Bæjarstjórn - 1954 |
Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg,
07.05.2025 og hófst hann kl. 14:00 | | Fundinn sátu: Valdimar Víðisson bæjarstjóri,
Kristinn Andersen forseti,
Rósa Guðbjartsdóttir aðalmaður,
Kristín María Thoroddsen aðalmaður,
Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður,
Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður,
Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir varamaður,
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir varamaður,
Kolbrún Magnúsdóttir varamaður,
Auður Brynjólfsdóttir varamaður,
| | Fundargerð ritaði: Erna Aradóttir, lögmaður | | | |
| | Dagskrá: | | | | 1. 2303670 - Miðbær, bílastæði | 3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 2.maí sl. 1. liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 2.apríl sl. Lögð fram drög að nýrri samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar. Ketill Sigurður Jóelsson mætir til fundarins og kynnir.
Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar Katli Sigurði Jóelssyni fyrir kynninguna og samþykkir samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar fyrir sitt leyti og vísar til afgreiðslu bæjarráðs. Bæjarráð samþykkir samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar og vísar henni til afgreiðslu í bæjarstjórn. Umhverfis- og framkvæmdasvið vinni síðan áfram að þróun og útfærslu verkefnisins. Bæjarráð leggur áherslu á að markmiðið með þeim breytingum sem ráðgerðar eru til reynslu í sumar sé að skammtímastæði nýtist í samræmi við tilgang þeirra og stuðli þannig að bættri nýtingu bílastæða í miðbænum. Breytingarnar eru liður í að styrkja þjónustu og aðstöðu fyrir íbúa, gesti og atvinnulíf í Hafnarfirði og stuðla að skilvirkari umgengni við sameiginleg rými bæjarins. | Guðbjörg Oddný Jónasdóttir tekur til máls. Þá tekur Guðmundur Árni Stefánsson til máls og Valdimar Víðisson kemur til andsvars sem Guðmundur Árni svarar. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars við ræðu Guðmundar Árna sem Guðmundur Árni svarar.
Valdimar Víðisson tekur til máls.
Forseti ber næst upp til atkvæða framkomna tillögu um samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðarbæjar. Er það samþykkt samhljóða.
Guðmundur Árni Stefánsson leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar styðja fyrir sitt leyti stofnun og samþykktir Bílastæðasjóðs Hafnarfjarðar. Það er ljóst að í framtíðinni verður að bæta nýtingu bílastæða í miðbæ og tryggja þannig betra aðgengi bæjarbúa að verslun og þjónustu. Hins vegar leggja jafnaðarmenn áherslu á mikilvægi þess að öll skref verið vandlega undirbúin og í góðu og nánu samstarfi við hagsmunaaðila; verslanir, þjónustustofnanir og íbúa í miðbæ. Einnig verði tryggt að allar ákvarðanir um gjaldtöku verði fjallað um í Umhverfis og framkvæmdaráði og bæjarráði, áður en þær taka gildi.
Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta:
Málið hefur verið í undirbúningi og skoðun innan ráða og nefnda Hafnarfjarðarbæjar um all nokkurn tíma einmitt vegna mikilvægis þess að vandað sé til útfærslunnar. Áhersla hefur verið og verður áfram á að næstu skref verði tekin í samráði við alla hagaðila.
| Samþykkt um bifreiðastæðasjóð Hafnafjarðar 2025 - Drög - 20250325.pdf | Minnisblað ? Endurskoðun á samþykktum Bílastæðasjóðs Hafnarfjarðar - 20250323.pdf | | |
| 2. 2504424 - Tunguhella 15, umsókn um lóð | 26.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 2. maí sl. Lögð fram umsókn S8 ehf. um atvinnuhúsalóðina nr. 15 við Tunguhellu. Til vara er sótt um atvinnuhúsalóðina nr. 17 við Tunguhellu. Níu umsóknir bárust um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin var út umsókn S8 ehf. Til vara er dregin út umsókn NR 5 ehf. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni til S8 ehf. og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar. | Samþykkt samhljóða. | | |
| 3. 2504493 - Tunguhella 17, umsókn um lóð | 33.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 2. maí sl. Lögð fram umsókn Bæjarbyggðar ehf. um lóðina nr. 17 við Tunguhellu. Átta umsóknir bárust um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin var út umsókn Bæjarbyggðar ehf. Til vara er dregin út umsókn R22 ehf. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni til Bæjarbyggð ehf. og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar. | Samþykkt samhljóða. | | |
| 4. 2504682 - Mötuneyti fyrir eldra fólk | Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðu um lokun mötuneytis á Sólvangsvegi 1. | Auður Brynjólfsdóttir tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfestir samhljóða samþykkt Fjölskylduráðs frá 29. apríl síðastliðnum um að boðið verði upp á mat í Sólvangshúsunum og að málið verði í forgangi. Ennfremur samþykkir bæjarstjórn að íbúum að Sólvangsvegi 1 og 3 fái aðra nauðsynlega þjónustu af félagslegum toga og felur fjölskylduráði útfærslu.
