Til bakaPrenta
Bæjarstjórn - 1953

Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg,
30.04.2025 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Valdimar Víðisson bæjarstjóri,
Kristinn Andersen forseti,
Rósa Guðbjartsdóttir aðalmaður,
Skarphéðinn Orri Björnsson aðalmaður,
Kristín María Thoroddsen aðalmaður,
Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður,
Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
Stefán Már Gunnlaugsson aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Ívar Bragason, Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður
Kristinn Andersen setti fundinn og stýrði honum. Í upphafi fundar lagði forseti til að málið Almenningssamgöngur yrði tekið inn á dagskrá fundarins og var það samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2205659 - Ráð og nefndir 2022 - 2026, kosningar
Breyting á fulltrúa Viðreisnar í fræðsluráði:
Júlíus Andri Þórðarson Lindarbergi 6 kemur inn sem varaáheyrnarfulltrúi í fræðsluráð í stað Auðbergs Magnússonar.
Samþykkt samhljóða.
2. 2412631 - Almenningssamgöngur
3. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 3. apríl sl.

Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóra verði veitt fullt umboð til undirritunar eftirfarandi skjala:

1. Hluthafasamkomulag um stjórnskipulag og eignarhald félagsins Almenningssamgangna ohf.
2. Samþykktir fyrir hlutafélagið Almenningssamgöngur ohf.
3. Stofnsamningur fyrir hlutafélagið Almenningssamgöngur ohf.

Vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
Valdimar Víðisson tekur til máls. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Ingi Hákonarson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Forseti ber upp tillögu um að bæjarstjórn samþykki fyrir hönd Hafnarfjarðarkaupstaðar stofnsamning, samþykktir og hluthafasamkomulag Almenningssamgangna ohf., félags um rekstur almenningssamgangna. Bæjarstjórn veitir bæjarstjóra umboð til að undirrita og staðfesta gögn varðandi Almenningssamgöngur ohf. fyrir hönd Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Samþykkt samhljóða.
Kynning borgar_bæjarrað 030425.pdf
d) Stofnsamningur Almenningssamgongur ohf..pdf
b) Hluthafasamkomulag_almenningssamgongur ohf_.pdf
a) Minnisblað fulltrúa SSH í stýrihóp 270325.pdf
3. 2504581 - Ársreikningur Hafnarfjarðarhafnar 2024
1. liður úr fundargerð hafnarstjórnar frá 22. apríl sl.
Lagður fram ársreiknngur Hafnarfjarðarhafnar fyrir árið 2024.

Hafnarstjórn samþykkir ársreikning Hafnarfjarðarhafnar fyrir árið 2024 og vísar honum til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Kristín Thoroddsen tekur einnig til máls.

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu hafnarstjórnar og er ársreikningnum vísað til frekari umræðu og afgreiðslu í heildar ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar.

Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Viðreisnar lýsir yfir ánægju með glæsilegan rekstrarárangur Hafnarfjarðarhafnar og þakkar starfsfólki, stjórnendum og hafnarstjórn fyrir frábær störf.
4. 2503664 - Straumhella 16, umsókn um lóð
3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 10.apríl sl.
Lögð fram umsókn Þúsund fjala ehf. um lóðina nr. 16 við Straumhellu.

Tvær umsóknir liggja fyrir um lóðina og dregur fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin er út umsókn Þúsund fjala ehf. Til vara er Bæjarbyggð ehf. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni til Þúsund fjala ehf. og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Samþykkt samhljóða.
5. 2504007 - Dverghella 1, umsókn um lóð
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 10.apríl sl.
Lögð fram umsókn KB verks ehf. um lóðina nr. 1 við Dverghellu.

