Til bakaPrenta
Bæjarstjórn - 1936

Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg,
28.08.2024 og hófst hann kl. 14:00
Fundinn sátu: Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri,
Kristinn Andersen forseti,
Skarphéðinn Orri Björnsson aðalmaður,
Kristín María Thoroddsen aðalmaður,
Valdimar Víðisson aðalmaður,
Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður,
Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður,
Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður,
Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður,
Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Ívar Bragason, Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 1102236 - Bæjarfulltrúi,leyfi
Sigrún Sverrisdóttir óskar eftir að fara í leyfi frá störfum í bæjarstjórn og bæjarráði frá 1. september 2024 til 1. ágúst 2025.

Stefán Már Gunnlaugsson, Drangaskarði 17B, varabæjarfulltrúi tekur sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn á ofangreindu tímabili.
Samþykkt samhljóða.
2. 2205659 - Ráð og nefndir 2022 - 2026, kosningar
Kosning í bæjarráð:
Árni Rúnar Þorvaldsson, Stekkjarhvammi 5, aðalmaður í bæjarráði í stað Sigrúnar Sverrisdóttur og Stefán Már Gunnlaugsson verður varamaður í stað Árna Rúnars Þorvaldssonar.
Samþykkt samhljóða. Einnig samþykkt samhljóða að Stefán Már Gunnlaugsson komi í stað Sigrúnar sem annar skrifari bæjarstjórnar.
3. 2407481 - Sorpa, ESA mál
2.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 22.ágúst sl.
Tekjuskattsundanþága byggðasamlaga - breytt rekstrarform efnahagslegrar starfsemi.

Bæjarráð samþykkir að efnahagsleg starfsemi Sorpu bs. verði færð í félag, eða eftir atvikum félög, með takmarkaðri ábyrgð. Efnahagsleg starfsemi í þessu tilliti tekur til reksturs móttöku- og flokkunarstöðvar í Gufunesi, gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi og urðunarstað á Álfsnesi. Tillögur um nánari útfærslur þessa munu liggja fyrir í upphafi árs 2025. Framangreind samþykkt bindur ekki hendur eigenda við frekari stefnumótun, þ. á m. varðandi breytingar á rekstrarformi Sorpu bs., kjósi þeir svo. Vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Valdimar Víðsson tekur til máls.

Samþykkt samhljóða.
4. 1903304 - Sérstakur húsnæðisstuðningur
3.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 22.ágúst sl.
2.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 20.ágúst sl.
Drög að reglum um sérstakan húsnæðisstuðning lagðar fram til kynningar.
Soffía Ólafsdóttir deildarstjóri og Áslaug Kristjana Árnadóttir verkefnastjóri félagslegra húsnæðismála mæta til fundar undir þessum lið.

Fjölskylduráð samþykkir að hækka skilyrði til samanlagðs húsnæðisstuðning úr 90.200 kr í 100.000 kr. Breytingarnar taki gildi frá og með 1. júlí 2024.


Fjölskylduráð samþykkir uppfærslu á reglum Hafnarfjarðarkaupsstaðar um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við breytingar á lögum og samþykkt ráðsins um breytingar á samanlögðum húsnæðisstuðningi.

Bæjarráð samþykkir að hækka skilyrði til samanlagðs húsnæðisstuðnings úr 90.200 kr. í 100.000 kr. Breytingarnar taka gildi frá og með 1. júlí 2024.
Vísað í bæjarstjórn til staðfestingar.
Margrét Vala Marteinsdóttir tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson tekur einnig til máls.

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar samþykkja að hækka skilyrði til samanlagðs húsnæðisstuðnings úr 90.200 kr. Í 100.000 kr. líkt og samþykkt hefur verið í Fjölskylduráði og bæjarráði sem og að sú hækkun sé afturvirk, frá og með 1. júlí sl. Samfylkingin gagnrýnir hins vegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri Grænna skuli enn ekki hafa komið til framkvæmda tillögum um einföldun húsnæðisbótakerfisins sbr. tillögur í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 2020 sem byggði á tilraunaverkefni stofnunarinnar og tveggja sveitarfélaga, Skagafjarðar og Kópavogs. Í þeirri skýrslu var lagt til að almennar húsnæðisbætur ríkisins og sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga yrði sameinuð í eitt opinbert stuðningskerfi við leigjendur til að auka skilvirkni og bæta þjónustu við almenning. Einnig til að auka yfirsýn í málaflokknum og að gæta að jafnræði meðal landsmanna. Ríkisstjórnin hefur ekkert brugðist við þessum tillögum og kerfið er óskilvirkt og ekki skipulagt með þarfir leigjenda í huga. Þetta sýnir enn og aftur það stefnu- og úrræðaleysi sem einkennir öll störf ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem ætti að vera búið að ganga leysa til heilla fyrir leigjendur en því miður skilar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri Grænna auðu í þessu sem öðru.



