Til bakaPrenta
Fræðsluráð - 566

Haldinn í Krosseyri, Linnetsstíg 3,
26.11.2025 og hófst hann kl. 14:00
Fundinn sátu: Kristín María Thoroddsen formaður,
María Jonný Sæmundsdóttir varaformaður,
Kolbrún Magnúsdóttir aðalmaður,
Karólína Helga Símonardóttir áheyrnarfulltrúi,
Thelma Þorbergsdóttir varamaður,
Kolbrún Lára Kjartansdóttir varamaður,
Fundargerð ritaði: Hugrún Valtýsdóttir, ritari fræðsluráðs
Auk ofantalinna sátu fundinn:
Árný Steindóra Steindórsdóttir staðgengill sviðstjóra, Erla Karlsdóttir þróunarfulltrúi grunnskóla, Tinna Rós Steinsdóttir rekstrarstjóri íþrótta- og tómstundamála, Eiríkur Stephensen skólastjóri tónlistarskóla, Inga Fríða Tryggvadóttir fulltrúi leikskólastjóra, Margrét Össurardóttir áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Unnar Ómar Viggósson fulltrúi ungmennaráðs, Svanhildur Ýr Sigurþórsdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Margrét T. L. Hallgrímsdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna,


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2202583 - Reglur um leikskólavist
Lagt fram minnisblað um breytingar á reglum um skólavist til afgreiðslu
Drög að breytingum á reglum um leikskólavist til umræðu.
2. 2502163 - Skóladagatal 2025-2026 leikskólar
Breyting á skóladagatali Bjarkalundar 2025-2026 lögð fram til afgreiðslu
Samþykkt.
3. 2502163 - Skóladagatal 2025-2026 leikskólar
Breyting á skóladagatali Hvamms 2025-2026 lögð fram til afgreiðslu
Samþykkt.
4. 2511510 - Erindi frá foreldrum leikskólabarna
Fyrirspurn lögð fram.
Fræðsluráð þakkar þróunarfulltrúa leikskólabarna fyrir upplýsingar sem veittar voru á fundinum varðandi þá vinnu sem farið hefur verið í að undaförnu og upplýsingar varðandi lög og reglur og ábyrgð sveitarfélagsins sem tryggir að öryggi barna sé haft að leiðarljósi til að skapa öruggt umhverfi fyrir börn í leikskólum. Ljóst er að mikil og góð vinna hefur verið að undanförnu til að auka vitundarvakningu starfsmanna meðal annars með fræðslufundi í gegnum málstofu starfsfólks leikskóla sem haldinn hefur verið varðandi vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Fræðsluráð leggur til að allir starfsmenn fengju sambærilega fræðslu. Markviss vinna við að tryggja sýnileika í rýmum stendur yfir eins og þróunarfulltrúi gerði grein fyrir.
Fræðsluráð kallar eftir nánari minnisblaði um stöðu mála og felur sviðsstjóra að vinna að drögum að miðlægu verklagi sem tryggt getur enn frekar öryggi barna.
5. 2502769 - Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029
Tillögur lagðar fram.
Tillögum vísað til bæjarráðs.
6. 2511422 - Samstarf vegna innleiðingar á samræmdum dagsetningum umsókna í grunnskóla
Erindi frá miðstöð menntunar og skólaþjónustu lagt fram.
Lagt fram.
7. 2511423 - Öryggi grunnskólakennara
Erindi frá fulltrúa grunnskólakennara lagt fram.
Fræðsluráð felur sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs að skoða hvort hægt sé að koma á hljóðritun símtala (í samræmi við 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd) í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar í þeim tilgangi að tryggja öryggi starfsfólks, sem og til að tryggja að hægt sé að nálgast upplýsingar um málsatvik er varða t.a.m. alvarlegar hótanir í síma. Þá kallar fræðsluráð einnig eftir upplýsingum um hvaða skólar það eru sem beita aðgangsstýringu og að skoðað verði hvort hægt sé að koma á sambærilegri aðgangsstýringu í þeim grunnskólum þar sem slíkt er ekki til staðar. Að lokum leggur fræðsluráð til að áhættumat í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar verði framkvæmt og/eða yfirfarið og útbúnar verði leiðbeiningar um viðbrögð í kjölfar ofbeldis gegn starfsfólki.