Fjórar umsóknir liggja fyrir um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin er út umsókn KB verks ehf. Til vara er dregin út umsókn Gunnars Bjarnasonar ehf. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni til KB verks ehf. og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Samþykkt samhljóða.
Fundargerðir
6. 2501140 - Fundargerðir 2025, til kynningar í bæjarstjórn
Fundargerð bæjarráðs frá 10.apríl sl.
Áætlanir og ársreikningar
7. 2412949 - Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2024 og fyrirtækja hans, fyrri umræða
1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 10.apríl sl.
Lagt fram. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri, Andri Berg Haraldsson og Kristjana Sigurðardóttir mæta til fundarins.

Bæjarráð vísar ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Valdimar Víðisson tekur til máls. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Ingi Hákonarson, Árni Rúnar Þorvaldsson. Valdimar Víðisson kemur til andsvars við ræðu Árna Rúnars sem svarar andsvari. Valdimar kmeur til andsvars öðru sinni sem Árni Rúnar svarar. Valdimar kemur að stuttri athugasemd.

Guðmundur Árni tekur þá til máls öðru sinni. Valdimar kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari. Valdimar kemur til andsvars öðru sinni sem Guðmundur Árni svarar.

Forseti leggur næst til að fyrirliggjandi ársreikning verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Er það samþykkt samhljóða.

Valdimar kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks koma að svohljóðandi bókun.
Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Ársreikningurinn sýnir að við höfum haldið traustum tökum á rekstri bæjarins. Árið 2024 lauk með jákvæðri niðurstöðu fyrir A- og B-hluta bæjarins, með rekstrarafgang upp á 1.208 milljónir króna. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 3.734 milljónum króna og var 974 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri hækkar úr 5,6% af heildartekjum í 7,6% af heildartekjum sem er góð hækkun á milli ára. Fjárhagsáætlanir gerir ráð fyrir enn frekari hækkun á næstu árum sem veitir okkur svigrúm til að halda áfram að fjárfesta í grunnþjónustu, innviðum og menningar- og félagsstarfi fyrir íbúa bæjarins.
Samhliða traustum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Þá nýtur bærinn nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum í auknum fasteignagjöldum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að halda álögum á íbúa niðri.

Árni Rúnar kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Niðurstaða ársreiknings Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2024 og þar með fjárhagsleg afkoma bæjarins eru mikil vonbrigði en koma þó ekki á óvart miðað við þau lausatök, þann skort á framtíðar- og yfirsýn og stjórnleysi, sem einkenna verklag og verkleysi meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við stjórn Hafnarfjarðarbæjar.

Lykiltölur tala sínu máli og eru því miður allar á einn veg - fjárhagur bæjarins versnar: Skuldir hjá lánastofnunum hækka um fjóra milljarða, enn eitt árið á kjörtímabilinu enda eru nú heildarskuldir og skuldbindingar orðnar meira en 70 milljarðar króna. Rekstur bæjarins er í járnum og skilar engu til verklegra framkvæmda eða mannvirkjagerðar. Framkvæmdir eru teknar að láni og fjárhagslegum götum er lokað tímabundið með lóðasölu. Tekjur af lóðasölu umfram kostnað við gatnagerð og innviðauppbyggingu við lóðirnar eru meira en 4 milljarðar króna.

Á sama tíma er látið reka á reiðanum og uppsöfnuð innviðaskuld hvað varðar grunnþjónustu og uppbyggingu, hækkar ár frá ári, þótt hennar sé í engu getið í ársreikningnum. Svigrúm til uppbyggingar og bættrar þjónustu þrengist ár frá ári. Jafnaðarmenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa ítrekað varað við þessari öfugþróun, en meirihluti bæjarstjórnar skellt við skollaeyrum.

Samfylkingin hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir þar sem óskað er skýringa á ýmsum stórum færslum í reikningnum. Vænst er svara við þeim hið allra fyrsta. Við síðari umræðu, þegar öll kurl verða komin til grafar, mun Samfylkingin gera nánari grein fyrir afstöðu sinni:
1. Í athugasemdum nr. 21, Ábyrgðir og skuldbindingar utan efnahagsreiknings er að finna málsgrein varðandi Tækniskólann. Þar er getið um samkomulag frá í maí (júní?) 2024 og skuldbindingar bæjarins þar um. Getið er um framlag að upphæð 4,4 milljarðar króna. Óskað er eftir sundurliðun á þessum skuldbindingum, upphæð stofnframlags Hafnarfjarðarbæjar, kostnaður við uppkaup lóða (sundurliðað eftir einstökum lóðum) og spurt er hvers vegna þessa skuldbindingar eru ekki tímasettar í ljósi þess að samningurinn kveður á um lúkningu framkvæmda 2029.
2. Undir sama 21. lið er fjallað um lífeyrisskuldbindingar bæjarins. Þar er vísað til skuldbindinga upp á 1.154 ma króna, skráðar á "aðrar stofnanir og fyrirtæki" og því ekki eru færðar til skuldbindinga í ársreikningi. Spurt er: Hvaða stofnanir og fyrirtæki er um að ræða? Og hvers vegna hefur ekki verið gengið formlega frá samkomulagi um þessar skuldbindingar og hvers vegna eru skuldbindingarnar ekki færðar í ársreikning í varúðarskyni.
3. Óskað er eftir sundurliðun og greinargerð með varanlegum verklegum fjárfestingum (fasteignir og mannvirki) og sundurliðun um verklegar framkvæmdir, götur og opin svæði, hins vegar.
4. Í skýringum, nr. 11 Langtímakröfur, er getið um leigukröfu á hendur ríkissjóði vegna hjúkrunarheimilis. Uppsöfnuð krafa er sem dregin er frá skuldum er upp á 2.646.818. Hver er staða þessarar kröfu og hver er afstaða ríkissjóðs til hennar?
5. Leigu- og afnotasamningur Hafnarfjarðarbæjar til 25 ára vegna Áslandsskóla rennur út á næstu árum. Spurt er: Hverjar eru ársgreiðslur bæjarins vegna þessa til eiganda mannvirkis? Eru hafnar viðræður um kaup á mannvirkinu eða áframhaldandi leigu að leigutíma loknum? Hvaða aðrir valkostir eru til staðar ef samningar nást ekki? Hafa þessar skuldbindingar sem falla á bæinn á næstu misserum verið metnar í ársreikningi bæjarins og þá hvernig?
6. Hversu háar upphæðir voru innheimtar á árinu af lóðagjöldum, gatnagerðargjöldum annars vegar og byggingarréttargjöldum hins vegar? Hversu háum upphæðum var varið á árinu til gatnagerðar og annarra framkvæmda til að gera lóðir byggingarhæfar? Óskað er eftir sundurliðun eftir hverfum.
7. Í skýringum nr. 19, er þess getið að mismunur innheimtra gatnagerðargjalda og kostnaðar vegna viðkomandi verkefnis sé gerður upp í verklok. Óskað er eftir sýnidæmum við uppgjör af þeim toga við hverfi bæjarins.
8. Ljóst er einnig að á umliðnum árum hafa tekjur vegna gatnagerðargjalda jafnan verið mun hærri en kostnaður innan sama árs. Hvernig hafa þessi skil á milli tekna og gjalda verið síðustu 5 ár, sundurliðuð eftir árum og samandregið.
9. Hverjar hafa verið tekjur af byggingarréttargjöldum síðustu fimm ár, sundurliðað eftir árum og einstökum hverfum, á verðlagi hvers árs og einnig á föstu verðlagi 2025. Þau eru gjarnan skýrð sem kostnaður við framtíðar innviði, svo sem skóla og aðra þjónustu. Hvernig hefur ráðstöfun þessar tekna af byggingarréttargjöldum verið háttað síðastliðin fimm ár.
10. Hefur verið lagt mat á "innviðaskuld" bæjarfélagsins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Hrauni vestur, frá iðnaði og þjónustu í íbúðabyggð, svo sem varðandi byggingu skóla, leikskóla og annarrar grunnþjónustu?