5. 2407262 - Axlarás 21, umsókn um lóð
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 22.ágúst sl.
Lögð fram umsókn Elvu Drafnar Sigurðardóttur og Baldurs Gunnlaugssonar um lóðina nr. 21 við Axlarás. Til vara er sótt um lóðina nr. 19 við Axlarás.

Bæjarráð samþykkir að úthluta lóð nr. 21 við Axlarás til Elvu Drafnar Sigurðardóttur og Baldurs Gunnlaugssonar.
Vísað í bæjarstjórn til staðfestingar.
Samþykkt samhljóða.
6. 1709249 - Samþykktir um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar
12.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 22.ágúst sl.
Tekið til umræðu að beiðni fulltrúa Samfylkingarinnar.


Samfylkingin leggur fram svohljóðandi tillögu: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela forsetanefnd bæjarins að endurskoða og yfirfara samþykktir Hafnarfjarðarbæjar. Sérstaklega er henni falið að skýrgreina aðkomu kjörinna fulltrúa og rétt þeirra varðandi ráðningar.

Málinu vísað til bæjarstjórnar.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls.

Samþykkt samhljóða.
7. 2403006 - Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, breyting Hvaleyrarholt suðaustur
1.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 22.ágúst sl.
Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 samhliða breytingu á deiliskipulagi fyrir nýja íbúðabyggð á Þorlákstúni. Tillagan gerir ráð fyrir breyttri landnotkun SL4, skógræktar- og landgræðslusvæði, í ÍB7, íbúðasvæði, með um 50 íbúðum.

Skipulags- og byggingarráð samþykkir að tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 vegna breytinga á landnotkun verði auglýst og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

Orri Björnsson tekur til máls. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.

Þá tekur Guðmundur Árni Stefánsson til máls.

Samþykkt samhljóða.
8. 2311708 - Drangahraun Skútahraun breyting á deiliskipulagi
5.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 22.ágúst sl.

Lögð fram samantekt athugasemda. Lagður fram uppfærður deiliskipulagsuppdráttur.

Skipulags- og byggingarráð tekur undir svör við framkomnum athugasemdum og samþykkir uppfærða tillögu að deiliskipulagi Drangahraun og Skútahrauns og vísar til samþykkis í bæjarstjórn.
Samþykkt samhljóða.
9. 2309612 - Ásland 4, deiliskipulag endurskoðun
6.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 22.ágúst sl.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 5. júní sl. að auglýsa breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga fyrir Ásland 4. áfanga.
Breytingin gerir m.a. ráð fyrir að gatan Brunnás verði lögð samsíða Markarási. Gatan Byrgisás kemur neðan við og samsíða Brunnási. Lega Markaráss, áður Grófarás, verði aðlöguð landi auk þess sem hringtorg við Grófir færist til austurs. Keðjuhús og fjölbýli er felld niður sem og hús á bröttum og erfiðum lóðum, stígar og leiksvæði breytast. Húsgerðir breytast. Tillagan var í kynningu 13.6. - 26.7.2024. Umsagnir bárust frá Mílu og HS veitum. Lögð fram samantekt athugasemda og uppfærð greinargerð.

Meirihluti skipulags- og byggingarráð samþykkir breytt deiliskipulag Áslands 4 með uppfærðri greinargerð í samræmi við athugasemdir HS veitna og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa í fyrri bókun sem var lögð fram á fundi skipulags- og byggingaráðs 30. maí og er eftirfarandi:

Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu um breytt deiliskipulag fyrir Ásland 4 er gert ráð fyrir að öll fjölbýli eru tekin út í seinni áfanga Áslands 4. Á svæðinu öllu fækkar því íbúðum í fjölbýlum um 327 sem er um 40% fækkun og sérbýlum fjölgar um 227. Með þessari breyttu nýtingu fækkar íbúðum um 100 sem jafngildir um 250 íbúum.

