Til bakaPrenta
Fjölskylduráð - 511

Haldinn í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6,
30.04.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Margrét Vala Marteinsdóttir formaður,
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir aðalmaður,
Helga Ingólfsdóttir varaformaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Auður Brynjólfsdóttir aðalmaður,
Árni Stefán Guðjónsson áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Ívar Bragason, ritari fjölskylduráðs og bæjarlögmaður


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2404826 - Umsókn um fjárhagslegan styrk
Lögð fram styrkbeiðni frá Bjarkarhlíð.
Fjölskylduráð samþykkir að veita Bjarkarhlíð kr. 600.000 í fjárhagslegan styrk.
Fjölskylduráð óskar jafnframt starfsemi Bjarkarhlíðar velfarnaðar í starfi.
Styrkbeiðni Bjarkarhlíð 30.4.2024.pdf
2. 2404541 - Fjárhagsaðstoð, fyrirspurn
Lögð fram svör við fyrirspurn Samfylkingarinnar.

Ólafur Heimir Guðmundsson sérfræðingur í hagdeild og Soffía Ólafsdóttir deildarstjóri ráðgjafar- og húsnæðismála mæta til fundarins.

Fjölskylduráð þakkar Ólafi Heimi Guðmundssyni og Soffíu Ólafsdóttur fyrir kynninguna.

Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar þakka greinargóð svör sem lögð voru fram á fundinum við fyrirspurn okkar frá síðasta fundi Fjölskylduráðs.
20240430 - Fjárhagsaðstoð v. fyrirspurnar Samfylkingarinnar 16.4.2024.pdf
3. 1809463 - Öldungaráð
Lögð fram umsögn Öldungaráðs um reglur um Öldungaráð.

Reglur um Öldungaráð lagðar fram til afgreiðslu.
Fjölskylduráð þakkar fulltrúum Öldungaráðs fyrir umsögn um breytingar á reglum um Öldungaráð. Öldungaráð í Hafnarfirði hefur verið starfandi frá árinu 2006 og hefur sinnt mikilvægu hlutverki sem rödd eldri borgara í Hafnarfirði og komið með fjölmargar ábendingar og tillögur til bæjaryfirvalda sem margar hafa fengið brautargengi og komið til framkvæmda. Fjölskylduráð vísar athugasemdum Öldungaráðs við breytingar á reglum um Öldungaráð til úrvinnslu á Fjölskyldu og barnamálasviði og felur sviðstjóra að gera tillögu að breytingum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar styðja það að afgreiðslu reglna um Öldungaráð verði frestað og taka undir sameiginlega bókun Fjölskylduráðs í dag. Mikilvægt er að breytingar á reglunum séu unnar í samráði og sátt við Öldungaráð. Samfylkingin telur einnig mikilvægt að áfram verði unnið að því að efla og styrkja allt starf notendaráða og samráðshópa og gera það sýnilegra. Það verði m.a. gert með því að fundargerðir samráðshópa verði birtar á sama stað á vef bæjarins og fundargerðir annarra ráða og nefnda bæjarfélagsins, eins og lengi hefur verið kallað eftir í Öldungaráði, og fái sambærilega umfjöllun í bæjarstjórn og aðrar fundargerðir.
Umsögn_drög að reglum um öldungaráð.pdf
4. 2401142 - Reglur um frístundastyrk fyrir íbúa 67 ára og eldri
Sviðsstjóri leggur reglur um frístundastyrk 67 ára og eldri fram til afgreiðslu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi breytingartillögu við framlagðar reglur um frístundastyrk fyrir íbúa 67 ára og eldri:

2. efnisgrein 2. gr. reglna um frístundastyrk fyrir íbúa 67 ára og eldri verði með eftirfarandi hætti:
Niðurgreiðslur eru tekjutengdar og eru veittar til einstaklinga sem eru með með tekjur samkvæmt skattframtali 2022, að 633.500 kr. á mánuði. Tekjuviðmið taka breytingum árlega miðað við breytingar á vísitölu neysluverð til verðtryggingar.