Foreldraráð Hafnarfjarðar tekur undir áhyggjur grunnskólakennara um aukna ógn og óæskilega framkomu í skólum. Ráðið undirstrikar að kennarar, starfsfólk og börn eiga öll rétt á öruggu og virðingarríku umhverfi þar sem þau geta sinnt starfi sínu og námi án ótta.
Foreldraráð hvetur skólayfirvöld og bæjaryfirvöld til að gera öryggismál í skólum að forgangsatriði og að tryggð séu skýr viðbrögð, betra aðgengi að stuðningi og að umgjörð skólanna tryggi bæði vinnufrið og öryggi nemenda og starfsfólks.

8. 2511089 - Andmæli vegna ákvörðunar um að afturkalla spjaldtölvur úr 5. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar
Til umræðu.
Foreldraráð Hafnarfjarðar harmar að óánægja hafi komið upp meðal kennara vegna ákvörðunar um að hætta notkun spjaldtölva í 5. bekk. Ráðið hvetur til þess að tilgangur og rök ákvörðunarinnar verði kynnt betur innan kennarasamfélagsins og að opið samtal fari fram í skólunum. Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að ólík sjónarmið munu alltaf heyrast, hvaða leið sem valin er.
Foreldraráð telur að þessi breyting marki ekki afturför í tæknimenntun heldur tækifæri til að endurskoða og styrkja stafrænt námsumhverfi barnanna. Foreldrar og ungmenni hafa ítrekað kallað eftir því að dregið verði úr ómarkvissri skjánotkun á skólatíma og að tryggt sé að tæki séu valin og notuð með skýran tilgang. Tækjanotkun í skólum þarf að vera örugg, markviss og studd af skýrum námsmarkmiðum ? ekki afþreying í dulargervi náms.
Foreldraráð hefur leitað álits sérfræðings á þessu sviði, sem lýsir verulegum áhyggjum af aðgengi barna að efni og forritum í gegnum spjaldtölvur. Bent var á að spjaldtölvur ýti undir notkun dopamínörvandi leikja sem dragi athygli frá námi, að tölvuleikir séu víða notaðir sem verðlaun í kennslu og að gervigreindarforrit séu í auknum mæli notuð til að leysa verkefni í stað eigin vinnu barnsins. Þá kom fram að auto-correct forrit dragi úr þörf nemenda til að læra stafsetningu og að óheftri tækninotkun geti gert hefðbundið nám óspennandi í samanburði.
Einnig má benda á að Svíar, sem fyrstir voru að innleiða spjaldtölvur í víðtækum mæli í skólastarfi, eru nú að draga verulega úr notkun þeirra vegna þess að væntur ávinningur skilaði sér ekki.
Foreldraráð ítrekar mikilvægi fræðslu og skýrrar stefnu í þessum málum. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að ofnotkun spjaldtölva í skólakerfinu skilar ekki þeim árangri sem vonast var eftir. Því er tímabært og ábyrgðarfullt að stíga skref í átt að markvissari, öruggari og betri stafrænu umhverfi fyrir börn í Hafnarfirði.
9. 1812064 - Reglur um frístundastyrki
Drög að endurskoðuðum reglum lögð fram.
Til umræðu.
Fundargerðir
10. 2509651 - Fundargerðir ungmennaráðs
Fundargerðir ungmennaráðs lagðar fram.
Fundargerðir lagðar fram.
11. 2511018F - Íþrótta- og tómstundanefnd - 416
Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar 416 lögð fram.
Fundargerð lögð fram.
11.1. 2511340 - Fyrirspurn um Bláfjallarútuna
Fulltrúi foreldraráðs óskar eftir því að skoðuð verði aðstaða fyrir ungmenni til að bíða eftir rútunni í Firði, og ferðast með henni í Bláfjöll fyrir æfingar.
Elísabet (ÍBH) skoðar málið með Brettafélaginu og finnur lausn.
11.2. 2511341 - Fyrirspurn um búningaaðstöðu barna í íþróttahúsum bæjarins
Foreldraráð Hafnarfjarðar óskar eftir upplýsingum um búningaraðstöðu barna í íþróttahúsum bæjarins en borist hafa kvartanir um aðstöðuleysi og skort á eftirliti í búningsklefum.
Starfsfólk ÍTH sendir fyrirspurn á íþróttafélögin og aflar upplýsinga.
11.3. 2401611 - Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, fundargerðir
Fundargerð stjórnar ÍBH frá 5.nóvmber 2025 lögð fram.
Lagt fram.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:30 

Til bakaPrenta