Byggingarland er ekki ótakmörkuð auðlind og fá ný byggingarsvæði eru eftir í Hafnarfirði og því þarf að nýta þau svæði vel sem eru í boði. Á sama tíma er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, sérstaklega hjá ungu fjölskyldufólki. Þá kemur fjölgun sérbýla í stað fjölbýla m.a. niður á nýtingu innviða og fjárfestinga í nýju hverfi og er auk þess ekki í samræmi við umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar þar sem segir að við skipulag byggðar verði horft til þess að hún sé þróuð inn á við og þétt, ekki síður en að víkka enn frekar út til óbyggðra svæða.

Ljóst er að breytingin rýrir gæði byggðar. Dregið er verulega úr fjölbreyttum húsnæðiskostum, en þeir laða að ólíka þjóðfélagshópa og fólk á mismunandi æviskeiðum. Fjölgun sérbýla á kostnað fjölbýla er ekki kostur einkum fyrir ungt fólk sem leitar að hagvæmu húsnæði. Þá er í tillögunni dregið úr vægi opina svæða og leikvalla. Göngustígur sem liggur í gegnum hverfið sem myndar grænan ás og er aðgengilegur öllum er það ekki aðgengilegur öllum í fyrirliggjandi breytingartillögu. Það er ekki í samræmi við heilsustefnu Hafnarfjarðar þar sem segir að tryggja þurfi aðgengi fyrir alla á opnum svæðum og göngustígum.

Gildandi deiliskipulag tók gildi fyrir tveimur árum síðan sem var samstaða um og nú er verið að verja umtalsverðum tíma og fjármagni í að umbylta því. Hér er verið að kasta til höndunum eins og dæmin sýna sem er enn og aftur til marks um hringlandann hjá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
Orri Björnsson tekur til máls. Einnig Guðmundur Árni Stefánsson. Orri kemur til andsvars sem Guðmundur Árni svarar. Orri kemur þá til andsvars öðru sinni sem Guðmundur Árni svarar. Orri kemur að stuttri athugasemd.

Jón Ingi Hákonarson tekur til máls. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig kemur Orri til andsvars.

Þá tekur Guðmundur Árni til máls. Rósa kemur til andvsvars sem Guðmundur Árni svarar. Rósa kemur þá til andsvars öðru sinni sem Guðmundur Árni svarar.

Jón Ingi tekur þá til máls öðru sinni. Orri kemur til andsvars sem Jón Ingi svarar.

Samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu deiliskipulagsins og taka undir bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í Skipulags- og byggingaráði frá 30. maí sl. og 22. ágúst. Það breytta deiliskipulag sem meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks samþykkir hér í dag felur í sér að öll fjölbýli eru tekin út í seinni áfanga Áslands 4. Á svæðinu öllu fækkar því íbúðum í fjölbýlum um 327 sem er um 40% fækkun og sérbýlum fjölgar um 227. Með þessari breyttu nýtingu fækkar íbúðum um 100 sem jafngildir um 250 íbúum. Þessi breyting kemur sérstaklega illa við ungt fjölskyldufólk þar sem mikil þörf er á fjölbreyttum íbúðarhúsnæði því fjölgun sérbýla á kostnað fjölbýla kemur helst niður á ungu fólki sem leitar hagkvæms húsnæðis. Að auki hefur þessi breyting neikvæð áhrif á nýtingu innviða og fjárfestinga í nýju hverfi og hún er ekki samræmi við umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar þar sem segir að við skipulag byggðar verði horft til þess að hún sé þróuð inn á við og þétt, ekki síður en að víkka enn frekar út til óbyggðra svæða. Ljóst er að breytingin rýrir gæði byggðar og meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er því að kasta til höndunum í þessu máli sem er enn og aftur til marks um hringlandann í vinnubrögðum meirihlutans.