Þá taka Jón Ingi Hákonarson, Jóhanna Erla Guðjónsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Valdimar Víðisson til máls.
Valdimar Víðisson leggur fram tillögu um að vísa tillögu Samfylkingarinnar frá.
Guðmundur Árni Stefánsson kemur til andsvars við ræðu Valdimars sem svarar andsvari. Guðmundur Árni kemur til andsvars öðru sinni sem Valdimar svarar. Guðmundur Árni kemur með stutta athugasemd.
Kristín María Thoroddsen tekur til máls. Auður Brynjólfsdóttir tekur til andsvars sem Kristín María svarar. Þá kemur Guðmundur Árni Stefánsson til andsvars við ræðu Kristínar.
Guðmund Árni Stefánsson tekur til máls í annað sinn. Valdimar kemur til andsvars og Guðmundur Árni svarar andsvari.
Jón Ingi Hákonarson tekur til máls í annað sinn. Valdimar kemur til andsvars.
Forseti ber upp til atkvæða framkomna tillögu um að vísa tillögu Samfylkingarinnar frá. Er tillagan samþykkt þar sem sex fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar greiða atkvæði með tillögunni en fimm fulltrúar minnihluta Samfylkingar og Viðreisnar gegn tillögunni.
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta:
Það er afar mikilvægt að bjóða upp á öruggt og aðgengilegt mötuneyti fyrir eldra fólk í Hafnarfirði þar sem slíkt þjónustuframboð styður við sjálfstæði, bætir lífsgæði og eflir félagslega þátttöku eldri íbúa í nærumhverfi sínu. Meirihlutinn hefur þegar komið með tillögu sem snýr að því að koma starfsemi í mötuneyti að Sólvangsvegi í notkun sem allra fyrst. Þegar hefur verið lagt til að málið verði sett í forgang og mötuneytið opnað hið fyrsta. Meirihlutinn hefur lagt fram tillögu í fjölskylduráði þar sem þessi áhersla er skýr og jafnframt var lögð áhersla á að efla starfsemi á Hjallabraut 33 með því að gera nauðsynlegar endurbætur og tryggja jafnt aðgengi að þjónustunni sem þar fer fram. Einnig verður farið af stað í kynningarátak fyrir mötuneytin að Sólvangsvegi og Hjallabraut 33. Markmiðið er að kynna þjónustuna betur fyrir eldra fólki í bænum og auka aðsókn. Þá verður sett upp dagskrá þar sem boðið verður upp á tónlist, viðburði og fræðslu í samstarfi við félög, kirkjur, menningarstofnanir bæjarins og Fjölskyldu- og barnamálasvið. Meirihlutinn leggur áherslu á að sú vinna sem er í gangi varðandi mötuneyti eldra fólks hjá bænum snúi ekki eingöngu að opnun á mötuneyti að nýju, heldur að styrkja og efla þjónustuna til framtíðar með lausnamiðaðri nálgun, góðri samvinnu og skýrri framtíðarsýn. Það vekur furðu að fulltrúar Samfylkingarinnar skuli nú leggja fram í bæjarstjórn nánast nákvæmlega sömu tillögu og þegar hefur verið samþykkt samhljóða í fjölskylduráði, að frumkvæði meirihlutans. Slíkt teljum við ekki þjóna málefnalegri umræðu eða vinnu bæjarstjórnar. Þó það sé alltaf ánægjulegt þegar fleiri taka undir góðar tillögur, þá er það sérkennilegt að kalla eftir samþykkt á tillögu sem er þegar samþykkt og komin í vinnslu. Það breytir þó ekki því að við vinnum áfram að málinu með áherslu á að bæta þjónustu við eldra fólk í bænum.
Jón Ingi Hákonarson leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á að bæjaryfirvöld opni mötuneytið á Sólvangsvegi sem allra fyrst. Annað er okkur ekki samboðið. Deilur um hver eigi hvaða tillögu hér í bæjarstjórn er hjákátleg. Lögum þetta strax.
Guðmundur Árni Stefánsson leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa undrun sinni á afstöðu meirihluta bæjarstjórnar, sem vísa frá tillögu um eflingu þjónustu við íbúa að Sólvangsvegi 1 og 3. Það var hætt matarþjónstu um síðastliðin áramót og ekki brugðist við fyrr en fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar óskuðu eftir að málið yrði tekið upp í Fjölskylduráði. Þjónusta við eldri borgara er augljóslega brokkgeng og ekki í forgangi á ríkjandi meirihluta bæjarstjórnar og sýnir sig best í því, að geta ekki stutt tillögu frá jafnaðarfólki í bæjarstjórn sem tekur af öll tvímæli um vilja bæjarstjórnar til þess að taka málinu alvarlega að ganga í verkið strax.
| | |
| 5. 1809463 - Öldungaráð | Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá og að erindisbréf Öldungaráðs sem samþykkt var á fundi fjölskylduráðs þann 1. október 2024 verði tekið til afgreiðslu bæjarstjórnar. | Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Jóhanna Erla Guðjónsdóttir tekur til andsvars.
Samþykt samhljóða. | | |
| 6. 2504676 - Jafnréttisstefna Hafnarfjarðbæjarn 2025 | Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir málinu á dagskrá sem og að jafnréttisstefnan verði tekin til afgreiðslu af hálfu bæjarstjórnar. | Kolbrún Magnúsdóttir tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki að vísa Jafnréttisstefnu Hafnarfjarðarbæjar 2025 aftur til bæjarráðs til frekari skoðunar í ljósi þeirra ábendinga sem fram hafa komið einnig leggjum við til að stefnan verði sett í samráðsgátt svo íbúar fái tækifæri til að taka þátt í að móta stefnu bæjarins líkt og gert var við Umhverfisstefnu Hafnarfjarðar, sem reyndist vel. Slíkar vinnureglur ættum við að tileinka okkur í vinnubrögðum bæjarins.
Valdimar Víðisson tekur þá til andsvars.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls.
Samþykkt samhljóða.
| | |
| | | 7. 2501140 - Fundargerðir 2025, til kynningar í bæjarstjórn | Fundargerð fjölskylduráðs frá 29.apríl sl. Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 30.apríl sl. Fundargerð fræðsluráðs frá 30.apríl sl. Fundargerð bæjarráðs frá 2. maí sl. a. Fundargerð hafnarstjórnar frá 22. apríl sl. b. Fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 31.mars og 28.apríl sl. c. Fundargerðir menningar- og ferðamálanefndar frá 9. og 23. apríl sl. d. Fundargerð stjórnar Slökkvliðs höfuðborgarsvæðisins frá 21. mars sl. e. Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14., 19., og 20. mars 4. og 11. apríl sl. f. Fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 2. og 23. apríl sl. g. Fundargerðir stjórnar SSH frá 7. og 14. apríl sl. h. Fundargerð eigendafundar Strætó bs. frá 14.apríl sl. i. Fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 28.febrúar, 14. mars og 11. apríl sl. Fundargerð forsetanefndar frá 5. maí sl. | Kristín María Thoroddsen tekur til máls undir 11. lið frá fundi fræðsluráðs 30. apríl sl. þar sem fjallað var um tillögur ungmennaráðs.
| | |
| | | 8. 2412949 - Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2024 og fyrirtækja hans, síðari umræða | 7.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 30.apríl sl. 1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 10.apríl sl. Lagt fram. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri, Andri Berg Haraldsson og Kristjana Sigurðardóttir mæta til fundarins.
Bæjarráð vísar ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Valdimar Víðisson tekur til máls. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Ingi Hákonarson, Árni Rúnar Þorvaldsson. Valdimar Víðisson kemur til andsvars við ræðu Árna Rúnars sem svarar andsvari. Valdimar kmeur til andsvars öðru sinni sem Árni Rúnar svarar. Valdimar kemur að stuttri athugasemd.
Guðmundur Árni tekur þá til máls öðru sinni. Valdimar kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars öðru sinni sem Guðmundur Árni svarar.