Greinin er svohljóðandi í drögum sem liggja fyrir fundinum:
Niðurgreiðslur eru tekjutengdar og eru veittar til einstaklinga sem eru með tekjur samkvæmt skattframtali 2022, að 442.912 kr. á mánuði. Tekjuviðmið fyrir hjón er 575.786 kr. á mánuði. Tekjuviðmið taka breytingum árlega miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Greinargerð:
Í umsögn Öldungaráðs frá 06.02.2024 kemur fram að ráðið telji viðmiðunarfjárhæðir vegna frístundastyrks of lágar og telur ráðið að fjöldi umsækjenda á síðasta ári sé til marks um það. Í greinargerð Öldungaráðs sem fylgir fyrrnefndri umsögn kemur fram að þær tekjur sem bærinn miðar við vegna niðurfellingar fasteignagjalda eigi betur við og muni leiða til þess að fleiri muni geta nýtt sér frístundastyrkinn. Fulltrúar Samfylkingarinnar taka undir þessi sjónarmið og leggja því til breytingu í þeim anda við þær reglur sem liggja fyrir fundi Fjölskylduráðs í dag.

Framkomin breytingartillaga er felld þar sem þrír fulltrúar greiða atkvæði gegn tillögunni en tveir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni.

Fjölskylduráð samþykkir reglur um frístundastyrk fyrir íbúa 67 ára og eldri og vísar þeim til staðfestingar í bæjarstjórn.

Það er ánægjulegt að viðmiðunarupphæð á tekjutengingu frístundastyrksins sé að hækka og ákvæði í nýju reglunum um að tekjuviðmið taki breytingum árlega þar sem miðað er við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Fjölskylduráð þakkar öldungarráði fyrir umsögnina og er tillögu um breytingar á tekjutengingu sem er í samræmi við niðufellingu fasteignagjalda vísað til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025.

Meirihluti fjölskylduráðs hefur ábyrga fjármálastjórnun að leiðarljósi í allri vinnu og leitast jafnframt ávallt við að halda góðu þjónustustigi.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar furða sig á því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafni tillögu Samfylkingarinnar um að færa tekjuviðmið vegna frístundastyrks fyrir íbúa 67 ára og eldri ekki upp til samræmis við tekjuviðmið vegna niðurfellingar fasteignagjalda og í samræmi við umsögn Öldungaráðs frá 6. febrúar sl. Fulltrúar Samfylkingarinnar samþykkja hins vegar reglurnar enda verið að hækka tekjuviðmið sem er skref í rétta átt en tökum hins vegar undir umsögn öldungaráðs og munum fylgja málinu eftir eins og kostur er.



Frístundastyrkur 67 - endurskoðun á reglum 9.1.2023.pdf
Reglur um frístundastyrki fyrir íbúa 67 ára og eldri 2024.pdf
5. 2310763 - Starfshópur um framtíðarsýn í málefnum fatlaðs fólks
Fulltrúar meirihlutans leggja fram tillögu.
Fulltrúar meirihlutans leggja fram eftirfarandi tillögu:

Eftir samtöl við fulltrúa samráðshóps um málefni fatlaðs fólks leggur meirihluti Framsóknar og Sjálftæðisflokks til að samráðshópurinn taki að sér verkefnið um starfshóp um framtíðarsýn í málefnum fatlaðs fólks.
Samráðshópurinn hefur líst yfir áhuga á þátttöku í starfshópnum og er því tilvalið að hópurinn taki verkefnið að sér.
Nánari verkefnalýsing fyrir vinnu að framtíðarsýn um málefni fatlaðs fólks má finna í erindisbréfi sem lagt hefur verið fram í fjölskylduráði.

Málinu er vísað til samráðshóps um málefni fatlaðs fólks til umfjöllunar.

