Til bakaPrenta
Fjölskylduráð - 542

Haldinn í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6,
28.10.2025 og hófst hann kl. 08:30
Fundinn sátu: Margrét Vala Marteinsdóttir formaður,
Helga Ingólfsdóttir varaformaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Auður Brynjólfsdóttir aðalmaður,
Árni Stefán Guðjónsson áheyrnarfulltrúi,
Alexander Árnason varamaður,
Fundargerð ritaði: Hrafnhildur Ágústsdóttir, ritari fjölskylduráðs
Árni Stefán Guðjónsson sat fundinn á teams. Einnig sat Guðlaug Ósk Gísladóttir, sviðsstjóri, fundinn.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2502769 - Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029
Fjölskylduráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun fjölskyldu- og barnamálasviðs til bæjarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja áherslu á ábyrga og farsæla fjármálastjórnun samhliða því að tryggja áframhaldandi gott þjónustustig. Leitast er við með tillögum sem lagðar hafa verið fram að þróa þjónustu í takt við þarfir íbúa og stuðla að bættri velferð og auknum lífsgæðum íbúa.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

Við gerð fjárhagsáætlunar leggur Samfylkingin áherslu á að gjaldskrárhækkunum verði stillt í hóf þannig að þær verði ekki umfram þróun ársverðbólgu og að hækkun bóta- og stuðningsgreiðslna verði sambærileg og hækkun gjaldskrár.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja einnig áherslu á að félagslegum íbúðum í eigu sveitarfélagsins verði fjölgað á næsta ári. Fjölgun þeirra er mikilvægur liður í að bregðast við vanda á húsnæðismarkaði og þörf er á átaki í þeim efnum. Líkt og fram kemur í fundargerð öldungaráðs frá 14. október sl. þá er skortur á þjónustuíbúðum fyrir eldra fólk en á sama tíma eru aldraðir hvattir til að búa sem lengst í í heimahúsum. Brýnt er að starfshópur um íbúðir fyrir eldra fólk, sem settur var á laggirnar að frumkvæði Samfylkingarinnar, ljúki störfum sem fyrst.

Þá er einnig gríðarlega mikilvægt að áfram verði unnið að úrræðum fyrir heimilislausa með fjölþættan vanda með uppsetningu smáhýsa og reksturs þeirra eins og unnið hefur verið að á vettvangi fjölskylduráðs á undanförnum árum. Þá er mikilvægt að í fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir uppbyggingu nýs íbúðakjarna fyrir fólk með fötlun, að hafist verði handa við undirbúning og hönnun næsta íbúðakjarna fyrir fólk með fötlun og að raunhæf húsnæðisáætlun fyrir fólk með fötlun liggi fyrir hið fyrsta. Ljúka verður samningum við ríkisvaldið um uppbyggingu og fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði og að nýrri heilsugæslu á Völlum/Hamranesi verði komið á fót sem og að leitað verði samkomulags um samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu.

Ljóst er að snúin sigling er framundan í rekstri bæjarins eins og niðurstaða árshlutareiknings bæjarins er til vitnis um. Niðurstaða hans veldur áhyggjum enda var rekstrarhalli bæjarsjóðs á fyrri helming ársins meira en milljarður króna þrátt fyrir stórauknar tekjur umfram forsendur fjárhagsáætlunar. Þessi staða endurspeglar einfaldlega lausatök meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er því enn brýnna en áður að standa vörð um velferðarþjónustu sveitarfélagsins og að forgangsraða í þágu hennar. Fulltrúar Samfylkingarinnar áskilja sér allan rétt til þess að leggja fram tillögur vegna fjárhagsáætlunar á milli umræðna um fjárhagsáætlun næsta árs.
2. 2405261 - Starfshópur um búsetu fyrir fatlað fólk
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá. Fyrirspurn lögð fram.
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hversu margir einstaklingar eru á biðlista ef húsnæði fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði?
Hversu margir á biðlistanum teljast í brýnni þörf eftir húsnæði?
Hver er meðalbiðtími fólks á biðlistanum eftir húsnæði?
Hversu margir einstaklingar eru í búsetuúrræðum í dag, sem ekki teljast fullnægjandi, þ.e. svokölluðum herbergjaheimilum en það er yfirlýst stefna stjórnvalda að ekki skuli haldið áfram að nýta slíkt búsetuúrræði?
Hversu margar íbúðir fyrir fatlað fólk eru á framkvæmdastigi í dag?
Hversu margar íbúðir fyrir fatlað fólk hafa verið teknar í notkun á yfirstandandi ári?
Hversu margar íbúðir fyrir fatlað fólk voru byggðar eða teknar í notkun í Hafnarfirði á sl. fjórum árum? Óskað er sundurliðunar eftir árum, þ.e. 2022, 2023, 2024 og það sem af er ári 2025.

Fulltrúar meirihlutans vekja athygli á að uppbyggingaráætlun vegna búsetu fatlaðs fólks er í vinnslu og mun liggja fyrir innan skamms.
3. 1604079 - Húsnæðisáætlun
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá. Fyrirspurn lögð fram.
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hversu margar íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigu- eða búseturéttarfélaga hafa verið byggðar í Hafnarfirði á sl. fjórum árum? Óskað er sundurliðunar eftir árum, þ.e. 2022, 2023, 2024 og það sem af er ári 2025.
Hversu margar íbúðir eru á framkvæmdastigi í dag innan Hafnarfjarðar og hvert er hlutfall íbúða á vegum óhagnaðardrifinna félaga?
Hversu margar stúdentaíbúðir hafa verið byggðar í Hafnarfirði á sl. fjórum árum? Óskað er sundurliðunar eftir árum, þ.e. 2022, 2023, 2024 og það sem af er ári 2025.
Hversu margar íbúðir fyrir eldri borgara hafa verið byggðar í Hafnarfirði á sl. fjórum árum? Óskað er sundurliðunar eftir árum, þ.e. 2022, 2023, 2024 og það sem af er ári 2025.
4. 2310763 - Starfshópur um framtíðarsýn í málefnum fatlaðs fólks
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska upplýsinga um stöðu vinnu við gerð framtíðarsýnar í málefnum fatlaðs fólks.
Til umræðu
Fundargerðir
5. 0701243 - Málskot
Lögð fram niðurstaða málskotsnefndar í máli nr. 29/2025, 30/2025, 31/2025, 32/2025 og 33/2025.

Fjölskylduráð staðfestir afgreiðslu málskotsnefndar.
Hrafnhildur Ágústsdóttir, lögfræðingur velferðarþjónustu ritaði fundinn.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:30 

Til bakaPrenta