Forseti leggur næst til að fyrirliggjandi ársreikning verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Er það samþykkt samhljóða.
Valdimar kemur að svohljóðandi bókun:
Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks koma að svohljóðandi bókun. Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Ársreikningurinn sýnir að við höfum haldið traustum tökum á rekstri bæjarins. Árið 2024 lauk með jákvæðri niðurstöðu fyrir A- og B-hluta bæjarins, með rekstrarafgang upp á 1.208 milljónir króna. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 3.734 milljónum króna og var 974 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri hækkar úr 5,6% af heildartekjum í 7,6% af heildartekjum sem er góð hækkun á milli ára. Fjárhagsáætlanir gerir ráð fyrir enn frekari hækkun á næstu árum sem veitir okkur svigrúm til að halda áfram að fjárfesta í grunnþjónustu, innviðum og menningar- og félagsstarfi fyrir íbúa bæjarins. Samhliða traustum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Þá nýtur bærinn nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum í auknum fasteignagjöldum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að halda álögum á íbúa niðri.
Árni Rúnar kemur að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun: Niðurstaða ársreiknings Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2024 og þar með fjárhagsleg afkoma bæjarins eru mikil vonbrigði en koma þó ekki á óvart miðað við þau lausatök, þann skort á framtíðar- og yfirsýn og stjórnleysi, sem einkenna verklag og verkleysi meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við stjórn Hafnarfjarðarbæjar.
Lykiltölur tala sínu máli og eru því miður allar á einn veg - fjárhagur bæjarins versnar: Skuldir hjá lánastofnunum hækka um fjóra milljarða, enn eitt árið á kjörtímabilinu enda eru nú heildarskuldir og skuldbindingar orðnar meira en 70 milljarðar króna. Rekstur bæjarins er í járnum og skilar engu til verklegra framkvæmda eða mannvirkjagerðar. Framkvæmdir eru teknar að láni og fjárhagslegum götum er lokað tímabundið með lóðasölu. Tekjur af lóðasölu umfram kostnað við gatnagerð og innviðauppbyggingu við lóðirnar eru meira en 4 milljarðar króna.
Á sama tíma er látið reka á reiðanum og uppsöfnuð innviðaskuld hvað varðar grunnþjónustu og uppbyggingu, hækkar ár frá ári, þótt hennar sé í engu getið í ársreikningnum. Svigrúm til uppbyggingar og bættrar þjónustu þrengist ár frá ári. Jafnaðarmenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa ítrekað varað við þessari öfugþróun, en meirihluti bæjarstjórnar skellt við skollaeyrum.
Samfylkingin hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir þar sem óskað er skýringa á ýmsum stórum færslum í reikningnum. Vænst er svara við þeim hið allra fyrsta. Við síðari umræðu, þegar öll kurl verða komin til grafar, mun Samfylkingin gera nánari grein fyrir afstöðu sinni: 1. Í athugasemdum nr. 21, Ábyrgðir og skuldbindingar utan efnahagsreiknings er að finna málsgrein varðandi Tækniskólann. Þar er getið um samkomulag frá í maí (júní?) 2024 og skuldbindingar bæjarins þar um. Getið er um framlag að upphæð 4,4 milljarðar króna. Óskað er eftir sundurliðun á þessum skuldbindingum, upphæð stofnframlags Hafnarfjarðarbæjar, kostnaður við uppkaup lóða (sundurliðað eftir einstökum lóðum) og spurt er hvers vegna þessa skuldbindingar eru ekki tímasettar í ljósi þess að samningurinn kveður á um lúkningu framkvæmda 2029. 2. Undir sama 21. lið er fjallað um lífeyrisskuldbindingar bæjarins. Þar er vísað til skuldbindinga upp á 1.154 ma króna, skráðar á "aðrar stofnanir og fyrirtæki" og því ekki eru færðar til skuldbindinga í ársreikningi. Spurt er: Hvaða stofnanir og fyrirtæki er um að ræða? Og hvers vegna hefur ekki verið gengið formlega frá samkomulagi um þessar skuldbindingar og hvers vegna eru skuldbindingarnar ekki færðar í ársreikning í varúðarskyni. 3. Óskað er eftir sundurliðun og greinargerð með varanlegum verklegum fjárfestingum (fasteignir og mannvirki) og sundurliðun um verklegar framkvæmdir, götur og opin svæði, hins vegar. 4. Í skýringum, nr. 11 Langtímakröfur, er getið um leigukröfu á hendur ríkissjóði vegna hjúkrunarheimilis. Uppsöfnuð krafa er sem dregin er frá skuldum er upp á 2.646.818. Hver er staða þessarar kröfu og hver er afstaða ríkissjóðs til hennar? 5. Leigu- og afnotasamningur Hafnarfjarðarbæjar til 25 ára vegna Áslandsskóla rennur út á næstu árum. Spurt er: Hverjar eru ársgreiðslur bæjarins vegna þessa til eiganda mannvirkis? Eru hafnar viðræður um kaup á mannvirkinu eða áframhaldandi leigu að leigutíma loknum? Hvaða aðrir valkostir eru til staðar ef samningar nást ekki? Hafa þessar skuldbindingar sem falla á bæinn á næstu misserum verið metnar í ársreikningi bæjarins og þá hvernig? 6. Hversu háar upphæðir voru innheimtar á árinu af lóðagjöldum, gatnagerðargjöldum annars vegar og byggingarréttargjöldum hins vegar? Hversu háum upphæðum var varið á árinu til gatnagerðar og annarra framkvæmda til að gera lóðir byggingarhæfar? Óskað er eftir sundurliðun eftir hverfum. 7. Í skýringum nr. 19, er þess getið að mismunur innheimtra gatnagerðargjalda og kostnaðar vegna viðkomandi verkefnis sé gerður upp í verklok. Óskað er eftir sýnidæmum við uppgjör af þeim toga við hverfi bæjarins. 8. Ljóst er einnig að á umliðnum árum hafa tekjur vegna gatnagerðargjalda jafnan verið mun hærri en kostnaður innan sama árs. Hvernig hafa þessi skil á milli tekna og gjalda verið síðustu 5 ár, sundurliðuð eftir árum og samandregið. 9. Hverjar hafa verið tekjur af byggingarréttargjöldum síðustu fimm ár, sundurliðað eftir árum og einstökum hverfum, á verðlagi hvers árs og einnig á föstu verðlagi 2025. Þau eru gjarnan skýrð sem kostnaður við framtíðar innviði, svo sem skóla og aðra þjónustu. Hvernig hefur ráðstöfun þessar tekna af byggingarréttargjöldum verið háttað síðastliðin fimm ár. 10. Hefur verið lagt mat á "innviðaskuld" bæjarfélagsins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Hrauni vestur, frá iðnaði og þjónustu í íbúðabyggð, svo sem varðandi byggingu skóla, leikskóla og annarrar grunnþjónustu?
Jón Ingi kemur að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúi Viðreisnar bókar. Rekstrarniðurstaða A hluta er ekki 117 milljónir í plus, hún er neikvæð upp á 650 milljónir. Mismunurinn er tekjufærsla gatanagerðargjalda upp á 767 milljónir. Gatnagerðargjöld eru einskiptis greiðslur húsbyggjenda og tilgangur þeirra er ekki að standa undir grunnrekstri sveitarfélagsins. Hallarekstur bæjarins er því niðurgreiddur af húsbyggjendum í Hafnarfirði samkvæmt rekstrarreikningi enn eitt árið. Þau eru innheimt til að lækka fjárfestingarþörf bæjarins og lækka þar með lánsfjárþörfina. Hallinn er falinn enn og aftur með bókhaldlegum fegrunaraðgerðum. 11 gr reglugerðar um ársreikninga er skýr; ekki á að tekjufæra gatnagerðargjöld. Fulltrúi Viðreisnar hefur ítrekað bent á þetta en ekki verið hlustað. Uppsafnaður rekstrarhalli bæjarsjóðs í tíð þessa meirihluta eru rúmir 4 milljarðar króna. Þessi halli hefur verið verið falinn eins og áður hefur komið fram. 4 milljarðar á þremur árum er ekki merki um sterka fjármálastjórn meirihlutans. Það er einnig hjákátlegt að fylgjast með meirihlutanum fara með himinskautum á samfélagsmiðlum tilkynna það að bærinn sé rekinn með 1200 milljóna afgangi. Ekkert er fjarri sannleikanum. Hafnarfjarðarhöfn, vatnsveitan og fráveitan bera uppi þennan árangur. Sá árangur hefur ekkert með bæjarsjóð að gera. Góðu fréttirnar eru þær að handbært fé frá rekstri hefur aukist um rúma 3 milljarða sem er jákvætt. Þegar rekstur aðalsjóðs er rýndur þá má sjá að þar hefur staðan lagast um tæpa 2,4 milljarða. Helstu ástæður þess eru þær að skuldbindingar vegna lífeyrisgreiðslna er 425 milljónum lægri. Lífeyrisskuldbindingar Hafnarfjarðar munu fara lækkandi næstu árin vegna fækkunar lífeyrisþega. Niðufærsla á kostnaði vegna gatnagerðargjalds er 455 milljónir, en þetta er einungis bókhaldsleg tala. Einnig stafar þetta af áætluðum launahækkunum upp 900 milljónum en þunginn vegna launahækkana mun koma að fullu fram á þessu ári. Bara þessir þrír þættir skýra tæplega 1,8 milljarða batann á rekstri aðalsjóðs á síðasta ári. Engin þessara skýringa hafa eitthvað að gera með fjármálastjórnun meirihlutans. Einnig má nefna að lægri verðbólga og vextir hafa haft jákvæð áhrif á reksturinn. Langtímaskuldir bæjarsjóðs hækka um 4 milljarða milli ára. Ný langtímalán eru tæplega 4 milljarðar og afborganir á móti eru tæplega 2 milljarðar, þannig að verðtryggingin hækkar langtímalánin um 2 milljarða á síðasta ári. Stóra verkefni nýs meirihluta á næsta ári verður að koma grunnrekstri bæjarins í jafnvægi. Að reglulegar tekjur nái að standa undir reglulegum kostnaði. Það var von mín að Sjálfstæðisflokkurinn hefði kjark og aga til að taka til í rekstrinum á þessu kjörtímabili eins og flokkurinn gefur sig út fyrir að stana fyrir. Þær vonir hafa ekki ræst. Viðreisn mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð á næsta kjörtímabili að koma grunnrekstri Hafnarfjarðar í sjálbært horf. | Til máls tekur Valdimar Víðisson. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson og Jón Ingi Hákonarson. Valdimar kemur til andsvars við ræðu Jóns Inga. Þá taka Hildur Rós Guðbjargardóttir og Rósa Guðbjartsdóttir til máls. Jón Ingi kemur til andsvars við ræðu Rósu, einnig kemur Guðmundur Árni til andsvars.
Næst ber forseti fyrirliggjandi ársreikning upp til atkvæða. Er hann samþykktur samhljóða.
Valdimar Víðisson leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihluta Framsóknar og sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun: Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Ársreikningurinn sýnir að við höfum haldið traustum tökum á rekstri bæjarins. Árið 2024 lauk með jákvæðri niðurstöðu fyrir A- og B-hluta bæjarins, með rekstrarafgang upp á 1.208 milljónir króna. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 3.734 milljónum króna og var 974 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri hækkar úr 5,6% af heildartekjum í 7,6% af heildartekjum sem er góð hækkun á milli ára. Fjárhagsáætlanir gerir ráð fyrir enn frekari hækkun á næstu árum sem veitir okkur svigrúm til að halda áfram að fjárfesta í grunnþjónustu, innviðum og menningar- og félagsstarfi fyrir íbúa bæjarins. Samhliða traustum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Þá nýtur bærinn nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum í auknum fasteignagjöldum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að halda álögum á íbúa niðri.