Jón Ingi kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúi Viðreisnar bókar.
Rekstrarniðurstaða A hluta er ekki 117 milljónir í plus, hún er neikvæð upp á 650 milljónir. Mismunurinn er tekjufærsla gatanagerðargjalda upp á 767 milljónir. Gatnagerðargjöld eru einskiptis greiðslur húsbyggjenda og tilgangur þeirra er ekki að standa undir grunnrekstri sveitarfélagsins. Hallarekstur bæjarins er því niðurgreiddur af húsbyggjendum í Hafnarfirði samkvæmt rekstrarreikningi enn eitt árið. Þau eru innheimt til að lækka fjárfestingarþörf bæjarins og lækka þar með lánsfjárþörfina. Hallinn er falinn enn og aftur með bókhaldlegum fegrunaraðgerðum. 11 gr reglugerðar um ársreikninga er skýr; ekki á að tekjufæra gatnagerðargjöld. Fulltrúi Viðreisnar hefur ítrekað bent á þetta en ekki verið hlustað.
Uppsafnaður rekstrarhalli bæjarsjóðs í tíð þessa meirihluta eru rúmir 4 milljarðar króna. Þessi halli hefur verið verið falinn eins og áður hefur komið fram. 4 milljarðar á þremur árum er ekki merki um sterka fjármálastjórn meirihlutans. Það er einnig hjákátlegt að fylgjast með meirihlutanum fara með himinskautum á samfélagsmiðlum tilkynna það að bærinn sé rekinn með 1200 milljóna afgangi. Ekkert er fjarri sannleikanum. Hafnarfjarðarhöfn, vatnsveitan og fráveitan bera uppi þennan árangur. Sá árangur hefur ekkert með bæjarsjóð að gera.
Góðu fréttirnar eru þær að handbært fé frá rekstri hefur aukist um rúma 3 milljarða sem er jákvætt. Þegar rekstur aðalsjóðs er rýndur þá má sjá að þar hefur staðan lagast um tæpa 2,4 milljarða. Helstu ástæður þess eru þær að skuldbindingar vegna lífeyrisgreiðslna er 425 milljónum lægri. Lífeyrisskuldbindingar Hafnarfjarðar munu fara lækkandi næstu árin vegna fækkunar lífeyrisþega. Niðufærsla á kostnaði vegna gatnagerðargjalds er 455 milljónir, en þetta er einungis bókhaldsleg tala. Einnig stafar þetta af áætluðum launahækkunum upp 900 milljónum en þunginn vegna launahækkana mun koma að fullu fram á þessu ári. Bara þessir þrír þættir skýra tæplega 1,8 milljarða batann á rekstri aðalsjóðs á síðasta ári. Engin þessara skýringa hafa eitthvað að gera með fjármálastjórnun meirihlutans. Einnig má nefna að lægri verðbólga og vextir hafa haft jákvæð áhrif á reksturinn.
Langtímaskuldir bæjarsjóðs hækka um 4 milljarða milli ára. Ný langtímalán eru tæplega 4 milljarðar og afborganir á móti eru tæplega 2 milljarðar, þannig að verðtryggingin hækkar langtímalánin um 2 milljarða á síðasta ári.
Stóra verkefni nýs meirihluta á næsta ári verður að koma grunnrekstri bæjarins í jafnvægi. Að reglulegar tekjur nái að standa undir reglulegum kostnaði. Það var von mín að Sjálfstæðisflokkurinn hefði kjark og aga til að taka til í rekstrinum á þessu kjörtímabili eins og flokkurinn gefur sig út fyrir að stana fyrir. Þær vonir hafa ekki ræst. Viðreisn mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð á næsta kjörtímabili að koma grunnrekstri Hafnarfjarðar í sjálbært horf.



Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2024 - Bæjarstjórn 30.04.2025.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:54 

Til bakaPrenta