Bókun bæjarfulltrúa Viðreisnar

Hér er verið að lagfæra deiliskipulag í Áslandi 4 vegna þeirra slælegu vinnubragða sem áttu sér í upphaflegri skipulagsvinnu sem varð vegna pressu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að koma lóðum í auglýsingu fyrir kosningarnar 2022. Bæjarfulltrúi situr því hjá við afgreiðslu málsins.

Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Vert er að benda á að um 6000 íbúðir í fjölbýlishúsum eru nú þegar annað hvort í byggingu eða í áformum á skipulögðum þéttingarreitum í Hafnarfirði.
10. 2407223 - Fléttuvellir, lóð fyrir fráveitu, breyting á deiliskipulagi
9.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 22. ágúst sl.
Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann 10.07.2024 var samþykkt að grenndarkynna með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga erindi Hafnarfjarðarkaupstaðar um breytingu á deiliskipulagi vegna stofnunar lóðar fyrir dæluskúr fráveitu. Erindið var grenndarkynnt frá 12.07.2024 til 09.08.2024. Athugasemdir bárust. Lagt fram svar við athugasemdum.

Skipulags- og byggingarráð tekur undir svar við athugasemdum og fellur frá breytingu á deiliskipulagi. Erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Orri Björnsson tekur til máls.

Samþykkt samhljóða.
11. 2407227 - Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðum um málið.
13. liður úr fundargerð 3663. fundar bæjarráðs þann 22. ágúst 2024.
Samfylkingin óskar eftir upplýsingum um endurgjaldslausar skólamáltíðir í grunnskólum. Staða mála, svo sem varðar fjárhag og útgjöld, stöðu samninga við þjónustuaðila, kynning gagnvart foreldrum og börnum ofl. Einnig ítrekaðar yfirlýsingar bæjarstjóra um andstöðu við þessa réttarbót gagnvart barnafjölskyldum í bænum. Óskað er eftir sundurliðaðri kostnaðaráætlun frá fjármálastjóra varðandi haustönn grunnskólanna í þessu máli.
Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:
Undirrituð hefur fyrst og fremst bent á þá skoðun sína að ríkið hefði átt að beita öðrum aðferðum í kjarasamningsgerðinni í vor sem komið hefðu barnafjölskyldum vel. Til dæmis með ótekjutengdum barnabótum í stað þess að stilla sveitarfélögunum upp við vegg og hlutast til um gjaldskrár þeirra, í þessu tilviki vegna skólamatar. Hafnarfjarðarbær var hins vegar eitt fyrsta sveitarfélagið til að lýsa því yfir að skólamáltíðir yrðu gjaldfrjálsar frá og með hausti 2024.
Guðmundur Árni leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn og aftur ítrekar bæjarstjóri og Sjálfstæðisflokkurinn andstöðu sína við fríar skólamáltíðir í grunnskólum bæjarins og fjandskap sinn og flokksins við þær kjarabætur sem í þeim felast fyrir barnafjölskyldur í bænum. Það er athyglisvert.
Rósa leggur fram svohljóðandi bókun:
Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár skorið sig úr meðal sveitarfélaga og verið með mjög ríflega systkinaafslætti á skólamat og á frístundaheimilum. Það hefur reynst barnmörgum fjölskyldum mjög vel. Í kerfinu hefur líka verið hugað vel að því að þeir sem vilja borða fái að borða og haldið utan um þá sem höllum fæti standa. Málið snýst um að sveitarfélögin haldi sjálfstæði sínu og sjálfsákvörðunarrétti í ákvarðanatökum.
4. liður úr fundargerð 537. fundar fræðsluráðs frá 21. ágúst 2024.
Minnisblað lagt fram.
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir:
1. Hve mikinn kostnaðarauka fela fríar skólamáltíðir í grunnskólum í sér fyrir Hafnarfjarðarbæ? Ef kostnaðarauki er til staðar þá er óskað eftir sundurliðun á kostnaðaraukanum, í hverju hann felst og hvernig hann kemur til.
2. Hvernig verður fyrirkomulagi á kynningu til foreldra og barna á fríum skólamáltíðum háttað?
Sviðsstjóra falið að svara fyrirspurn.
Til máls tekur Guðmundur Árni Stefánsson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars. Guðmundur Árni svarar andsvari. Þá kemur Kristín Thoroddsen til andsvars.

Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls. Einnig Valdimar Víðisson. Árni Rúnar kemur til andsvars.

Fundarhlé kl. 16:11. Fundi framhaldið kl. 16:13.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Allt frá því ríkisstjórn og sveitarfélög samþykktu síðasta vetur, í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, að gera skólamáltíðir í grunnskólum gjaldfrjálsar hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gert sitt ítrasta til þess að leggja stein í götu þessa mikilvæga framfaramáls. Bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu, þar meðtalinn bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hafa ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við þessa réttarbót gagnvart barnafjölskyldum í landinu. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að frumkvæðið að þessu máli kemur frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri Grænna og í meirihlutasamkomulagi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði segir að stigin verði markviss skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum á kjörtímabilinu. Það er orðin afar sérstök staða þegar bæjarstjóri er kominn í beina andstöðu við sitt eigið meirihlutasamkomulag. Afstaða og stefna Samfylkingarinnar er skýr; grunnskólinn á að vera gjaldfrjáls.

Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Undirrituð hefur fyrst og fremst bent á þá skoðun sína að ríkið hefði átt að beita öðrum aðferðum í kjarasamningsgerðinni í vor sem komið hefðu barnafjölskyldum vel. Til dæmis með ótekjutengdum barnabótum í stað þess að stilla sveitarfélögunum upp við vegg og hlutast til um gjaldskrár þeirra, í þessu tilviki vegna skólamatar. Hafnarfjarðarbær var hins vegar eitt fyrsta sveitarfélagið til að lýsa því yfir að skólamáltíðir yrðu gjaldfrjálsar frá og með hausti 2024.

Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár skorið sig úr meðal sveitarfélaga og verið með mjög ríflega systkinaafslætti á skólamat og á frístundaheimilum. Það hefur reynst barnmörgum fjölskyldum mjög vel. Í kerfinu hefur líka verið hugað vel að því að þeir sem vilja borða fái að borða og haldið utan um þá sem höllum fæti standa. Málið snýst um að sveitarfélögin haldi sjálfstæði sínu og sjálfsákvörðunarrétti í ákvarðanatökum.
12. 2005180 - Samgöngusáttmáli
4. 2005180 ? Samgöngusáttmáli
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðu um Samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins og uppfærslu hans.
1. liður úr fundargerð bæjarráðs 22.08.2024.
Samfylkingin leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirliggjandi uppfærður samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðisins er mikilvægt tæki til að skipuleggja og ráðast í löngu tímabærar vegabætur fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Uppfærsla samningsins hefur tekið of langan tíma. Einnig hafa framkvæmdir frá upphaflegri undirritun samningsins frá 2019 gengið hægar en til stóð. Í þessum uppfærða samningi eru tímafrestir lengdir til ársins 2040. Það eru vonbrigði fyrir Hafnfirðinga að brýnar vegabætur á Reykjanesbraut frá hringtorgi við Lækjargötu að Kaplakrika og svo áfram að Engidal eru færðar aftur í tíma og munu eiginlegar framkvæmdir ekki hefjast fyrr en 2030 og ekki ljúka fyrr en árið 2033, eða síðar. Alveg er ljóst að grípa þarf til bráðabirgðalausna fyrir þann tíma, þannig að létt sé á þeirri umferðarstíflu sem þar er til staðar. Einnig er umhugsunarvert að ekki er litið til langtímalausna í samningnum er varðar Ofanbyggðaveg ofan Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. Almennt er þó samningurinn til mikilla bóta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, en mikilvægt er að honum verði fylgt.
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fagna því að loksins sé komin áætlun um framtíðaruppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu sem setið hefur eftir alltof lengi. Hér fara tugþúsundir ökutækja um göturnar á degi hverjum og löngu ljóst að bregðast þarf við af alvöru til að tryggja greiðari samgöngur og auka öryggi. Ánægjulegt er að nú sjáum við Hafnfirðingar fram á að kraftur verður settur í að leysa helstu umferðarhnútana í bænum á Reykjanesbraut frá Lækjargötu að Kaplakrika/Álftanesvegi. Í uppfærslu samgöngusáttmálans hefur fjármagn til verkefnisins aukist umtalsvert. Strax á næsta ári verður fjármagn sett í hönnun og undirbúning þessa mikilvæga verkefnis og framkvæmdir hefjast árið 2028.
Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu fyrir hönd Samfylkingar:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrirliggjandi samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem var undirritaður 24.ágúst síðatliðnum af hálfu sveitarstjóra og ráðherra, enda ráð fyrir því gert að sveitarstjórnir staðfesti gjörninginn. Hér er um mikilvægt samgöngumál að ræða, en mestu skiptir að yfirvöld vinni eftir þeim áætlunum sem finna má í sáttmálanum, en seinki þeim ekki eða ýti á undan sér, eins og raunin var um sambærilegan sáttmála frá 2019."

Þá tekur Rósa Guðbjartsdóttir til máls og leggur til að málinu og framkominni tillögu Samfylkingar verði vísað til frekari umræðu í bæjarráði, umhverfis- og framkvæmdaráði og skipulags og byggingarráði en tekið til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar. Guðmundur Árni kemur til andsvars.

Er það samþykkt samhljóða að vísa málinu til frekari umræðu í ofangreindum ráðum.

Rósa Guðbjartsdóttir víkur af fundi kl. 16:28.
13. 1811277 - Menntastefna
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir umræðum um menntastefnuna sem samþykkt var í Fræðsluráði 27. apríl 2022 og í bæjarstjórn þann 4. maí 2022. Einnig er óskað eftir upplýsingum um stöðu innleiðingar menntastefnunnar.
Fundarhlé kl. 16:29. Fundi framhaldið kl. 16:31.

Samþykkt samhljóða að fresta málinu til næsta bæjarstjórnar.
14. 2312020 - Óttarsstaðir, skipulag
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarstjóra að leita samninga við eigendur Óttarstaða hið allra fyrsta. Bæjarstjóri geri bæjarráði grein fyrir framvindu málsins í október næstkomandi.
Greinargerð: Fyrir liggur mikilvægi þess til framtíðar að Hafnarfjarðarbær eignist lóðir og lendur á svokölluðu Óttarstaðasvæði til frekari uppbyggingar íbúðar- og iðnaðar á svæðinu. Landið er í eigu allnokkurra aðila, sem hafa lýst yfir vilja sínum til viðræðna um uppkaup bæjarins. Einhver samtöl millum aðila hafa átt sér stað. Mikilvægt er að ganga til þessara verka nú þegar með skipulegum og markvissum hætti. Til greina kemur að starfshópur verði skipaður í verkefnið, en fyrst í stað er bæjarstjóra og öðrum embættismönnum falið að vinna frumvinnuna og gera kjörnum fulltrúum grein fyrir afrakstrinum strax á haustdögum, eða í október næstkomandi.
Samþykkt samhljóða að fresta málinu til næsta bæjarstjórnar.

Árni Rúnar tekur til máls undir fundarstjórn forseta.
Fundargerðir
15. 2401143 - Fundargerðir 2024, til kynningar í bæjarstjórn
Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 21.ágúst sl.
a. Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs frá 26.júní sl.
b. Fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 4. og 18.júní og 1.júlí sl.
c. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21.júní sl.
Fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 22.ágúst sl.
Fundargerð bæjarráðs frá 22.ágúst sl.
a. Fundargerð Stefnuráðs byggðasamlaganna frá 14.ágúst sl.
b. Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs frá 26.júní sl.
c. Fundargerðir 47. og 48. eigendafundar Strætó bs. frá 20.mars og 1.júlí sl.
d. Fundargerð stjórnar SSH frá 19.ágúst sl.
Fundargerð fræðsluráðs frá 21.ágúst sl.
a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 4.júní sl.
Fundargerð fjölskylduráðs frá 20.ágúst sl.
Fundargerð forsetanefndar frá 26.ágúst sl.
Guðmundur Árni tekur til máls í lok fundar og þakkar Sigrúnu Sverrisdóttur fyrir farsælt og ánægjulegt samstarf í bæjarstjórn og óskar henni fyrir hönd kollega sinna í bæjarstjórn góðs gengis á nýjum vettvangi. Bæjarstjórn teku undir þau orð.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:37 

Til bakaPrenta