Guðmundur Árni Stefánsson leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun: Niðurstaða ársreiknings Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2024 er mikil vonbrigði og hún sýnir að fjárhagsleg afkoma bæjarins er ekki sterk. En þessi niðurstaða kemur ekki á óvart miðað við þau lausatök og stjórnleysi sem einkenna vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við stjórn bæjarins á undanförnum árum. Einnig endurspeglar niðurstaðan svo ekki verður um villst það stefnuleysi og þann skort á framtíðarsýn sem einkennir störf meirihlutans á kjörtímabilinu. “Þetta reddast? hugarfarið virðist ráðandi þegar verklag meirihlutans er annars vegar. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram fyrir fyrri umræðu um ársreikning 10 fyrirspurnir um ýmis fjárhagsleg málefni bæjarins, sem fjármálastjóri bæjarins svaraði á síðasta fundi bæjarráðs 2.maí síðastliðinn og eru spurningarnar og svörin að finna í fundargerð. Meðal upplýsinga sem þar er að finna, er staðfesting á þeim varnaðarorðum sem Samfylkingin hefur haldið á lofti allt þetta kjörtímabil; að viðvarandi rekstrarhalla bæjarsjóðs hefur verið mætt með a) tekjum af eins skiptis gatnargerðar- og byggingarréttargjöldum umfram kostnað við gatnagerð og b) nýjum lántökum og hækkandi skuldsetningu. Í svörum við fyrirspurnum Samfylkingarinnar kemur einnig fram, að nú eru að renna upp skuldadagar, þegar kemur að lokum leigutíma á umdeildri einkaframkvæmd í grunnskólum og leikskólum, sem ráðist var í upp úr síðustu aldamótum, þegar sömu flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fóru með meirihlutastjórn bæjarmála. Nú er leigutíminn á enda runninn, eftir að bæjarsjóður hefur greitt eigendum himinháar fjárhæðir áratugum saman til að tryggja grunn- og leikskólanemendum skjól og þjónustu. Á s.l. reikningsári var til dæmis leigugreiðsla sem bærinn greiddi eigendum vegna Áslandsskóla 234 milljónir. Fyrir eitt ár og einn skóla. Nú þarf að semja við eigendur skólahúsnæðis í Áslandsskóla, leikskólunum Tjarnarás og Hörðuvöllum um áframhaldandi leigu ellegar kaupa viðkomandi húsnæði. Ef samningar nást ekki, er vandinn ógnvekjandi, því þá er ekkert annað í spilunum en ráðast í byggingar skóla og leikskóla fyrir ungmenni Hafnarfjarðar með gríðarlegum kostnaði. Í svari bæjarins við fyrirspurnum bæjarfulltrúa jafnaðarmanna vegna þessa máls, segir m.a. að ef ekki nást samningar við húseigendur Áslandsskóla: ?Að öðrum kosti mun bæjarfélagið hefja undirbúning annarra leiða til að tryggja framtíðar skólahúsnæði.? Þetta mál sýnir í hnotskurn að bæjarfélagið sjálft þarf að byggja og eiga mannvirki sem falla undir grunnþjónustu í bænum eins og verið hefur stefna jafnaðarfólks. Þá vekur það nokkra athygli í svörum við fyrirspurnum frá bæjarfulltrúum jafnaðarmanna, að óumdeild skuldbinding bæjarins vegna nýs Tækniskóla upp á 4,4 milljarðar (verðlag janúar 2023) er færð utan efnahagsreiknings. Það skýtur skökku við í ljósi þess að í samningi aðila um framkvæmdina skal Hafnarfjarðarbær leggja verkefninu til a.m.k. 4,4 milljarða í formi lóðar, byggingaheimilda og fjármuna. Algjörlega er ljóst að þessi greiðsla verður innt af hendi ekki síðar en á þessu og næsta ári, enda eru verklok við skólann áformuð á árinu 2029. Ekki verður hafist handa við framkvæmdir fyrr en lóð sú sem Hafnarfjarðarbær ábyrgist að verði tilbúin kvaðalaust verði tilbúin. Er illskiljanlegt að verið sé að fela skuldbindingar af þessum toga og bera við óvissu um tímasetningar. Fleiri atriði af ólíkum toga væri ástæða til að tilfæra, en meginatriðið, sem upp úr stendur í fyrirliggjandi ársreikningi, er að það hallar á hinn verri veg hvað varðar fjárhagslega afkomu bæjarsjóðs. Allir mælikvarðar vísa í öfuga átt og til verri vegar, hvort heldur það er skuldahlutfall bæjarins, skuldaviðmið bæjarsjóðs, aukning á nýjum lántökum upp á tæpa fjóra milljarða og umtalsverð aukning á heildarskuldum bæjarins. Á sama tíma er ákalli bæjarbúa um styrkari stöðu velferðar og almennrar þjónustu í bæjarfélaginu um uppbyggingu grunnþjónustu ýtt á undan sér. Þess skal getið að afkoma Hafnarsjóðs og veitustofnana er traust. Hjá hafnarsjóði eru framundan stór og mikilvæg verkefni, svo sem smábáta- og skemmtibátahöfn við Strandgötu og svo risaverkefnið um nýja stórskipahöfn í Straumsvík. Þá skal minnt á margítrekaðar tillögur endurskoðenda bæjarreikninga, PWC (PricewaterhouseCoopers ehf.) sem einnig er að finna í Endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2024, þar sem kallað er eftir sérstakri Endurskoðendanefnd vegna almannahagsmuna. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lagt fram tillögur í þá veru í bæjarstjórn, en ekki fengið stuðning helmingaskiptaflokkanna í meirihluta bæjarstjórnar. Verður þeirri baráttu fram haldið. Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar og stofnana hans gefur um margt glögga mynd af þróun mála í bæjarfélaginu á umræddu ári. Sumt hefur færst til betri vegar en alltof margt í hina áttina. Pólitískar áherslur meirihluta bæjarstjórnar hafa verið óljósar og ómarkvissar og ítrekaður tillöguflutningur okkar jafnaðarmanna til að færa mál til betri vegar hefur fallið í grýtta jörð hjá helmingaskiptaflokkunum sem fara með meirihlutavald í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ársreikningurinn lýsir staðreyndum. Staðreyndir sem eru um margt óþægilegar og truflandi, en staðreyndir engu að síður. Í því ljósi munu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiða atkvæði með samþykkt ársreikningsins. Við getum þó gert betur.