Framangreint er samþykkt samhljóða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýna þann hringlanda sem hefur einkennt vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í málinu enda er hálft ár liðið síðan Fjölskylduráð samþykkti að útbúin yrðu drög að erindisbréfi fyrir starfshóp um framtíðarsýn í málefnum fatlaðs fólks. Ráðgjafaráð lýsti í umsögn sinni, dags. 6. feb. 2024, einróma ánægju sinni með þennan starfshóp en nú þremur mánuðum síðar kemur meirihlutinn fram með tillögu að setja ekki á laggirnar sérstakan starfshóp heldur fela samráðshópi um málefni fatlaðs fólks verkefnið. En í ljósi mikilvægi málsins sem hér er til umfjöllunar og til þess að halda því gangandi styðja fulltrúar Samfylkingarinnar að fyrirliggjandi tillögu meirihlutans verði vísað til samráðshóps um málefni fatlaðs fólks enda mikilvægt að samráðshópurinn hafi virka aðkomu að þessu máli á öllum stigum.



6. 2312015 - Aðstoð við ungt fólk sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir upplýsingum um stöðu málsins og næstu skref í því, sbr. afgreiðslu Fjölskylduráðs á fundi ráðsins þann 19. mars sl. og umræður um málið á síðasta fundi Fjölskylduráðs þann 16. apríl sl.
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja áherslu á að vinnuhópur sem Fjölskylduráð fól fjölskyldu- og barnamálasviði að setja saman á fundi ráðsins þann 19. mars sl. taki sem fyrst til starfa. Mikilvægt er að Hafnarfjörður útfæri með hvaða hætti bærinn kemur best til móts við þennan hóp ungs fólks sem er í viðkvæmri stöðu og það er brýnt grípa þennan hóp ungmenna eins fljótt og mögulegt er með markvissum og skilvirkum aðferðum til þess að valdefla þau og aðstoða til sjálfshjálpar. Þess vegna leggja fulltrúar Samfylkingarinnar áherslu á að þessari vinnu sé hraðað eins og kostur er og að Fjölskylduráð fái reglulega upplýsingar um gang vinnunnar.

7. 2307268 - Hringhamar 43, hjúkrunarheimili og heilsugæsla, tilboð
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðu um málið. Fyrirspurn.
Fjölskylduráð óskar eftir kynningu frá fulltrúum Sóltúns á næsta fundi ráðsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:
1. Liggja fyrir nauðsynlegir samningar milli ríkis, bæjar og Sóltúns um fjármögnun, annars vegar vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis að Hringhamri 43 og hins vegar vegna reksturs?
2. Hvenær má búast við því að framkvæmdir hefjist við uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis að Hringhamri 43?
3. Á bæjarstjórnarfundi þann 22. nóvember 2023 bókaði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að í viðræðum bæjarins við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefði komið fram skýr vilji til þess að byggja upp nýja og glæsilega heilsugæslu í Hafnarfirði sem myndi þjóna allt að 20.000 manns og að hentugasta staðsetningin væri miðsvæði Valla. Í bókuninni var tekið fram að vonir stæðu til að á allra næstu mánuðum yrði tekin ákvörðun um þá uppbyggingu. Síðan eru liðnir 6 mánuðir, rúmlega hálft ár, og því eru eftirfarandi fyrirspurnir lagðar fram:
a. Hvenær mun ákvörðun um uppbyggingu nýrrar heilsugæslu á miðsvæði Valla liggja fyrir?
b. Hefur staðsetning nýrrar heilsugæslu verið ákveðin og hefur henni verið mörkuð lóð innan bæjarmarkanna?
c. Hversu margir fundi hafa bæjarstjóri og eftir atvikum sviðsstjórar sveitarfélagsins átt með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisráðuneytinu vegna málsins frá því fyrrnefnd bókun var lögð fram í bæjarstjórn þann 22. nóvember sl.?
8. 2304615 - Málefni heimilislausra
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðu um málið og óska eftir að svör við fyrirspurn frá fundi Fjölskylduráðs þann 5. mars sl. verði lögð fram.
Svör við fyrirspurn munu liggja fyrir á næsta fundi fjölskylduráðs.
Fundargerðir
9. 0701243 - Málskot
Fjölskylduráð staðfestir afgreiðslu málsskotsnefndar í máli nr. 8/2024.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta