta kjörtímabil lagt fram tillögur um markvissan undirbúning og vinnu við verkefni næstu missera og ára, en viðkvæði meirihlutans ævinlega verið það sama: málin eru í vinnslu! Það viðkvæði hefur í raun verið afsökun fyrir því að lítið sem ekkert er verið að gera í málinu og það látið reka á reiðanum. Þetta á við fræðslumálin, samgöngumálin, fjármálin, málefni eldri borgara og húsnæðismálin, svo aðeins örfáir málaflokkar séu nefndir til sögunnar. Jafnaðarmenn hafa verið sanngjarnir og málefnalegir í gagnrýni sinni og haft hag og hagsmuni bæjarbúa til næstu og lengri framtíðar að leiðarljósi í tillögugerð og málflutningi, en meirihlutinn augljóslega haft þá hagsmuni helsta að hanga á völdunum eins lengi og nokkur kostur er. Það er þó eingöngu stundarfriður enda verða almennar kosningar til bæjarstjórnar 16. maí á næsta ári!
Um þessa fjárhagsáætlun má margt segja, en hún er sambærileg fyrri áætlunum þessa kyrrstöðumeirihluta, þar sem treyst er á eins skiptis lóðasölu til að láta enda ná saman, þar sem auk gatnagerðargjalda er treyst á milljarða tekjur af byggingarréttargjöldum. Það er umhugsunarefni í ljósi hás verðlags íbúða - raunar víðar en í Hafnarfirði.
Og á sama tíma hækka skuldir bæjarins ár frá ári, enda er það einasta leið kyrrstöðumeirihlutans til að ráðast í nauðsynlegustu framkvæmdir. Rekstur bæjarins er í járnum og meiri líkur en minni á því að halli verði á rekstri bæjarins í árslok, sem þýðir í mæltu máli að engir fjármunir eru til að ráðast í mannvirkjagerð og verklegar framkvæmdir, nema taka peninga að láni eða með millifærslum eftir sölu eigna.
Ennfremur er áberandi eins og fyrr að fjölmörg veigamikil mál sem á dagskrá eru fá enga athygli í fjárhagsáætluninni, svo sem hjúkrunarheimili, heilsugæsla, uppkaup á landi fyrir Tækniskóla, vegabætur á Reykjanesbraut, borgarlína, félagslegt húsnæði og óhagnaðardrifin húsnæðisuppbygging, ný vaxtamörk í skipulagi bæjarins sem opnar nýja möguleika, markviss uppbygging í miðbæ, frítt í strætó fyrir ungmenni, nýtt menningarhús og fleira og fleira. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu freista þess að ávarpa þessi mál og fleiri og flytja tillögur um þau.Nokkrar tillögur í þá vera hafa verið kynntar við þessa umræðu sem munu þá fara til umfjöllunnar milli umræðna í nefndum og ráðum bæjarins.
Jafnaðarmenn munu einnig leggja fram markvissar og ábyrgar tillögur við síðari umræðu fjárhagsáæltunarinnar, þar sem mikilvægum málum á borð við hækkun frístundastyrks, gjaldfrjálsan strætó fyrir ungmenni bæjarins, markviss skref um stóreflingu miðbæjar, kröftuga uppbyggingu fyrir eldri borgara og ungmenni í bænum og fleira. Þær tillögur verða allar fullfjármagnaðar eins og verið hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Það er eftirtektarvert að tillögur jafnaðarmanna á kjörtímabilinu til hagsbóta fyrir bæjarbúa telja fleiri en hundruð á þessu kjörtímabili. Nánast allar þeirra hefur kyrrstöðumeirihlutinn fellt, vísað frá eða vísað til nefnda, þar sem þær hafa verið svæfðar. Örfáar hafa þó fengið brautargengi. Þetta er stjórnsýsla hjá meirihluta í vanda, sem óttast ekki eingöngu Samfylkinguna, heldur einnig kjósendur í bænum.
Það dregur þó ekki úr jafnaðarmönnum og við síðari umræðu fjárhagsáætlunar munum við fylgja eftir pólitískum áherslum okkar með fullfjármögnuðum tillögum sem munu bæta lífsgæði fyrir íbúa í Hafnarfirði.

Ljóst er tíminn vinnur ekki með núverandi meirihluta; það styttist í kosningar í bænum og þar með líftími núverandi meirihluta.
En það vorar að vetri loknum.

Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

Enn og aftur þarf að greiða með grunnrekstri bæjarins. Á næsta ári er áætlað að sú upphæð verði 1,5 milljarðar. Það er ekki ábyrg fjármálastjórnun að taka lán fyrir grunnrekstri. Þessi áætlun er í anda fyrri áætlana og uppsafnaður halli á grunnrekstri fer að nálgast hættumörk. Þessu þarf að breyta sem fyrst. Viðreisn hefur lagt fram tillögur um breytta forgangsröðun útgjalda.

Það er ekki ásættanlegt að taka lán fyrir afborgunum lána og launum. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn. Viðreisn hyggst breyta þessu.
Málaflokkayfirlit - Fjárhagsáætlun HFJ 2026 og 2027-2029 - Fyrri umræða í bæjarstjórn 05.11.2025.pdf
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar 2026 og 2027-2029 - Fyrri umræða í bæjarstjórn 05.11.2025.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:13 

Til bakaPrenta