Jón Ingi Hákonarson leggur fram eftirfarandi bókun:
Bókun Viðreisnar Þriðja árið í röð skilar meirihlutinn bæjarsjóði í halla, nú upp á 650 milljónir, Uppsafnaður halli á kjörtímabilinu er að lágmarki rúmir fimm milljarðar. Í sann og reynd er uppsafnaður halli tæpir 10 milljarðar þegar leiðrétt er fyrir sölu á byggingarétti. Það er hvorki ábyrg eða góð fjármálastjórn. Yfirlýsingar meirihlutans um jákvæða afkomu stenst enga skoðun. Hér töframætti skapandi reikningsskila beitt af fullum þunga. Veltufé frá rekstri upp á 1,7 milljarð er tilkominn lækkunar á óinnheimtum tekjum frá fyrri árum upp á 1,3 milljarða og lækkun lífeyrisskuldbindinga upp á 425 milljóna. Handbært fé frá rekstri hækkar um rúma þrjá milljarða og er nú rúmir 2,5 milljarðar. Það skýrist af ofnagreindu veltufé auk þess sem viðskiptaskuldir síðasta árs hækkuðu um 600 milljónir. Með öðrum orðum þá voru reikningar sem greiða átti fyrir áramót greiddir eftir áramót, það eitt og sér hækkar handbært fé frá rekstri ársins. Sjóðsstreymið geymir öll leyndarmálin. Þar sést glögglega að 1,8 milljarður (767 milljónir í gatnagerðargjöldum og 1.014.784 milljónir í sölu byggingaréttar) er færður frá rekstrinum yfir í fjárfestingar og villan því leiðrétt. Á þessum tíma hafa gatnagerðargjöld upp á rúmlega fjóra milljarða verið notaðir til að niðurgreiða grunnreksturinn og sala byggingaréttar upp á 5 milljarða verið notað til þess líka. Samtals hefur grunnreksturinn verið niðurgreiddur með tekjum sem nota á til fjárfestingar. Af þeim sökum hefur fjárfestingarþörf bæjarins verið mætt með lántökum í stað þess að geta nýtt gatnagerðargöldin og lóðasölu til lækkunar á lánsfjárþörf. Þetta er ógagnsætt og óásættanlegt. Það er ljóst að komandi ár verður krefjandi þar sem launahækkanir munu auka mjög á rekstrargjöld þessa árs. Ekki eru nein teikn á lofti um viðbrögð meirihlutans gagnvart þeim kostnaðarauka.
Það er með öllu óverjandi að ársreikningur þriðja stærsta sveitarfélags landsins skuli ekki vera gagnsær og auðlesinn öllum þeim sem vilja kynna sér rekstur sveitarfélagsins. Öllu verra er þegar meirihlutinn er farinn að trúa eigin sjónhverfingum og telja í raun og sann að grunnreksturinn sé í blóma. Tæpir 5 milljarðar í mínus á þremur árum vegna tekjufærslu gatnagerðargjalda segir aðra sögu og 10 milljarðar í mínus þegar lóðasalan er tekin með. Langtímaskuldir bæjarins ættu því að vera lægri sem þessu nemur. Grunnreksturinn þarf viðreisnar við.
| Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2024 - Bæjarstjórn 07.05.2025.pdf | | |
|
| | Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:12 |
|